20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Bjarni Benediktsson:

Ég ætlaði ekki að halda því fram, að Reykjavík og Hafnarfirði væri sýnd andúð með þessu frv. En hins vegar er það eins og hv. þm. Barð. sagði, að hér er um meginstefnumun að ræða, sem hægt er að tala um alveg öfgalaust og ópersónulega. Ég held, að það sé skynsamlegra að beita fjármagni ríkisins til atvinnuskilyrða á þeim stöðum, sem fólkið er þegar komið á og þar sem ljóst er, að færa þarf út greinar atvinnulífsins, ef forðast á vandræði, heldur en fara að byggja upp á eyðistöðum. Þetta er skynsamlegra að mínu viti, m. a. vegna þess, að á þessum fjölmennu stöðum er hægt að veita fólkinu ýmiss konar hlunnindi, sem það fær aldrei veitt sér á þessum smærri stöðum. Þetta á ekki sérstaklega við um þá höfn, sem hér um ræðir. Ég tel eðlilegt, að þar sé byggð stór og góð höfn. Ég tala meira um málið sem eins konar forustumál annarra slíkra mála. Hér er líka um gamlan og þekktan sjávarútvegsstað að ræða, en það verður ekki sagt um alla aðra staði, þár sem talað er um að byggja landshöfn. Ég hreyfði þessari aths. vegna þess, að ég er á móti þeirri meginstefnu, sem hér er um að ræða. Ég hef ekki trú á henni. En út af fyrir sig hef ég ekki nokkra löngun til að leggja stein í götu þessa máls, sem hér er til umr. En frá minni hálfu er ekkert annað að gera en að sjá til, hvernig til tekst með þetta.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að í því frv., sem hér liggur fyrir, er ekki hallað á Reykjavík, og er það ekki meining mín að halda því fram. Það er líka rétt hjá honum, að í hafnarfrv., sem afgr. var hér á dögunum, var ekki heldur hallað á Reykjavík, ef frv. verður skilið orðum sínum samkv. En vegna þess að ég hef orðið þess var, að sumir telja það ekki koma til mála, að Reykjavíkurhöfn sjálf fái fjárframlög úr ríkissjóði vegna fyrirvara í upphafi l. um efnahag hafnanna, þá er á Reykjavík hallað, ef meiningin er að skilja l. á þann hátt. Ef meiningin er að nota viss ákvæði l. til að gera rétt hennar að engu, þá er á hana hallað. Og það, sem styrkir þennan grun, þann grun, að meiningin sé að setja Reykjavíkurhöfn á lægri bekk en aðrar hafnir, er það, að Reykjavíkurhöfn skuli vera skipt í tvennt, þannig að gert er upp á milli Elliðaárvogs og Reykjavíkurhafnar. Ef þetta er ekki tilgangurinn, fæ ég ekki annað séð en það hafi verið með öllu tilgangslaust að kljúfa höfnina þannig í sundur eins og í frv. er gert. Ég taldi þá ekki ástæðu til að beita mér á móti þeirri klofningu, taldi hana gagnslausa og þýðingarlausa. En slíkt hefði ég vitanlega gert, ef ég hefði vitað, hver tilgangurinn er, eins og nú er fram komið, sem sé sá að láta Reykjavík sitja á hakanum. Og sá sanni tilgangur, sem bak við þennan klofning er, er ekki fallegri eða réttlætanlegri, þótt sjálft ákvæðið sé ósköp áferðarfallegt. Þetta mál, um styrk til Reykjavíkurhafnar, er ekki til umr. og ætla ég því ekki að fara fleiri orðum um það. Við hv. þm. Barð. höfum rætt það áður og eigum kost á að ræða það hér í d. aftur, svo að ekki er ástæða til að blanda því inn í þetta mál. Ég vildi einungis láta þessa aths. koma fram. Ég tel sem sagt það skynsamlegra, að ýtt sé undir hafnarframkvæmdir á þeim stöðum, þar sem svo margt fólk er fyrir, að það geti staðið undir þeim skuldbindingum, sem ætlazt er til, að fólkið standi undir samkv. hinum almennu hafnarl. Ég tel, að hlúa eigi að framkvæmdum samkv. þeim l., heldur en gera slíkar sérráðstafanir eins og hér er verið með upphaf á.