15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

6. mál, togarakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Út af því, sem hv. forsrh. sagði, að okkur bæri ekkert á milli, vil ég taka það fram, að það, sem okkur ber á milli, er það, að ég er sannfærður um það fyrirfram, að rétt sé að miða við að kaupa fleiri en 30 togara, en hann er sannfærður um, að það sé ekki rétt að kaupa fleiri en 30 togara. Í öðru lagi er ég sannfærður um, að reynslan mun sýna, að þörf er fyrir fleiri en 30 togara, og þegar sú reynsla væri komin fram, þá væri ég mjög vongóður um, að stj. mundi verða tilleiðanleg til þess að leysa þetta mál. Miðað við það, sem fram hefur komið í bæjarstj. Reykjavíkur, að bærinn fengi 20 togara, ætti Hafnarfjörður að fá 7 togara, og þá eru ekki eftir nema 3 fyrir allt landið. Virðist af þessu vera ljóst, að þörfin fyrir togara er miklu meiri en sem nemur þessum fjölda. En það er bezt að láta reynsluna skera úr um þetta. Náttúrlega er enginn vandi að skrúfa niður eftirspurnina með því að hindra þá menn, sem ætla sér að fara út í togarakaup, í því að fá viðunandi stofnlán. Nýbyggingarráð flytur frv. um þetta, og verði það samþ. í svipuðu formi og það kom frá því, þá verða þessi mál leyst á viðunandi hátt, og mun þá koma í ljós, að það er þörf fyrir fleiri togara en 30. Ef Alþ. vill fallast á, að rétt sé að miða við fleiri skip en 30, samþ. það till., en sé það á öðru máli, fellir það hana.