26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Viðvíkjandi aths. hæstv. ráðh., þar sem hann spurði, hvort það bæri ekki svo að skilja, að ábyrgðir væru fyrir allri upphæðinni, vil ég leyfa mér að benda honum á, að þetta kemur ekki við brtt. við 1. gr., heldur þeim brtt., sem gerðar eru við 2. gr. 2. gr. frv. er þar alveg orðuð upp. Og þar er sagt í brtt., með leyfi hæstv. forseta, undir B-lið: „Ríkissjóður greiðir helming kostnaðar við að gera lendingarbætur á eftirtöldum stöðum, sbr. þó 1. mgr. 1. gr., og er ríkisstj. jafnframt heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán til greiðslu á hinum helmingnum af kostnaðinum við lendingarbæturnar, miðað við þá áætlun, sem ráðuneytið samþykkir, sbr. 1. mgr. 1. gr.“ Þetta er eins undir A-lið 2. brtt. Og þetta er breyt. frá frv. á þskj. 21, því að þar var aðeins miðað við, að þetta kæmi á móti þeim hluta, sem hefði verið veittur. En sjútvn. taldi einmitt nauðsyn á að gera þessar brtt., til þess að viðkomandi hafnarsjóðir gætu tekið lán með ábyrgðum ríkissjóðs fyrir allri þeirri upphæð, sem ráðuneytið hefði samþ., og eftir því, sem útreiknað væri, að hafnarframkvæmdir mundu í hverju tilfelli kosta á hverjum tíma. Og þegar þetta atriði er athugað og ákvæði 1. gr. almennt, að framlög til hafnargerða og lendingarbóta eru eftir frv. bundin því skilyrði, að samþykki ráðuneytisins komi. til viðkomandi áætlun um framkvæmdirnar, og enn fremur ef litið er á 8. gr. frv., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta : „Enn fremur er óheimilt án samþykkis ráðuneytisins að hefja framkvæmdir mannvirkja við höfnina, sem eru svo stórvaxin, að árstekjurnar nægi ekki til að koma þeim í framkvæmd“ — og þegar það einnig er athugað, að þetta er ákvæði, sem staðið hefur í öllum hafnarl. og stendur í öllum hafnarl. nú, þá er áreiðanlegt, að hæstv. Alþ. hefur alltaf ætlazt til þess, að ráðuneytið hefði úrskurðarvald á hverjum tíma gagnvart stórfelldum hafnarframkvæmdum um það, hvaða ábyrgð eða styrk ríkið skyldi veita til þeirra. Og sé það vald gefið ráðuneytinu, þá sé ég ekki annað en að það sé í samræmi við það að gefa ráðuneytinu einnig vald til að ákveða það, hvenær hafnarsjóður hefur ráð á að gera þessar framkvæmdir sjálfur og hvenær ekki. En ég get hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum séð, að það komi til greina, og það er ekki hægt að skilja l. þannig, að ef Alþ. veitir fé til hafnarframkvæmda, þá geti ráðuneytið sagt: Hafnarsjóður á þessum stað er svo ríkur, að ég greiði ekki þetta fé út. L. gefa ekki tilefni til slíks skilnings á þeim. Þegar litið er á það einnig, að áður en hægt er að hefja nokkrar stórfelldar framkvæmdir við höfnina á tilgreindum stöðum í l., sem þau ná yfir, verður ráðuneytið að samþ. framkvæmdirnar, — ég skal náttúrlega ekki um það segja, hvort hver hafnarsjóðsstjórn eða lendingarbótasjóðsstjórn hefur sent ráðuneytinu allar sínar áætlanir um hafnarframkvæmdir, áður en byrjað hefur verið á þeim —, en sé þeirri reglu fylgt, eins og l. mæla fyrir um, þá er það á valdi ráðh. á hverjum tíma, hvort hann samþ. framkvæmdirnar eða ekki. Hafnarstjórnir almennt leita ráða hjá vitamálastjóra og fá þá til þess að gera till. um hafnarframkvæmdirnar, og ég hygg, að þessar framkvæmdir hafi verið gerðar í samráði við þá menn, þó að eitthvað kunni að hafa brugðið út af því á smærri stöðum. Og sé þessu haldið áfram og sé það gert, þá er ráðh. enginn vandi á höndum um að ákveða, hvort hafnarsjóður á einhverjum stað hefur ráð á að gera einhverjar tilteknar framkvæmdir eða ekki. Ég tel því ekki, að það eigi að setja það inn í l., að Alþ. skuli meta þetta fremur en ráðuneytið. Hitt er annað atriði, að ég sæki það ekki sérstaklega fast, að þetta nýja orðalag á 1. gr. sé sett inn í frv., vegna þess að ég tel, að í 1. gr. frv., eins og það er, séu settar svo sterkar hömlur, ef ráðuneytið vill beita þeim, sem séu fullnægjandi á hverjum tíma. Því að það er áreiðanlegt, ef reynslan sýnir, að þær hafnir, m. a. Reykjavíkurhöfn, sem hafa ekki getað fengið samþykkt ráðuneytisins til hafnarframkvæmda og ekki Alþ. til fjárveitingar, hafa ekki getað það vegna þess, að þær hafa getað staðið sjálfar undir sínum hafnarframkvæmdum.

Svo er annað, sem ekki er lítið atriði, og það er, að strangari reglur verði settar um það, að hver einasta höfn, sem fær styrk úr ríkissjóði eða ábyrgð ríkissjóðs, innheimti hafnargjöld eins og gert er hér ráð fyrir að verði gert eftir reglugerðum, þar sem þær verði settar. Og ég veit, að á fátækari stöðum hafa verið lögð á hafnargjöld, sem eru 6% af verði afla, sem kemur þar á land. En á stærstu stöðum, eins og í Reykjavík og á Siglufirði, hefur ekki verið sett einnar krónu hafnargjald á sem gjald af verði fyrir afla, sem á land kemur. Jafnvel á sumum stöðum hefur ekki verið tekið þungagjald af aflanum. En ég vil ekki, að slíkar hafnir, sem möguleika hafa til þess að taka miklar tekjur með hafnargjöldum, séu undanþegnar, þannig að þeim sé leyft að vanrækja þessar tekjur, en þess hins vegar krafizt gagnvart fátækari stöðum og smærri, að menn verði þar að bera þessar byrðar. Það hefur ekki verið samræmi í þessu um land allt. Sums staðar hefur ekki verið tekið gjald af afla, heldur farin sú leið að jafna niður á gjaldendur ákveðnum upphæðum til hafnarframkvæmda, eftir því sem ráðamönnum hefur dottið í hug. En hér er ætlazt til þess, að hafnirnar hafi ákveðna tekjustofna. Og ráðuneytið á að sjá um, að staðirnir komi inn eftir ákveðnum reglum, sem settar eru. Og þegar það er gert, kemur í ljós, að þar eru möguleikar til þess að fá tekjur til að standa undir kostnaði við hafnarframkvæmdirnar.

Þá minntist hæstv. samgmrh. á það, að þetta nýmæli um Elliðaárvog væri til þess e. t. v. að útiloka, að gerðar væru sams konar framkvæmdir á öðrum stöðum, t. d. innan hafnarsvæðis Reykjavíkur. Ég tel ekki, að slíkt gæti komið til mála. En ég vil í sambandi við það benda á, að það liggja fyrir skýlausar yfirlýsingar um það frá núv. hafnarstjóra, að það sé ekki hægt að byggja upp þessi mannvirki innan Reykjavíkurhafnar, í sjálfri Reykjavíkurhöfn, skýlaus yfirlýsing til mþn., og það áður en mþn. sendi álit sitt. Mþn. fékk hafnarstjórann í Reykjavík til að koma inn í Elliðaárvog og til að fara um öll hugsanleg hafnarlönd í Fossvogi. Og hann varð sammála mþn. um það, að þarna í Elliðaárvogi væri eini staðurinn, þar sem kæmi til mála að setja þessi hafnarmannvirki upp. Honum kann að hafa snúizt hugur síðan. Ég veit ekki um það. En ef það er rétt, að það muni kosta 60–70 millj. kr. að koma í Elliðaárvogi þessum hafnarmannvirkjum upp, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, að fyrir lægi áætlun um, þá kostar það miklu meira fé að setja þessi mannvirki upp sambærileg innan Reykjavíkurhafnar, því að það mundi kosta að taka burt hús og önnur mannvirki í Vesturbænum upp að Vesturgötu á því svæði, sem að höfninni liggur. Því að það væri ekkert sambærilegt við fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárvogi, þó að komið væri upp hér nær einhverri málamyndadráttarbraut, sem hvorki getur uppfyllt núverandi né komandi þarfir þjóðarinnar. Og það er sannarlega í fullu samræmi við álit hafnarstjóra á sínum tíma að fara ekki að gera slík mannvirki innan hafnarsvæðis núv. Reykjavíkurhafnar, þ. e. a. s. upp frá aðalhöfninni, því að þar væri ekki hægt að gera slíkar framkvæmdir nema með margföldum kostnaði á við það, sem mundi verða með því að koma þeim upp í Elliðaárvogi, og þó ekki með nærri því sama árangri: Ég hef séð smáar skipabyggingastöðvar og séð, hvílíkt óhemju landsvæði þær þurfa til afnota til starfrækslu sinnar. Erlendis hafa menn séð, að það er útilokað að koma þessum mannvirkjum upp nema þar, sem landrými er nóg. Ég held því, að af þeirri ástæðu þurfi þetta ekki að stangast á, af því að ég hygg, að það verði aldrei hægt að koma þessum mannvirkjum upp innan hafnargarðs Reykjavíkurbæjar, nema ríkið greiði tugi millj. kr. til þess að kaupa þau mannvirki, sem þar eru fyrir, og láti rífa þau niður.

Viðvíkjandi aths. hæstv. ráðh. um 9. gr. vil ég taka það fram, að eins og brtt. er nú, er einmitt gert ráð fyrir því, að hafnarsjóðirnir geti tekið árlegt afgjald af bryggjum eða mannvirkjum, ef þau standa á lóðum þeirra eða njóta hlunninda af hafnargerðinni. Það er hreinasti misskilningur hjá hæstv. ráðh., er hann heldur því fram, að viðkomandi aðilar muni ávallt neita að borga gjöld af þessum mannvirkjum í hafnar- eða lendingarbótasjóð. Ég hygg, að fáir muni neita að greiða þessi gjöld, því að aðila er skylt að láta mannvirkin af hendi, ef ekki næst samkomulag samkv. ákvæðum 4. gr. Ég álít, að þeir kjósi frekar að reyna að komast að samkomulagi við hafnarsjóð og greiða af eignunum, til þess að missa þær ekki að öllu leyti undan yfirráðum sínum. Hygg ég, að þetta mundi ekki stangast á, og er mjög nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði í l. Vona ég, að hv. d. samþ. 9. gr. með þessum breyt., sem munu tvímælalaust leysa mörg vandamál, sem ella mundu spinnast út af ákvæðum laganna.

Hæstv. ráðh. spurði viðvíkjandi 15. gr., hvort ætti að framkvæma það, sem þar um ræðir, af árstekjum eða eignum. Við getum hugsað okkur þann möguleika, að hafnarsjóðirnir eigi ef til vill tugi þúsunda eða jafnvel milljónir kr. í öðrum eignum. Ég vil t. d. benda á það, að hafnarsjóður Reykjavíkur hefur varið fé til þess að byggja stórhýsi, sem ekki koma til útgjalda samkv. ákvæðum þessara l. Honum kunna að vera nauðsynlegar þessar byggingar, en það er áreiðanlegt, að ef hann hefði verið undir ákvæðum þessara l., þá hefði hann ekki fengið styrk til þeirra úr ríkissjóði, en ef eigendur einhverra hafnarlóða eiga líka að fá af þeim ákveðnar tekjur, þá sé ég ekki, hvernig ríkissjóður eigi eða þurfi að standa undir nýjum framkvæmdum. Mig minnir einnig, að hafnarsjóður Reykjavíkurbæjar hafi einhvern tíma lánað Eimskipafélaginu fé. En ég vil benda á, að það verður að vera eftir mati ráðuneytisins, er það hefur alla útreikninga við höndina, hvort þetta er nauðsynlegt eða ekki.

Ég get fallizt á þau ummæli hv. 6. þm. Reykv., að sjálfsagt væri að breyta gr. þannig, að hafnarsjóðirnir geti fengið ríkisábyrgð. Þyrfti það ekki að kosta ríkissjóð neitt, því að mér er ekki kunnugt um, að ríkissjóður hafi nokkurn tíma tapað á hafnarábyrgðum. Slík lán hafa undir flestum kringumstæðum greiðzt eins og tilskilið hefur verið, og sýnir þetta bezt, hversu örugg þessi fyrirtæki eru. Skal ég taka til athugunar, að gr. verði breytt þannig, að heimild fyrir ábyrgð sé ekki útilokuð.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að aths. hv. 6. þm. Reykv., að svo miklu leyti sem ég hef ekki svarað þeim atriðum áður. Hann minntist á það í sambandi við Elliðaárvog, að það lægi fyrir kostnaðaráætlun um, að framkvæmdir þar mundu kosta 60–70 millj. kr. Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á, að það var aldrei hugsun mþn., að allar þær framkvæmdir ættu að gerast í einu átaki. N. hefur gert ráð fyrir þróun á ókomnum árum, en það hefur, eins og kunnugt er, oft kostað mikið fé, að þeir menn, sem einmitt hafa undirbúið slíkar framkvæmdir, hafa ekki hugsað fram í tímann. Það var þetta, sem n. vildi forðast og vildi undirbúa, að það yrði ekki dýrt að víkka út athafnasvæði það, sem hér um ræðir. Ég hefði gaman af að vita, hvort þær tölur hafa verið lagðar fram. Ef það þarf að kosta 60–70 millj. kr. að koma upp dráttarbraut eða þurrkví við Elliðaárvog til þess að bæta úr brýnustu þörfinni, og ef verið er að halda því á lofti, að ekki sé hægt að gera þetta fyrir minna fé, þá er það til þess að setja þröskuld fyrir þetta mál. Ég vil vænta þess, að hafnarstjórn Reykjavíkurbæjar taki þetta mál upp að nýju og athugi, á hvern ódýrastan hátt og sem fyrst sé hægt að leysa úr þeim vanda, sem hér þarf að leysa úr, ekki aðeins fyrir útveginn, heldur einnig fyrir alla iðnaðarmenn og ekki hvað sízt fyrir Reykjavíkurhöfn.

Hv. 6. þm. Reykv. spurði um það í sambandi við beiðni þá, sem hefði borizt frá h/f Skipanaust, hvort ekki hefði verið tekið til athugunar í n. að styrkja einstaklinga til hafnarframkvæmda.. Ég get skýrt honum frá því, að um þetta atriði var mikið rætt í n., og setti ég fram ákveðnar till. um, að þetta yrði gert. Ég vildi láta byggja upp hin nýju hafnarl. á slíkum grundvelli. Mér er kunnugt um það, að á sumum stöðum úti á landi, þar sem hafnarbætur hafa enn ekki verið gerðar, verður ekki í þær ráðizt nema af einstaklingum, vegna þess að héruðin geta ekki staðið undir slíkum framkvæmdum, nema því aðeins, að aðrar framkvæmdir komi samtímis. Ég benti á það, að það þýddi ekkert að setja 500 þús. kr. eða milljón í hafnarbætur, ef á viðkomandi stað eru ekki skilyrði til útgerðar eða iðnaðar og þau skilyrði starfrækt. Mér er kunnugt um það, að hreppar úti á landi hafa ekki viljað leggja út í hafnargerðir eða lendingarbætur, vegna þess að þótt þeir réðust í slíkt, væri engin trygging fyrir því, að aðrir menn kæmu upp fyrirtækjum í sambandi við hafnarmannvirkin til þess að þau gætu borið sig. En fyrir þessu vilja þeir fá tryggingu, áður en þeir ráðast í hafnarframkvæmdir. Þessar till. mínar fengu mjög litlar undirtektir hjá n., því að þeir hinir álitu, að sveitarfélögin ættu ein að hafa þessi mál með höndum, en einstaklingar ættu þar hvergi nærri að koma. Ég tel því í áframhaldi af þessari skoðun í n., að ekki komi til mála, að fé verði veitt til Skipanaust h/f. Hins vegar verður ekki þörf á því, ef frv. ásamt brtt. við það verður að l., því að þá ættu ekki að verða nein vandkvæði á að leggja fé í þetta. Hafnarsjóður Reykjavíkurbæjar getur þá fengið 2 millj. kr. úr ríkissjóði og hins vegar fengið ábyrgð hans fyrir 3 millj. kr., og þyrfti þannig ekkert fé að leggja fram sjálfur, heldur aðeins að standa undir láninu, þ. e. 3 millj. kr. láni með vöxtum. Það eru því engin rök fyrir þeim ummælum hv. 6. þm. Reykv., að hafnarstjórn hafi ekki fé til þess að gera þessar ráðstafanir nú, af því að verið sé að vinna að öðrum, vegna þess að hún getur fengið 2 millj. kr. úr ríkissjóði og 3 millj. kr. lán, sem hún þarf aðeins að standa undir, og ætti slíkt ekki að vera svo kostnaðarsamt, að hægt sé að segja, að þetta sé ógerlegt.

Ég vil upplýsa í þessu sambandi, að Skipanaust h/f hefur tekið að sér þessar framkvæmdir, af því að hafnarsjóður Reykjavíkurbæjar hefur gefizt upp á málinu. Held ég, að þetta sé rétt orðað úr erindi félagsins, en þetta eru ekki mín orð. Ef þetta er hins vegar ástæðan fyrir því, að félagið hefur farið þess á leit að fá styrkinn, þá er því meiri ástæða fyrir n. að neita beiðninni, því að hvaða rök eru fyrir því, að svo verði gert, ef hafnarsjóður Reykjavíkurbæjar gefst upp á slíkum framkvæmdum, sem getur fengið 2 millj. kr. gefnar úr ríkissjóði og 3 millj. kr. lánsheimild.

Viðvíkjandi þeim aths. öðrum, sem hv. 6. þm. Reykv. tók fram, m. a. varðandi 5. gr., þá er ég honum sammála um, að það atriði eigi að athugast. Þetta hefur sjálfsagt staðið í hafnarl. fyrir Reykjavík, en n. hefur ekki lesið sig saman við þau, þar eð hún taldi, að það hefði verið gert af mþn. N. mun taka þetta til athugunar og setja inn í frv., að sá, sem fengið hafi leyfi til að gera slík mannvirki, skuli skyldur að halda þeim við. Ég vil einnig lýsa því yfir, að ég skal taka það til athugunar í n. að setja inn í frv.: „Sé leyfið eigi notað innan 2 ára frá veitingu þess, fellur það úr gildi,“ þar eð öll rök mæla með því. N. mun fúslega taka öllum ábendingum við þessa umr. eða til 3. umr. viðvíkjandi því, sem þörf er á að lagfæra.