29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Bjarni Benediktsson:

Eins og hv. þm. Barð. sagði, er það vissulega ánægjulegt, þegar menn iðrast synda sinna. Ég er því ánægður yfir því, hvernig hv. þm. Barð. ræddi málið í fyrri hluta ræðu sinnar. En þá ræddi hv. þm. málið allt öðruvísi en hann hefur gert áður hér í hv. d. Eins og ég sagði í síðustu ræðu minni, er ég ekki út af fyrir sig óánægður með þessa till. hv. þm. Þær, sem frá honum koma, eru yfirleitt skynsamlegar. Aftur á móti vill frekar bregða til beggja vona um, hvernig fer um einstök ummæli hans, og sannaði hann það einmitt í þessari ræðu sinni.

Það, sem hann sagði varðandi þessa till., var rétt. Og vil ég játa, að hann hefur mikið gott til þessa máls lagt. Hins vegar skaut hinn gamli Adam upp kollinum í síðustu ummælum hv. þm. Hann bar það blákalt fram, að ég væri á móti þessu máli. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. kemur heimild til að mæla á þessa leið. Ég hef oft sagt við þennan hv. þm. og sýnt það, að ég vil á allan hátt greiða fyrir þessu máli. Hv. þm. hefur enga heimild til að segja, að ég sé á móti því. Hitt er rétt, að ég er á móti því, að ráðizt sé í stórt fyrirtæki áður en búið er að gera áætlun um það. Ég vil láta hina færustu menn dæma um málið áður. En ég skil það ekki, að hv. þm. skuli leyfa sér að rísa upp hér á hæstv. Alþ. og segja, að ég sé á móti þessu máli.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. S.-Þ. er það að segja, að hann mun víst hafa brugðið vana sínum, aldrei þessu vant, og ekki verið viðstaddur, þegar ég hélt þá ræðu, er þau ummæli féllu, sem hann spyr um. Og ef svo er, að hann hafi skrópað, þegar ég mælti þessi orð, þá vil ég benda hv. þm. á, að hann getur aflað sér upplýsinga um ummæli mín með því að lesa þingræðuna, sem mun liggja frammi í skrifstofu þingsins. Þar getur hv. þm, fengið allar upplýsingar.