15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. flm. till. (SigfS) sagði, að það lægju fyrir fleiri umsóknir um togara en þá 30, sem samið hefur verið um smíði á í Englandi. Ég tel nú að vísu, að með þátttöku Reykjavíkurbæjar í togarakaupunum megi menn gera sér góðar vonir um, að ríkisstj. losni við togarana. En ég álít hins vegar ekki rétt að orða þetta með meiri bjartsýni en í þeirri yfirlýsingu kemur fram. Og ef það sýnir sig 1. des., þegar menn eru búnir að skila umsóknum sínum um kaup á þessum skipun og færa sönnur á gjaldgetu sína, að þörfin eftir skipum er meiri en hægt er að fullnægja, þá mætti segja, að slík till. hefði þýðingu, og þó því aðeins, að möguleiki væri fyrir hendi til að fá skip. Við skulum bíða til fyrsta des. og sjá til, hvað kemur á daginn. Og ég hygg, eins og ég hef áður sagt, þó að ég geri mér von um að losna við skipin með aðstoð Reykjavíkurbæjar, þá er ekki líklegt, að menn óski eða hafi gjaldgetu til að ganga lengra. Og þó svo væri, þá er náttúrlega líka ástæða til að athuga, hvað Nýbyggingarráð og ríkisstj. telur rétt að fara langt í því að festa gjaldeyri til kaupa á þessum skipum umfram þá 80 eða 100 mótorbáta, sem búið er að festa kaup á. Ég tel alveg sjálfsagt að nota fjármuni ríkisins til að byggja upp atvinnulífið. En ég álít líka sjálfsagt að gleypa ekki við hverjum möguleika, heldur hagnýta þetta fé á sem skynsamlegastan hátt með réttlátri deilingu á hinum ýmsu þörfum í þessu þjóðfélagi, þar sem allt er í nýsköpun og verkefnin bíða eftir fjármagni og framkvæmdum. En það, sem veldur því, að ég tel till. gagnslausa, er fyrst og fremst það, að ég er þeirrar skoðunar, að þótt samþ. verði að kaupa fleiri skip, þá er þess enginn kostur fyrr en eftir mitt árið 1948. Ég er ósammála till. manni um það, að fá megi togara í Bandaríkjunum fyrir viðunandi verð. Það er ekkert samræmi í því við þær upplýsingar, sem við höfum fengið og fyrir liggja. Og það síðasta, sem í mín eyru hefur verið sagt um það, er, að slík skip í Bandaríkjunum mundu verða allt að helming dýrari og afar vafasamt að þau gætu orðið svipað því eins hentug og trygg fyrir okkar þarfir eins og brezku skipin. En hv. þm. segir að þetta sé þó vafamál. Hver segir þá, að ekki sé rétt að kaupa slík skip, þó ekki sé fyrr en eftir mitt ár 1948? Hver þorir endilega að vera viss um, að þetta breytist ekki í Ameríku á þeim tíma? Það kann að mega segja, að heimildin skaði ekki, en ég segi hins vegar, að ég óska ekki eftir till., vegna þess að ég vil, að till., sem stj. ber fram, markist við það, sem hún getur gert sér vonir um að framkvæma, og ég tel ekki hyggilegt, þó að ég gæti, að gera samninga um fleiri skip. Ég álít hyggilegt af okkur að ráðstafa ekki frekar fjármunum fyrir hönd þjóðarinnar til frekari bygginga á slíkum skipum, sem ættu að koma seint á árinu 1948. Ég álít ekki hyggilegt að ganga lengra en búið er að gera. Ég álít, að sú alvara, sem ríkt hefur í starfi okkar, megi halda áfram, og ég hef ekki trú á því, að þó að þessi till. yrði samþ., að hún verði framkvæmd. Og að allra síðustu lít ég svo á, að stjórnarliðar þurfi ekki að þrengja upp á stj. till., þar sem þeir mega treysta henni til, ef aðstæður breytast, að halda áfram þessum framkvæmdum. Ég met það meira að vera ekki að fá heimild í dag, sem ég tel gagnslausa, því að stj. mundi standa um það, eftir sem áður, ef þörf krefur. En það er ekki heppilegur blær á því að samþ. það, sem enginn trúir, að verði framkvæmt. Ég segi það við hv. þm., að þetta minnir dálítið á það, þegar Framsfl. var í fyrra að þröngva upp á okkur till. um strandferðaskip, áður en rannsókn þess máls hafði farið fram. Þegar rannsókn hafði sýnt, að þetta féll vel inn í nýsköpunarkerfi okkar, þá gerðist það, að þessi ríkisstj. bar málið fram og framkvæmdi það. En það hefur ekki verulega góðan blæ á sér, ef ríkisstj. ber það fram, sem hún hefur ekki trú á, að verði framkvæmt.