26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, og ber að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir að beita sér fyrir flutningi frv.

Einnig geri ég ráð fyrir, að meginhluti þessara brtt., sem hv. sjútvn. flytur, sé til bóta, þó að álitamál kunni að vera um einstakar þeirra. Það er þá sérstaklega 5. brtt., sem ég vildi fara um nokkrum orðum. Það má segja, að að svo miklu leyti sem hafnar- eða lendingarbótasjóðir geta staðið undir áframhaldandi aukningu hafnarmannvirkja, þá sé óþarft, að ríkið veiti til þess fé. En þá er það fyrsta, hver eigi að skera úr þessu, hvort vert sé að veita fé til þessa eða hins aðila eða ekki. Ég get ekki betur séð, eftir því sem 5. brtt. hljóðar, en að það sé ráðh. hverju sinni, sem eigi að skera úr um það, en ekki Alþ. Þetta virðist mér ákaflega ósanngjarnt að taka úrskurðarvaldið þannig af Alþ. í þessu efni og fá það ráðh. Mér sýnist hitt miklu eðlilegra, að hafa það eins og hv. þm. Barð., frsm. n., sagði, að þetta hefði verið haft, þannig að Alþ. léti þær hafnir sitja á hakanum um aðstoð, sem bezta hafa aðstöðuna. Og Alþ. á að vera vel treystandi til þess. Og það mætti þá hafa fyrirkomulag um það eitthvað svipað og í þessu frv. er gert ráð fyrir, ef menn telja það rétt. En það verður að vera Alþ., en ekki ráðh. hverju sinni. Nú treysti ég að vísu vel þeim hæstv. ráðh., sem fer með samgöngumálin í bili. En bæði er það, að traust manna á ráðh. yfirleitt er misjafnt, hver sem er í ráðherrastóli, og svo geta mannaskipti orðið hvenær sem er. Ég vil því beina því til hv. n., hvort það sé ekki ætlun hennar, að úrslitavaldið um þetta sé hjá Alþ., en ekki ráðh., og ef svo er, að koma þá með nýjar brtt. um það á milli umr. Ég hygg, að þetta hafi ekki verið skoðað svo ofan í kjölinn sem skyldi.

Hitt er líka fullkomlega álitamál, hvenær höfn er þess umkomin að standa undir nauðsynlegum aukningum á hafnarmannvirkjum. Hv. þm. Barð. gat sérstaklega um Reykjavíkurhöfn í þessu sambandi. Rétt mun það að vísu vera, að í Reykjavíkurhöfn hafa verið gerð stórfenglegri hafnarmannvirki en annars staðar á landinu og að hafnarsjóður hefur staðið undir þeim öllum nema 400 þús. kr. í upphafi, sem ríkið lagði fram. En því ber ekki að neita, að þó að hafnarsjóður hafi staðið undir áframhaldandi stækkun hafnarinnar, þá hefur oft skort fé til þess, að þessum áframhaldandi mannvirkjum gæti verið haldið áfram með þeim hraða, sem æskilegt hefði verið. Og t. d. nú eru svo mörg mjög aðkallandi verkefni, sem leysa þarf innan Reykjavíkurhafnar, þeirrar gömlu Reykjavíkurhafnar, að þó að ég efist ekki um, að hafnarsjóður geti lokið þeim öllum áður en lýkur, þá býst ég við, að það muni dragast miklu lengur en æskilegt er vegna atvinnulífsins í landinu í heild, ef útilokað er, að ríkið styrki þau. Það er þess vegna hér um að ræða æskilegan hraða í framkvæmdum, og honum verður ekki náð, nema hafnarsjóður fái yfir meira fé að ráða en hann sjálfur hefur aflögu. Og þess vegna taldi ég það vera ákaflega óheppilegt, ef setja ætti lagafyrirmæli, sem útilokuðu, að Reykjavíkurhöfn fengi styrk frá ríkinu. En þar sem í brtt. segir, að ef hafnareða lendingarbótasjóðir geti staðið undir nauðsynlegum framkvæmdum nýrra hafnarmannvirkja, þá beri ríkissjóði ekki að greiða styrk til framkvæmdanna o. s. frv., þá tel ég, að þessi brtt., þó samþ. væri, útiloki það alls ekki, að Reykjavíkurhöfn gæti fengið styrk í þessu efni eins og aðrir staðir. Og hef ég þess vegna ekki út af fyrir sig á móti þessu fyrirkomulagi. Það er einungis sú skýring, sem hv. frsm. n. gaf, sem ég tel algerlega rangláta, að taka Reykjavíkurhöfn sem sérstakt dæmi í þessu tilfelli, þar sem vitað er, að framkvæmdir, sem hér standa fyrir dyrum, hljóta að tefjast mjög óheppilega, ef ríkissjóður stendur ekki undir þeim með hafnarsjóði. Ég beini því til hv. frsm. sjútvn. og hæstv. samgmrh., að jafnvel þó að sett væru einhver fyrirmæli um það, að hafnir, sem væru betur stæðar en aðrar, fengju ekki beint framlag úr ríkissjóði, þá getur það verið bæði óheppilegt og óeðlilegt að meina ríkissjóði að ganga í ábyrgð fyrir lánum, sem tekin eru til slíkra hafnargerða. Segja má að vísu, að þessi brtt. meini ekki slíka ábyrgð. En þá þarf að flytja sérstakt lagafrv. um ábyrgð í hvert sinn. Hitt væri miklu eðlilegra, að sundurskilja styrkveitingar samkv. frv. og ábyrgðarheimildir. Og mér skilst, að ef 5. brtt. n. verður samþ. á þann veg, sem n. leggur til, þá þurfi að breyta henni að þessu leyti og veita rífari heimildir til ábyrgðar en gert væri með þessari gr., ef samþ., væri eins og brtt. hljóðar. Og það væri þá samgmrh. og fjmrh., sem ættu að skera úr um það — það væri eðlilegast, að það heyrði undir þeirra verksvið —, hvort skilyrði eru hverju sinni til ábyrgðarveitingar. Og ég vona, að hv. þdm. sé ljóst, að jafnvel þó að Alþ. einhverju sinni teldi ekki ástæðu til að styrkja höfn með beinum fjárframlögum, þá getur verið fullkomin sanngirni í því, að það veiti ábyrgðarheimild til hafnarframkvæmda í þeirri höfn. Þessu vildi ég beina til hv. n. og hæstv. samgmrh. til athugunar.

Þá hafa orðið hér nokkrar umr. um höfn í Elliðaárvogi. Ég verð nú út af fyrir sig að harma það, að hv. þm. Barð. skyldi nota þessar brtt. til þess að vera með hnútur í garð hafnarstj. og bæjarstj. Reykjavíkur um það, að þær hefðu staðið á móti hafnargerð inni í Elliðaárvogi, þrátt fyrir fram rétta hönd hæstv. Alþ. Ég vil algerlega mótmæla því, að það sé rétt, að hafnarstj. og bæjarstj. Reykjavíkur hafi staðið á móti þessum framkvæmdum. Enn sem komið er hafa bæði hafnarstj. og bæjarstj. gert sitt til þess að hrinda þessum framkvæmdum áleiðis. Hitt er svo annað mál, að hvorki bæjarstj. né hafnarstj. hafa talið það verjandi að ráðast í framkvæmdir þarna innfrá, fyrr en lokið væri heildaráætlunum um þessi mannvirki. Og eins og hæstv. samgmrh. sagði áðan, er þessum áætlunum nú lokið. Þær voru í fyrsta skipti lagðar fyrir hafnarstjórnarfund s. l. laugardag. Ég hafði séð þær örfáum dögum áður. Og þær áætlanir eru nú svo stórfelldar, að — eins og hæstv. samgmrh. gat um, — gert er ráð fyrir, að þau mannvirki, sem þar eru teiknuð, kosti milli 40 og 50 millj. kr. En í þeirri áætlun er sleppt úr ýmsu, sem hafnarstj. taldi, að mundi kosta um 15 millj. kr., lauslega áætlað. Og þá erum við komnir með þessa kostnaðaráætlun á milli 60 og 70 millj. kr. Ég er nú algerlega leikmaður í þessum efnum, og skal ég ekki dæma um, hvort þessar áætlanir eru réttar eða ekki. Og m. a. þess vegna gerði ég það að till. minni á hafnarstjórnarfundinum að senda þessar áætlanir til mþn., sem í upphafi kom með till. um þessa skipasmíðastöðvarbyggingu við Elliðaárvog, til þess að það yrði athugað af þeirri n. og hún léti álit sitt í ljós um þessar áætlanir. Eins gerði ég ráð fyrir, að þær yrðu sendar vitamálastjóra til athugunar. En það hefur tekið alllangan tíma að gera þessar áætlanir og teikningar. Og ég vonast til þess, að hv. þdm. geri sér það ljóst, að það er ekki vegna neinnar tregðu hjá hafnarstj. eða bæjarstj. Reykjavíkur, að ekki er byrjað á þessu mannvirki, fyrr en áætlun er til um það. Og vissulega eru þessar áætlanir um kostnað svo stórfelldar upphæðir, að þær hljóta að gefa manni ástæðu til þess að athuga, hvernig eigi að afla fjár til þessara miklu framkvæmda, áður en í þær er ráðizt. Hv. þm. gat um það, að samþ. hefðu verið lög á Alþ. 1943 um Elliðaárvog, sem reyndar eru góðra gjalda verð. Með leyfi hæstv. forseta stendur í 1. gr. þeirra l. : „Til hafnargerða, skipakvía, dráttarbrauta og annarra mannvirkja í sambandi við skipasmíðastöð við Elliðaárvog veitast úr ríkissjóði 2/5 kostnaðar eftir áætlun, sem ríkisstj. hefur samþ., þegar fé er til þess veitt í fjárl., allt að 2 millj. króna, gegn 3/5 frá hafnarsjóði Reykjavíkur.“ — Það má segja, að hæstv. Alþ. hafi sýnt málinu velvilja með þessu. Hitt er ljóst, að ef þessar áætlanir, sem fram hafa verið lagðar, ná nokkurri átt, sem ég er ekki fær um að dæma, þá er fyrirheit um 2 millj. kr. fjárveitingu, sem ekki einu sinni er búið að veita á fjárl., nokkuð, sem hrekkur skammt upp í kostnað við framkvæmdir þarna, sem að lokum er gert ráð fyrir, að muni kosta 60–70 millj. kr. — Þó að þetta komi setningu þessara l. ekki sérstaklega mikið við, vildi ég upplýsa þetta hér, að gefnu tilefni frá hv. þm. Barð., sem mér fannst að ástæðulausu fara að hnýta í bæjarstj. Reykjavíkur í þessu sambandi. Hitt verð ég svo að segja, að þó að ég geti fallizt á það með hæstv. samgmrh., að að vissu leyti sé óeðlilegt, að Elliðaárvogur sé sérstaklega talinn hér upp, þá finnst mér þar vera um svo sérstök mannvirki að ræða, að ég skil fyllilega, hvers vegna hv. n. hefur tekið þau hér sérstaklega. Og síður en svo tel ég varhugavert, þó að skipasmíðastöð þar innfrá hefði sérstakan fjárhag, ef til kemur. Og ég teldi það eðlilegt og æskilegt. Hitt er annað mál, sem sett yrðu reglugerðarákvæði um, hvort sett yrði sérstök hafnarstj. yfir hafnargerð í Elliðaárvogi. Ég teldi rétt að hafa sömu hafnarstj. fyrir allan bæinn.

Þangað til ég kem auga á glögg rök á móti því að taka Elliðaárvog sérstaklega upp í l., mun ég vera með brtt. hv. n. um það. Ég tel það vera eðlilegast. Og ég óttast ekki svo mjög sem hæstv. samgmrh., að nafnið Elliðaárvogur í þessum l. muni gera út um það, hvort endanlega verður ráðizt í þau hafnarmannvirki, sem ráðgerð hafa verið þarna innfrá, og hvort þau verða sett þar eða annars staðar í Reykjavíkurhöfn. Það verður auðvelt að leita um það álits sérfræðinga nú, eftir að þessar áætlanir liggja fyrir og málið er komið á nokkuð fastan grundvöll til umr. Því að þá verður að leita álits hinna fróðustu manna um það, hvort ráðlegt sé að hefjast handa um þessar framkvæmdir þarna innfrá eða breyta til og reyna að hrinda nauðsynlegum framkvæmdum af stað inni í sjálfri Reykjavíkurhöfn, þ. e. við aðalhöfnina. Og þá yrði sá staður auðvitað valinn áður en lýkur, sem hagkvæmastur þykir, þegar öll atvik koma til greina. Enda er það svo, eins og ég hef bent á hér áður, að l. banna alls ekki, ef brtt. n. verður samþ. um nýja 15. gr., að mannvirki innan Reykjavíkurhafnar séu styrkt af ríkissjóði, jafnvel þó að hv. þm. Barð. taki Reykjavík sem dæmi um stað, sem sízt þyrfti á styrk að halda. En ég held, að þessi skipasmíðastöð sé svo sérstaks eðlis, að það sé eðlilegt að halda styrkveitingu til hennar út af fyrir sig og utan styrkveitingar til Reykjavíkurhafnar. Á það get ég fallizt og mun greiða atkv. með brtt. hv. sjútvn. um þetta, ef ekki gefst sérstakt tilefni til að breyta þeirri ætlan minni.

Þá hjó ég í það, að hv. þm. Barð. sagði, að fjvn. mundi ekki vilja veita styrk til framkvæmda félags hér í bænum, sem heitir Skipanaust h/f. Nú vildi ég einmitt beina spurningu bæði til hæstv. samgmrh. og hv. frsm. n. um það, hvort þessi hafnarl. út af fyrir sig, þegar samþ. verða, útilokuðu það, að hægt væri að styrkja þannig hafnarframkvæmdir félaga og skipasmíðaframkvæmdir, sem einstaklingar eða félög réðust í. Mér skilst engin fyrirmæli vera í þessu frv., sem beinlínis banni þetta, því að mér finnst frv. þetta vera byggt á öðrum forsendum. Ég held nú, að styrkveitingar til þessa félags þurfi ekki að vera með öllu óeðlilegar. Þessi mannvirki, sem þetta félag ætlar að ráðast í, koma á engan hátt í bága við þær hugsanlegu framkvæmdir, sem hafnarsjóður mundi ráðast í, og er raunar á nokkuð öðrum slóðum, sem þau mannvirki hafa verið teiknuð, sem hæstv. samgmrh. og ég höfum gert að umræðuefni á þessum fundi. Og ég tel, að það sé ákaflega heppilegt, ef einstaklingar vilja leggja fé fram til þess að koma upp þeim mannvirkjum, sem h/f Skipanaust hefur hugsað sér að ráðast í. Ég álít ákaflega heppilegt, ef einstaklingar leggja sitt fé fram til þess að stuðla þannig að auknu atvinnulífi í landinu. Þetta þarf ekki heldur að stöðva bæinn í framkvæmdum, þegar hann telur þær tímabærar, og gerir framkvæmdir bæjarfélagsins sjálfs ekki eins aðkallandi og ella. Þó að þær komi engan veginn í staðinn fyrir þess ráðagerðir og séu annars eðlis, þá held ég, að það sé ekki óeðlilegt, þó að ríkið styrki þessar framkvæmdir svipað og sams konar framkvæmdir hafa verið styrktar úti á landi. Og viðkomandi styrk til einstaklinga í þessu efni mætti setja skilyrði, sem gerðu það að verkum, að einstaklingar fengju ekki styrkveitingar á óeðlilegan hátt. Bæjarsjóður hefur tryggt sér kauparétt á þessum mannvirkjum að 15 árum liðnum, þannig að seljendur fá, ekki greitt annað en sitt kostnaðarverð. Og ef frá því kostnaðarverði yrði dreginn á sínum tíma ríkissjóðsstyrkurinn og bein lagafyrirmæli sett um það í fjárveitingu Alþ., þá get ég ekki betur séð en að það komi fyrir Alþ og ríkisvaldið algerlega í einn stað niður, hvort einstaklingar ráðast í þessar framkvæmdir eða bæjarsjóður og hafnarsjóður, því að almenningshagsmunir sé ég ekki annað en að séu eins vel tryggðir í báðum tilfellum.

Vildi ég líka beina því til hv. frsm. n. og hæstv. samgmrh., hvort þeir teldu ástæðu til að breyta þessu frv., til þess að einstaklingsframkvæmdir yrðu styrktar, þannig að setja þessi skilyrði, sem ég gat um, eða ef ástæðulaust þykir að breyta því til þess, hvort þeir að fengnum þessum upplýsingum telja ekki ástæðu til að styrkja þá einstaklinga alveg eins og hafnarsjóð Reykjavíkur, ef ráðizt verður í þessar framkvæmdir, því að munurinn er ekki nema þessi, að einstaklingar réðust í þessar framkvæmdir vegna þess, að hafnarsjóður teldi sig ekki færan um að ráðast í þær, vegna þess að hann væri að keppast við að auka út sjálfa aðalhöfnina í bænum, sem er ekki aðeins bænum, heldur landsmönnum öllum til góðs. Sýnist mér ekki á neinn hallað eða neinum gerður óréttur, þó að þessir menn fengju styrk, ef menn á annað borð eru reiðubúnir til að veita Reykjavíkurhöfn styrk til þessara framkvæmda.

Þá bentu hv. frsm. n. og hæstv. samgmrh. á, að það vantaði í 5. gr. frv. tilsvarandi fyrirmæli eins og hafa verið í eldri hafnarl. um skyldur einstaklinga, sem hafa fengið rétt til þess að byggja mannvirki innan hafna, til þess að halda þeim mannvirkjum við. Við fljótan yfirlestur sá ég ekki, að þetta væri tekið fram í frv. En mér virðist eðlilegt, að slík ákvæði haldist. Eins sýnist mér eðlilegt, að sett yrðu fyrirmæli svipuð og hafa verið a. m. k. í hafnarl. fyrir Reykjavík, að ef menn fá leyfi til slíkra mannvirkja, þá verða þeir að hafa notað leyfið innan tveggja ára, annars falli leyfið burt. Þetta er ákaflega eðlilegt ákvæði. Þeir, sem hafa átt við sveitar- og bæjarstjórnarmál, vita, að það getur komið fyrir, að slíkt leyfi sé einstaklingum veitt og það svo ekki notað, en síðar vilji sveitarfélagið að breyttum kringumstæðum sjálft ráðast í þessar framkvæmdir. Og ef ekki er fyrir það girt með l., þá getur gamalt leyfi, sem ekki hefur verið notað, staðið í vegi fyrir því, að framkvæmdir þessar verði gerðar. Og ég hygg rétt að miða þetta skilyrði um notkun slíks leyfis við 2 ár. En ég sé ekki, að um þetta sé tekið fram í frv. eða brtt.

Þá vildi ég benda á, hvort ekki væri ástæða til að taka fram í 9. gr. frv., að lögtaksréttur, sem þar er um getið, væri forgangsréttur um þau hafnargjöld, sem leyfilegt er að leggja á samkv. þeirri gr. Ef á slíkum forgangsrétti þarf að halda, sem getur verið nauðsynlegt, ætti að vera um það ákvæði í l.