26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Í sjútvn. hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og er það ekki af því, að ég ætli að láta það taka til sérstöðu minnar í mörgum atriðum, því að í flestum greinum get ég eftir atvikum fallizt á þær brtt., sem fyrir liggja. En það, sem olli því, að mér þótti rétt að skrifa undir nál. með fyrirvara, var síðasta málsgr., sem kemur fyrir í brtt. við 2. gr. frv., þ. e. um hámark það, sem verja má til lendingarbóta, að vísu 800 þús. kr., til hvers staðar úr ríkissjóði, samkv. brtt. 2 B, þ. e. sem helming kostnaðar, en það, sem ríkissjóður greiðir þar fram yfir til sama staðar skuli njóta þeirrar aðstöðu sem væri um hafnarmannvirki að ræða, og njóta þá styrks að 2/5 hlutum o. s. frv. Ég greiddi að vísu atkv. með þessu 800 þús. kr. framlagi í sjútvn., þ. e. a. s. ég kaus það heldur við atkvgr. en að vera með lægri upphæð, sem gat komið til greina í þessu sambandi. En ég gat þess í n., að ég vildi hafa óbundnar hendur um þetta atriði, af því að ég held, að það geti gefizt ekki vel og ekki sanngjarnlega undir ýmsum kringumstæðum að ákveða þetta hámark. Ég þykist vita, þó að það sé fjarri því, að ég hafi neina sérþekkingu þar á, að þegar búið er að verja á einum stað alls 400 þús. kr. til lendingarbóta, þá geti sá staður verið betur kominn og nær því takmarki að geta með réttu yfirfærzt undir hafnargerðir en annar staður, þó að þar sé búið að verja til lendingarbóta 800 þús. kr. Ég veit, að þetta getur komið til greina um ýmsa staði, að svona mikill sé aðstöðumunur þeirra til lendingarbóta, þó að hvor tveggja staðurinn sé réttbær til að styrkjast í slíkum efnum. Og þetta ákvæði held ég, að gæti orðið til trafala og í vegi fyrir því að geta fengið sanngjarnar úrlausnir og mat á hverjum tíma á nauðsyn hvers staðar fyrir sig í þessum efnum, ef þetta skal lögfestast svona. Og vel get ég hugsað mér það, að þó að búið sé að verja 800 þús. kr. til lendingarbóta á einhverjum stað, geti það oft staðið þannig af sér, samkv. því, sem ég hef nú sagt, að staðurinn geti samt sem áður ekki talizt með þeim stöðum, þar sem um hafnarmannvirki sé að ræða, enda þótt sjálfsagt hefði verið að gera þær hafnarbætur, sem þar hefðu verið gerðar, og það töluvert meiri. Við vitum, að á stöðum, þar sem auðug mið eru fyrir utan, er mikil þörf á umbótum, og að á þeim stöðum sumum munar ekki mikið um það, þó að rétt sé á haldið, sem kostar hvert hundrað þús. kr. Og þó að hámark hefði ekki verið nefnt í l. í þessu sambandi heldur höfð mjög opin leið til mats á þessu hverju sinni, þá álít ég, að óhætt hefði verið að haga því svo, því að þarna verður maður að ætla, að ekki verði hlaupið fram fyrir sleðann, þar sem þessi framlög þarf hverju sinni að sækja í greipar hafnarmálastj. og Alþ. sjálfs. Og maður verður að vera svo bjartsýnn, að ákvarðanir þessara aðila mundu ekki fara fremur fram úr því, sem sanngjarnt væri hverju sinn, en þó að þetta hámark væri bundið með lagastaf á þann hátt, sem hér er lagt til.

Ég mun því greiða atkv. á móti niðurlagi B-liðar 2. gr. brtt. n., og ég treysti því, að þetta niðurlag fáist borið undir atkv. sér á parti.

Það hafa orðið hér nokkur orðaskipti um það við umr., hvort komið geti til erfiðleika í sambandi við það að meta, hvort einstaklingsfyrirtæki í hafnarframkvæmdum eða slík fyrirtæki félaga væru á hverjum tíma, er um slíkt væri að ræða, fær um að standa sjálf undir áframhaldandi hafnarframkvæmdum, eftir tekjum þeirra og eignum að dæma, þannig að hægt væri að vita, hvort nauðsynlegt væri að veita þeim fé úr ríkissjóði sem styrk til slíkra framkvæmda eða ekki: Það getur náttúrlega verið ákaflega mikið álitamál hverju sinni, hvort svo sé. Og réttlátast væri að mínu áliti að láta slíkt mat standa opið hæstv. Alþ. til úrlausnar hverju sinni, er um slíkt þyrfti að ákveða, eins og líka um það, í hvaða flokk eftir þessari brtt. þessar eða hinar hafnarframkvæmdir ættu að dragast hverju sinni.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta. Ég mun að flestu eða öllu leyti um annað en það, sem ég hef tekið fram, greiða atkv. með brtt. n. Þó vil ég aðeins drepa á það í þessari nýju flokkun, sem er nokkuð breytt, en þó fellur að ýmsu leyti saman við eldri flokkun um það, hvaða staðir skuli teljast í lendingarbótaflokknum. Þó eru þar tilnefndir staðir, sem ég tel, að varla geti komið til greina að veita styrk til sem væri hann til lendingarbóta. Á ég þar við stað eins og Þorlákshöfn, því að þar er annaðhvort um stórvirki að ræða sem hafnarframkvæmdir eða ekki. Þó að Þorlákshöfn sé sett í lendingarbótaflokkinn, þá er það að vísu meinlaust. Það hefur á síðustu þingum verið veitt nokkurt fé til lendingarbóta þar. En ég hygg, að það komi í ljós, að það á ekki við, þó að ekki hafi verið meint nema gott með því. Því að þar hygg ég, að annaðhvort verði að vera um milljónafyrirtæki að ræða sem hafnarframkvæmdir eða ekki neitt.

Ég vil forðast að ræða þetta mál frá öðrum hliðum en efni standa til, þó að margt mætti annars um þetta mál segja.