15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

6. mál, togarakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Ég vil taka það fram hér, að ég er þeirrar skoðunar og ég hygg, að sú skoðun sé almenn í mínum flokki, að 30 togarar væri ekki nægilegt fyrir þjóðina, þó að búið væri að gera samninga um kaup á 30 skipum. Ég var ekki viðstaddur í ríkisstj., þegar gengið var frá þessu máli í sumar. Mér fannst ekki ástæða til að fara lengra í samningum þá, því að það hefði aðeins orðið til þess, að við hefðum fengið þau skip, sem hefðu orðið umfram 30, einhvern tíma síðar. Ég vil ekki á neinn hátt fullyrða, að höfuðástæðan fyrir því, að ekki var leitað til Ameríku, hafi eingöngu verið verðið. Að vísu var verðið töluvert hærra en í Englandi, þó mun það aðallega hafa ráðið, að reyndir menn í þessum atvinnuvegi, togaramenn og aðrir, sem starfað hafa við togaraútgerð, þeir höfðu ekki trú á amerískum togarabyggingum. Þeir höfðu meiri trú á enskum byggingum. Það er því engin fjarstæða, að þeir togarar, sem Ameríkumenn smíða handa sjálfum sér, eru ónothæfir fyrir Íslendinga við strendur Íslands. Hins vegar eru skipasmíðastöðvar í Ameríka nú tilbúnar að smíða togara eftir óskum og teikningum frá okkur. Að nokkru leyti hefur verið gerð lausleg áætlun um kostnað, en ekki fullkomin áætlun, og er talið, að togari geti kostað innan við 3 millj. króna, sem sé nokkru dýrari en þessi skip kosta í Englandi. (Forsrh.: Hve stór eru þau skip?) Þau eru 166 fet. Þetta verð hækkar kannske nokkuð, ef áætlunin verður endurskoðuð með tilliti til þeirra krafna, sem hér eru um skipasmíðar. Þó getur það nokkuð vegið upp á móti slíku, að verkstæði og fyrirtæki í Ameríku hverfa nú óðum frá framleiðslu í þarfir hernaðarins og verða þar af leiðandi starfslaus, þannig að ég tel ekki fullreynt um þetta. Ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel engar líkur til þess, að stj. sitji uppi með togarana og geti ekki selt þá, en það eru höfuðrökin hjá andstæðingum stj., að fáir muni fást til þess að kaupa togarana. Ég álít, að það dugi ekki eingöngu að fara eftir kaupgetu þeirra, sem áhuga hafa fyrir skipunum. Eftir því sem við gerum hærri kröfur um lánveitingar, þeim mun færari verðum við um að kaupa þessi skip. Ég held, að rétt sé að athuga þjóðhagslega, hvað við þurfum marga togara á næstu 5 árum. Þetta þarf að rannsaka þjóðhagslega, síðan þarf að gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að útvega þessa togara, burtséð frá getu einstaklinga til þess að kaupa þá og reka. Það er enginn vafi á því, að það eru til margir staðir á landinu, — kannske vesalt smáþorp, — sem eru heppilegir til togaraútgerðar, en enginn einstaklingur þar, sem gæti lagt fram neitt fé til útgerðar, og þá gæti það verið þjóðhagslega sjálfsagt að láta togara í þetta pláss og lána því alla upphæðina. En þegar farið væri út í það að lána 100%, þá væri sjálfsagt að binda það því skilyrði, að einstaklingar væru ekki látnir hagnast á því, en þjóðfélagið látið taka á sig alla áhættuna, heldur yrði að miða við það, að sýslufélög eða bæjarfélög væru eigendur þessara skipa. Þetta er allt til athugunar. Það er enginn vafi á því, að menn telji æskilegt að gera út togara. Það er komin reynsla á það, að það er arðbærasti útvegur okkar, sá hluti útgerðarinnar, sem beinlínis hefur haldið útgerðinni uppi. Þaðan er komið meginið af þeim gróða, sem komið hefur inn í landið. Ég vil slá því föstu, að ef sjávarútvegur okkar verður rekinn með þeim hætti, að einhver vill kaupa vörur okkar, þá verða togararnir arðbærustu atvinnutækin, sem við höfum, þess vegna á ríkisvaldið að hafa það í hendi sinni, hvað það vill láta setja marga togara í gang. Ég er ekki með þessu að segja, að það eigi að kaupa ótakmarkaðan fjölda togara og sáldra þeim út um landið; þarna þarf að setja reglur um. En við megum ekki gleyma því að við þurfum að gera okkur heildarmynd af þessu; ég álít, að það eigi að ákveða togarafjöldann, en ekki kaupgetu einstaklinganna. Ég held, að 30 togarar sé ekki nóg. Það má búast við, að nokkrir af þeim togurum, sem nú eru reknir, séu ósamkeppnisfærir við hina nýju togara og eins við hina erlendu togara eftir skamman tíma. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að það er ekki höfuðatriði, hvort þessi till. er samþ., ég tel aðeins að í henni komi fram skoðun Sósfl. um, að það sé ekki nægilegt að binda sig við 30 nýja togara. Bak við till. liggur ekki sérstök rannsókn, heldur er hún vottur um það, að ekki hafi verið gengið nógu langt í þessu og það beri að halda áfram rannsókn á því, hvort hægt væri að fá skip með þeim kjörum, sem við viljum sætta okkur við.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, að það mundi koma á daginn, að eftir nokkur ár mundi verða hægt að fá togara með hagkvæmara verði en þessa togara ríkisstj. Það mun vera alveg rétt, að þessir togarar munu verða dýrari en nokkrir aðrir togarar, sem smíðaðir hafa verið af þessari stærð, en það byggist á því, að við gerum hærri kröfur en nokkur önnur þjóð. Þessir togarar vekja athygli ekki einasta í Bretlandi, heldur víðar, og ég tel, að þessir togarar mundu verða okkur til sóma. Það er vert að athuga, að þó að togarar fengjust ódýrari eftir 2–3 ár, þá er ekki víst, að þessir togarar yrðu neitt dýrari, þegar búið væri að draga frá verði þeirra það, sem þeir hefðu aflað á þeim tíma. Það er einu sinni svo, að þjóðin getur ekki sætt sig við að bíða með það að fá atvinnutæki, þangað til verðlag lækkar; hún vill fá atvinnutækin strax, og ég býst við, að það sé hagkvæmara að fá atvinnutækin svo fljótt sem mögulegt er, þó að þau séu dýrari, en að stofna til vandræða og atvinnuleysis með því að bíða eftir að verðlag lækki.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að ég tel það rétt, að stj. mundi hafa tekið þetta mál til athugunar þrátt fyrir það, þó að þessi till. hefði ekki komið fram, og ef það kemur fram, sem ég tel enga fjarstæðu, að þessir 30 togarar reynist of fáir, þá mundi stj. hafa tekið þetta mál til yfirvegunar með það fyrir augum að flytja inn fleiri togara, ef það yrði talið heppilegt.