15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það er aðeins út af síðustu ræðu flm. till., hv. 8. þm. Reykv. Það er áreiðanlega rétt hjá honum, að það er hægt að fá togara í Ameríku, sem eru helmingi dýrari en þessi skip, sem keypt eru frá Bretlandi, en eru þó á engan hátt sambærileg skip. Og ég vil minna á það, að þegar við fáum togarana, þá eru þau skip talin fullkomin skip af þessari stærð, sem þá væru byggð fyrir okkur í Bretlandi. Og þegar við höfðum breytt þessum sömu skipum og stækkað þau um 5 fet og fengið ýmislegt annað til að fullnægja ísl. kröfum, þá. kostuðu skipin ekki 72 þús. £, heldur 98 þús.

Og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, mundu bara sambærileg skip verða afar miklu dýrari í Ameríku en í Bretlandi. Það sjá menn bezt af því, að í upplýsingum ríkisstj. í þessum efnum komu gleggst fram þær staðreyndir, að í Ameríku var hægt að fá togarana miklu fyrr en í Bretlandi. Að ekki var látið smíða skipin þar, var vegna þess, að í Ameríku voru skipin miklu dýrari, auk þess sem ekki þótti sama um öryggi þeirra og ágæti og hinna brezku skipa. Hitt er auðvitað auðskilið mál, að það er miklu aðgengilegra að fá skipin fyrr en síðar. Ég endurtek það að lokum, að ég legg megináherzlu á, að þær till., sem stj. tekur við, séu þess eðlis, að hún hafi trú á framkvæmd þeirra. Ég trúi ekki á að Framkvæma þessa till., og þess vegna óska ég ekki eftir að hún verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja ræðu hv. þm. V.-Húnv. (SkG). Hann talaði um leiksvið og vandann á því að leika. Honum er enginn vandi að leika á þessu leiksviði, því að hann og hans flokkur leika þá sorglegu „rullu“ að vera á móti öllu þörfu, sem fram er borið. Það er enginn öfundsverður af því. En að því þarf enginn að spyrja, hvað hann á að segja, því að hann á aðeins að segja nei við öllu, sem stjórnin ber fram. Þó að „rullan“ sé auðlærð, þá er það engan veginn ánægjulegt fyrir þann, sem á að flytja hana.