20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að þeir menn, sem viðkomandi hreppsnefndir skipa í hafnarstjórn, væru betri fulltrúar sjómanna en þeir, sem Alþýðusamband Íslands mundi skipa. Mér er ekki kunnugt um, hverjir þeir menn eru, sem þessir hreppar mundu setja, en ég verð að efast um, að þeir mundu telja sig fulltrúa sjómanna. Enn fremur hef ég skilið það svo, að þarna ætti að byggja höfn fyrir sjómenn víðs vegar að af landinu, og færi svo, að aðkomu sjómenn yrðu allmiklu fleiri en hinir, þá hygg ég, að hreppsn. og Alþýðusambandið gætu ekki talizt sambærilegir fulltrúar fyrir sjómenn, því að þótt í sambandinu séu rakarar, klæðskerar og prentarar, þá eru flest sjómannafélög á landinu í því og mun vera miklu fjölmennari stétt en hinar. Og ef Alþýðusambandið ætti að velja fulltrúa til þessa, þá yrði það vitanlega fulltrúi sjómanna, en ekki annarra stétta, enda veit ég, að þessi ummæli hv. þm. Barð. verða ekki talin sem rök móti minni till. Alþýðusambandið er nánast landssamband sjómanna um leið og það er landssamband fleiri stétta og viðurkenndi hv. þm., að ef svo væri, þá væri það réttmætur aðili. Ég vil halda því fram, að brtt. mín sé á fullum rökum reist, og vænti, að hv. þdm. taki meira tillit til þeirra raka en þeirra tylliástæðna, sem þm. Barð. bar hér fram áðan.