09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þessu frv. um hafnargerðir og lendingarbætur hefur verið nokkuð breytt í Nd., og hefur sjútvn. þessarar deildar athugað það, og farið í gegnum breyt. Nd. — Í 1. brtt. var Borgarnes fært úr A-flokki niður í B-flokk, og skapar þetta ósamræmi á milli Borgarness og annarra hafna. En það fékkst ekki samkomulag um það í n. að færa þetta til aftur, svo að það mun verða látið standa, eins og það er nú, enda gefst þá tækifæri til að lagfæra það á næsta þingi, ef þess verður óskað. — Ræddar hafa verið fleiri breytingar, en n. var sammála um það, að ýmsu þyrfti að breyta, en óttaðist, ef breytingar yrðu gerðar, þá yrði því aftur breytt í Nd., og gæti það orðið frv. að falli. En ég og hv. 1. þm. S.-M., minni hl. sjútvn., höfum ekki getað fallizt á frv. eins og það er nú, og höfum borið fram brtt. á þskj. 710, og er 1. brtt. við 2. gr. B. Á eftir tölulið 39 kemur nýr liður: Kollafjörður í Gufudalssveit. — Ef frv. fer aftur til Nd., þá tel ég rétt, að þetta komi inn í það.

2. bntt. er við 9. gr. A-liður: Aftan við 3. mgr. komi: „ef þau njóta hlunninda af hafnargerðinni.“ — Ég álít, að það eigi ekki að taka gjöld af hafnarmannvirkjum einstaklinga, nema þau njóti hlunninda af hafnargerðinni. Þá er það b-liður: Á eftir 3. mgr. komi ný mgr., er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Nú eiga einstaklingar eða félög hafskipabryggju innan hafnarsvæðis, og má þá ekki taka í hafnarsjóð bryggjugjöld né gjöld af vörum, sem um þær bryggjur fara, fyrr en hafnarsjóður hefur komið upp sambærilegu mannvirki til afgreiðslu skipa, enda er eigendum slíkra mannvirkja óheimilt að taka gjöld af vörum, sem fara um bryggjur þeirra, nema samþykki hafnarstjórnar komi til.“

Ég vil í sambandi við þetta benda á, að til eru hafnarbryggjur á landinu, sem eru í höndum einstaklinga, þar sem hafnarsjóður hefur ekkert látið gera. Ef frv. fer í gegn óbreytt, þá er heimilt að taka hafnargjöld af þessum bryggjum, en það er með öllu óréttlátur skattur á þeim mönnum, sem þarna eiga hlut að máli. Við teljum því, að nauðsyn sé á að breyta þessu, jafnvel þótt frv. verði að fara til Sþ., og vænti ég, að þingmenn geti samþ. þetta.

Þá er c-liður þessarar brtt. um, að upphaf 4. mgr. orðist svo : „Heimilt er að innheimta gjöld til hafnar“ o. s. frv.

3. brtt. er við 17. gr., og er a-liðurinn um það, að úr 5. mgr. falli niður orðin „og lögum nr. 11 30. des.“ til enda greinarinnar. Þetta eru l., sem samþ. voru á Alþ. um sérréttindi Reykjavíkur til framkvæmda við Elliðaárvog. Við getum ekki fallizt á, að rétt sé að afnema þessi réttindi um sérstakar framkvæmdir við Elliðaárvog, og vænti ég, að þessi brtt. verði samþ. Þá er b-liðurinn um það, að aftan við 17. gr. bætist: „Lög nr. 76 14. nóv. 1917, um heimild fyrir stjórnarráð Íslands til að setja reglugerðir um notkun hafna o. fl.“ Sjútvn. þótti sjálfsagt, að þessi lög væru numin úr gildi, enda stríða þau á móti því, sem hér er verið að samþykkja.

Þá hefur nefndinni borizt brtt. frá hv. þm. Dal., sem hún hefur ekki haft ástæður til að athuga, en er ekki á móti, að verði samþ.

Ég vildi svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hefði sérstakan hátt á atkvgr. um þetta mál og bæri fyrst undir atkv. b-lið 3. brtt., því að það veldur miklu um, hvort frv. fer aftur til Nd., hvernig fer um þessa till. Við teljum nauðsyn að afnema þessi lög frá 1917.