26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þess var getið, þegar frv. kom fyrst fram, að sú leið hefði verið valin að flytja frv. mþn. óbreytt án þess að koma fram með nokkrar brtt. við það. Mér kemur þess vegna ekki á óvart, þó að hv. sjútvn. hafi gert á því breyt. Það er ljóst, að málið þarfnast nákvæmrar athugunar, enda sat mþn. lengi með málið og hv. sjútvn. hefur haft það til meðferðar á 8 fundum.

Ég vil þá með örfáum orðum segja álit mitt á brtt. þeim, sem fram hafa komið frá n. Fyrsta brtt. a. er við 1. gr. frv. Ég hafði eftir viðtali við n. haldið, að ráðuneytinu væri heimilt að ábyrgjast hærra fjármagn en ákveðið er á fjárl. í hvert og eitt skipti. En eins og orðalagið er þarna, er mér ekki ljóst, hvort n. er á þeirri skoðun, að þetta eigi að vera svona. Um b-lið í 1. brtt. er það að segja, að það er aðeins orðalagsbreyt., e. t. v. heppilegri. Um c-liðinn er það að segja, að hann er nýmæli, því að þar er víkkuð nokkuð heimild til þeirra mannvirkja, sem styrkhæf þykja, þar sem upp eru teknar uppfyllingar, dráttarbrautir, þurrkvíar o. s. frv.

Þá er 2. gr. Við hana hefur verið gerð sú veigamikla brtt., að aðeins séu tveir flokkar. Þetta getur komið til með að baka ríkinu aukin útgjöld, en mun annars verða heppilegra fyrirkomulag. Um skiptinguna í flokkana má auðvitað alltaf deila, en þó er það nýmæli aftast í brtt., þar sem segir: „Fari heildarkostnaðaráætlun lendingarbóta, sem hér eftir verða gerðar á einhverjum stað, fram yfir 800 þús. kr., skal staðurinn teljast, að svo miklu leyti sem þar er umfram, til hafnar undir A-lið þessarar gr. og fá eftir það styrk og ábyrgð samkv. því.“ — Þetta er stór kostur, og þarf þá ekki um að deila, ef aðeins er samkomulag um að halda markinu ákveðnu.

Sum atriði hjá n. eru þó óljós, eins og t. d. með Elliðaárvog, þar sem tekin er upp höfn innan í annarri höfn. Þetta getur haft eina mikilvæga breyt. í för með sér, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. Svo getur farið, ef síðasta brtt. n. verður samþ., að Reykjavíkurhöfn fengi ekki til sinna framkvæmda eins og henni ber skv. 2. gr. frv., vegna þess hve auðug hún er. Þetta yrði gott í því tilfelli, að byggð yrði skipasmíðastöð, dráttarbraut o. fl. þarna innfrá. Það hefur verið um það deilt, hvar þessi mannvirki yrðu sett, en þetta gæti ráðið úrslitum um það, og yrði þá Elliðaárvogi veittur fullur styrkur. Mér virðist, að dæmið gæti legið svona fyrir, ef brtt. n. yrði samþ.

Ég bendi á það til athugunar, að hafnarstjórnin í Reykjavík hefur látið gera kostnaðaráætlun um mannvirkin í Elliðaárvogi. Það eru náttúrlega stór mannvirki, sem standa fyrir höndum á þessum stað, þó að hann sé sakleysislega kallaður Elliðaárvogur við Reykjavík og sé höfn innan í annarri höfn.

Að öðru leyti hef ég ekki nema gott um þessar brtt. að segja, nema brtt. við 9. gr. Ég er ekki alveg viss um gildi þeirrar brtt., fremur en þeirra, sem ég nú nefndi. Sú brtt. er um afstöðu einkamannvirkja til hafnarstjórnar og skattaálagningu á þeim hafnarmannvirkjum innan hafnarinnar. Samkv. brtt. n. á að bæta aftan við 3. málsgr. 9. gr. nýrri málsgr. eða parti úr málsgr., þannig að málsgr. verði eftir það svo: „Enn fremur er heimilt að ákveða í reglugerðinni, að árlegt gjald skuli greiða af bryggjum eða mannvirkjum, sem gerð eru samkv. 5. gr.,“ — eins og mgr. er nú í frv., og svo komi: „ef þau standa á lóðum hafnar- eða lendingarbótasjóðs eða njóta hlunninda af hafnargerðinni, svo sem vegna byggingar hafnargarða, dýpkana eða annarra hafnarmannvirkja.“ Þetta finnst mér út af fyrir sig eðlilegt ákvæði, og hefur því verið beitt nokkuð við setningu hafnarreglugerða, eða hefur verið haft til hliðsjónar um það, er óhætt að segja, — ekki þannig, að sett hafi verið ákvæði, sem gera ráð fyrir, að hafnarmannvirki einstaklinga séu innan takmarka ,annarra hafna, eins og undir þessum kringumstæðum, heldur hefur þannig venjulega verið sett sama bryggjugjald eða vörugjald á þau mannvirki, eins og um opinber hafnarmannvirki væri að ræða. Og þá hefur verið reynt að hafa það sjónarmið að láta ekki aðra greiða þessi gjöld en þá, sem nytu einhverra hlunninda þess opinbera aðila á staðnum, hafnarsjóðs. Þetta sjónarmið hefur þó verið brotið, og það hafa verið sett bæði bryggjugjöld og vörugjöld á einkabryggjur, sem engra slíkra fríðinda njóta. Hefur það verið gert samkv. eldri úrskurðum frá atvmrn. Og er það þá sennilega byggt á því, að sá opinberi aðili á staðnum, hafnarsjóður, leggi einstaklingnum til aðstöðuna, leguna, sem sé þá sameign allra íbúanna á staðnum, en hann njóti í fyllra mæli en þeir. En gott væri að setja um þetta ákveðnar reglur, og ég hef látið það í ljós við ráðuneytið sem vitamálastjóri á sínum tíma, að ég tel það sanngjarnt viðmiðunarskilyrði, að eigandi einstaklingsmannvirkis til hafnarbóta nyti einhvers góðs af opinberum framkvæmdum hafnarmannvirkja á staðnum, t. d. vegna dýpkunar, brimbrjóts, leiðarljósa eða annars slíks, áður en hann færi að borga árlegt afgjald af hafnarmannvirkjum sínum.

En svo er b-liður 3. brtt. sjútvn. um, að á eftir 3. málsgr. komi tvær nýjar málsgr. um það, að af hafnarmannvirkjum einstaklinga eða félaga megi engin önnur gjöld taka en þau, sem hlutaðeigendur samþykki, í hafnar- eða lendingarbótasjóð. Þetta þýðir þá það, að það megi ekki leggja á þessi mannvirki einstaklinga eða félaga nein vörugjöld né bryggjugjöld, ekkert nema eitt fast árlegt gjald, sem eigandi þarf ekki sérstaklega að samþ., en til þess að leggja á önnur gjöld en þau, sem þarna eru nefnd, þarf samkv. brtt. samþykki eiganda mannvirkisins, sem er gefið, að í flestum tilfellum mun ekki fást, þegar um aukin gjöld hjá honum er að ræða.

Um 4. brtt. hef ég ekkert að segja. Það virðist vera eðlileg brtt.

En svo er 5. brtt., sem segir, að á eftir 14. gr. komi ný gr., sem verði 15. gr., þannig: „Nú eru eignir og tekjur hafnar- eða lendingarbótasjóðs það miklar, að þær geta að dómi ráðuneytisins staðið undir nauðsynlegum framkvæmdum nýrra hafnármannvirkja, auk rekstrargjalda, og ber ríkissjóði þá ekki að greiða styrk til framkvæmdanna né ábyrgjast lán til þeirra.“ — Þetta hefur nokkuð til síns máls og er kannske eðlilegt ákvæði. En ég er hræddur um, að það verði erfitt fyrir ráðuneytið að skera úr um það, eftir hvaða reglum á að fara til þess að ákveða, hvort viðkomandi hafnar- eða lendingarbótasjóður í hvert sinn, sem um er að ræða, getur staðið undir þeim framkvæmdum, sem hann hefur með höndum. Á ráðh. eða ráðuneytið að ákveða það eftir rekstraryfirliti eða að færa líkur fyrir því, að viðkomandi aðili geti staðið undir lánum til nauðsynlegra framkvæmda nýrra hafnarmannvirkja eða framkvæmt þau á líkan hátt? Þetta hefði verið æskilegt, að hefði verið greinilegar orðað. En meininguna sjálfa finnst mér hægt að fallast á, því að hún stefnir í rétta átt. En þó verður þetta að nokkru leyti einfaldara í framkvæmd, vegna þess að það verður náttúrlega fjvn., sem á hverjum tíma kemur til með að ákveða, hvort styrkur er veittur til viðkomandi staða í þessu efni. Og þá verður það fjvn., en ekki ráðuneytið, sem gerir það upp, hvort þessi eða hinn aðili hverju sinni skuli fá styrk til slíkra framkvæmda eða ekki, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hér sé átt við það, að ráðuneytið eigi að neita að borga styrk til þess konar framkvæmda, sem fjvn. hefur samþ. að veita, heldur ef styrkurinn er til slíkra framkvæmda kominn inn í fjárl. til einhvers staðar eftir athugun á öllum aðstæðum þar, þá verði það fé greitt út af rn. eins og fjárl. segja til um. Og þá hefði átt að standa í þessari gr., að það væri að dómi Alþ., en ekki að það væri ráðuneytisins að meta efnahagsástæður viðkomandi hafnar- eða lendingarbótasjóðs.

Ég vil svo aðeins ljúka máli mínu með því að þakka hv. sjútvn. fyrir það augsýnilega mikla verk, sem hún hefur lagt í að afgr. þetta mál, og fyrir það, hve rækilega hún hefur farið í gegnum það. Brtt. við frv. eru sízt meiri en ég hafði búizt við. Margar þeirra voru nokkuð orðaðar við 1. umr. málsins og komu mér því ekki á óvænt. Hitt er annað mál, að alltaf geta orðið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvernig ýmsar þessara hugsana, sem vakað hafa fyrir hv. n. og öðrum, eiga að klæðast í búning til þess að koma sem skýrast fram.

Ég hef aðeins látið í ljós mínar efasemdir viðkomandi ákvæðunum um Elliðaárvog og brtt. við 9. gr. frv. Ég vildi óska skýringa við a-lið 3. gr. En að öðru leyti er ég brtt. samþykkur.