29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil segja nokkur orð út af því, sem fram kom síðast, þegar málið var til umr.

Um till. hv. 6. þm. Reykv. um það, að viðhald einkafyrirtækja yrði sett í frv. og ákvæði yrðu sett um það, að vanræki einhver þetta viðhald, þá falli burt leyfi hans til að hafa það, vil ég segja, að ég er eiginlega þeirri till. samþykkur. Það er venja að hafa ákvæði í hafnarl. um það að ef einhverju hafnarmannvirki er ekki sinnt um eitthvert árabil, þá skuli það falla til hafnarsjóðs, og vil ég skjóta til n., hvort hún vilji ekki fyrir næstu umr. taka upp ákvæði í þessa átt. Það var að vísu ekki í frv. upprunalega, en ég tel vel til fallið, að þetta ákvæði kæmi þar inn. Í öðru lagi minntist hann á forgangsréttinn, og vildi ég einnig óska eftir, að það yrði tekið til greina. Bæði atriðin eru nauðsynleg og ættu þar að vera, þó að láðst hafi að setja þau inn í frv. í þess upprunalegu mynd.

Þá var aðeins eitt atriði enn til viðbótar, sem ég vildi minnast á. Það er um það, hvort veita ætti einkafélögum styrk til dráttarbrautagerðar og annarrar starfsemi í Elliðaárvogi, sem hér hefur verið nokkuð rætt um. Án þess að fara langt út í það mál vil ég segja, að það er óvenjulegt og ekki almenn regla a. m. k., að einstaklingum sé veitt fé til hafnargerðar í einu eða öðru formi. Það hefur að vísu komið nokkrum sinnum fyrir, ég man eftir eitthvað 3–4 tilfellum, sem hafa verið gerð í þessa átt, en sem undantekningaratriði. Ég tel eðlilegast, að viðkomandi hafnargerðir eigi þess kost að fá styrk til þessara mannvirkja og að þau séu rekin af þeim. Hitt er að vísu til, eins og ég sagði, en ég vil heldur skoða það sem undantekningartilfelli en þá almennu reglu.

Að öðru leyti vil ég þakka þær upplýsingar, sem ég fékk frá hv. frsm. n. um skilning hans á því, hversu víðtæk ábyrgðarheimild ríkissjóðs mætti vera til hafnarmannvirkja. Það má vera, að þann skilning megi lesa út úr brtt., en ég taldi þó réttara að fá yfirlýsingu um, hvernig þetta beri að skilja, og tel ég mig nú hafa fengið hana, ef enginn mælir því í gegn.

Um hafnargjöld einstaklinga, sem var síðasta atriðið, sem ég minntist á í minni fyrri ræðu að þyrfti að athuga, skal ég ekki segja að svo stöddu máli. Ég tel að vísu, að sumt af því, sem stendur í þessum brtt., orki tvímælis, en vil þó ekki á þessu stigi málsins gera brtt. við þær, heldur styð að því þvert á móti, að þær verði samþ., en vil þó áskilja mér rétt til að taka þær ofurlítið betur til athugunar síðar.