15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í ræðu hæstv. atvmrh., ég vil aðeins undirstrika það, sem hann sagði, að stj. mundi hafa gert það sama í þessu máli, hvort sem þessi till. hefði komið fram eða ekki, og það er ekkert höfuðatriði, hvort till. er samþ. Ég verð að telja, að það sé heldur verra, að till.samþ., úr því ekki liggur fyrir, að hægt sé að framkvæma hana, því að það er alveg vitað mál, að þetta er í athugun hjá stj. Með þessum forsendum ber að líta á till. sem stefnuyfirlýsingu Sósfl. um það, að það beri að verja meiru af fjármunum þjóðarinnar í þessu skyni en því, sem gert er ráð fyrir í frv., sem hér um ræðir. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, að stefnuyfirlýsing komi fram í sölum Alþ., en ég hefði kunnað betur við, að sú stefnuyfirlýsing hefði komið fram í viðræðum þeirrar stj., sem stendur að flutningi þessa frv. Ég álít, að þar sem við vinnum saman, væri fullt eins eðlilegt, að slík stefnuyfirlýsing kæmi á vegum ríkisstj. allrar og þyrfti þá ekkert að bera á milli. Hæstv. atvmrh. sagði, að till. skipti engu máli, því að þessi stj. mundi halda áfram að rannsaka málið, og ef hún teldi það í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar að kaupa fleiri togara, þá mundi hún afla sér til þess heimildar. Stj. þarf ekkert að óttast, þó að hún taki þá heimild með bráðabirgðal., því að hún þekkir vilja þeirra manna, sem að henni standa; hitt er meginatriðið, hvaða trú við höfum á þeim möguleikum að festa kaup á skipum í Ameríku. Ég álít raunar, að við þurfum ekki að hafa neina trú í þessum efnum, með því að fyrir liggur reynsla dómbærra manna um, að þessi skip munu ekki henta okkur Íslendingum. En þar sem þessi 166 feta skip í Ameríku mundu kosta 3 millj., geri ég ráð fyrir, að 175 feta skip mundu kosta 3,5 millj., og 4,5 millj., þegar búið væri að breyta þeim eins og skipunum frá Bretlandi. En slík skip mundu kosta 2½ millj. í Bretlandi. Ég teldi því ekki fært að fara inn á þá braut. — Ég held þess vegna fast við það, að núv. stj. þarf ekki á, slíkri till. að halda; hins vegar getum við svo rætt um þetta bráðlega eins og svo mörg vandamál, sem hefur þurft að leysa í ríkisstj.