26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Þetta verða aðeins örfá orð. — Ég hef vitanlega ekki séð hinar skriflegu brtt. sjútvn. En eftir því, sem ég bezt tók eftir, eru þær í þá átt að bæta við 1. gr. ákvæði þess efnis, að til kostnaðar við hafnargerðir skuli telja kostnað við verbúðir. Ég skil vel, að orkað geti tvímælis, ef ekki er tekið alveg skýrt fram, hvort átt sé við allar verbúðir eða einvörðungu þær, sem hafnarstjórnir einar láta byggja. Ef þetta ætti að taka til allra verbúða, er hætt við, að það gæti orðið nokkuð víðtækt. Ég skil, ef bara er átt við þær verbúðir, sem byggðar eru af hinu opinbera á staðnum. En verið gæti, að líka sé hér um einstaklinga að ræða. Því minntist ég á þetta og þætti vænt um að heyra eitthvað frá hv. n. um, hvort þetta sé ekki hennar skilningur.

Um hina nýju staði vil ég láta þess getið, að þeir eru hvorki óverðugri né verðugri en þeir staðir ýmsir, er áður voru nefndir. Tala staðanna er orðin svo há, að taldir eru með líklegir og ólíklegir staðir um hafnarbætur. En það eru bara engar líkur til þess, að hægt verði að gera mjög miklar hafnarbætur í náinni framtíð. Á hinn bóginn eru ýmsir staðir, sem hljóta að sitja í fyrirrúmi, en fleiri eru hér taldir með en ástæða er til að ætla, að þörf sé.

Annað hygg ég, að eigi liggi fyrir nema till. um Borgarnes. Finnst mér ekkert umtöluvert, að það sé í þeim flokki, er um ræðir, þar til er það fer af sjálfu sér út úr honum. — Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira.