29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Jónas Jónsson:

Ég vildi aðeins víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Barð. sagði varðandi Húsavíkurhöfn. Hann sagði það vera mjög mikið vafaatriði, hvort styðja ætti þá endurbygging, sem þar er um að ræða. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir skoðun hans í þessu máli. Ég vona, að hv. þm. Barð. skilji það, að Húsvíkingar eiga ekki að gjalda þess, þótt mistök hafi átt sér stað með tréstaura þá, sem halda saman lausagrjóti, sem bryggjan er byggð úr undir plötunni. Þessir tréstaurar eru settir af sérfræðingum landsins, sem stóðu fyrir bryggjusmíðinni, og Húsvíkingar lögðu þar ekkert til. Og þar sem stjórnarvöldin tóku þessa afstöðu, segja Húsvíkingar, eigum við ekki að taka á okkur ofan á allan kostnað við bryggjuna 800 þús. krónur sem eins konar aukareikning, vegna þess að maðkarnir eyðilögðu tréstaurana. — Framkvæmdir eins og þessar yrðu óframkvæmanlegar, ef ekki er hlaupið undir bagga. Það verður hvaða stjórn sem er að gera og það eins, þótt hv. þm. Barð. ætti sæti í henni. Það er mjög mikilvægt, að Húsvíkingum sé bættur þessi mikli skaði, sem þeir hafa orðið fyrir við eyðileggingu bryggju sinnar, og það er stórvirki, ef það er líka gert á sama árinu, sem lagt er í þær aðgerðir, sem eiga að gera Húsavík að nýjum Siglufirði hvað síldarútveginn snertir.

Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir, að hann skuli hafa vísað mér í handrit ræðu sinnar, sem hann hélt um framfaravilja sinn um hafnarframkvæmdir. En ég vildi spyrja hv. þm., hvort hann hefði nokkuð á móti því, þótt nýbyggingarráð kæmi inn í þetta mál. Og ég vil benda hv. þm. á, hvort við í sameiningu ættum ekki að fara fram á, að nýbyggingarráð styddi málið af sínum mjög ríkulegu fjárráðum.