25.02.1946
Neðri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Ég skal ekki blanda mér í umr. um búnaðarmálasjóð hér í hv. d., og þessi ræða hv. þm. Mýr. gefur mér ekki tilefni til þess. Mér virðist ýmislegt af því, sem hann hélt fram í þessari ræðu, þannig vaxið, að það sé óþarfi að standa hér upp til þess að mótmæla því, vegna þess að það er ljóst, að margt af því, sem hann sagði, eru slíkar firrur, að allir, sem hér á hlustuðu, sjá það og skilja án þess að staðið sé upp tiI þess að mótmæla því. T. d. eins og það, að með því að breyta l. um búnaðarmálasjóð eins og nú er verið að gera, sé verið að beita bændastéttina ofbeldi og taka ráðstöfunarréttinn af henni, því að þótt form. Búnaðarfélags Íslands fullyrði það hér á Alþ., munu bændur sjálfir ekki vera á þessari skoðun, heldur álíta þeir, að verið sé að gefa þeim miklu sterkara vald yfir fé búnaðarmálasjóðs með því að gefa búnaðarsamböndunum fullan umráðarétt yfir þessu fé. Það er aðalfundur búnaðarsambandanna, sem á að ákveða um það, hvernig þetta fé er notað, og þá er ekki hægt að segja, að það sé verið að taka umráðaréttinn af bændunum, því að það er verið með því að gefa bændastéttinni nærtækara vald yfir þessu fé. Lögin um búnaðarmálasjóð háfa verið mikið rædd síðan þau voru samþ. Ég minnist þess, að á 9 leiðarþingum, sem ég og samþm. minn héldum á s. l. sumri, var alltaf rætt um búnaðarmálasjóðinn og mest um það ákvæði, sem snerti landbrh. og gat verið háskalegt fyrir bændastéttina. Ég get sagt það, eins og hv. þm. Mýr., að ég var frá því fyrsta á móti því, að landbrh. hefði nokkra íhlutun um það, hvernig þessu fé væri varið, og ég tel það vel farið, að það atriði er burt numið með þeirri breyt., sem nú er verið að gera á l. Og það er vitanlega ekki vegna þess, að þeim ráðh., sem nú situr í þessu ráðherrasæti, sé vantreyst, heldur gæti það vel farið svo, að það kæmi ráðh. í það sæti, sem vildi nota þetta vald út í yztu æsar, og kæmi það þá í bága við vilja bændastéttarinnar. Nú þarf ekki að rífast um þetta, eftir að búið er að breyta l. eins og nú verður gert, rífast um þetta háskalega atriði, sem framsóknarmenn útmáluðu svo út um allar byggðir landsins, því að það er burtu numið, og satt að segja hefði ég ætlað, að framsóknarmenn væru ánægðir með það. Því kom mér það á óvart, þegar ég heyrði áðan form. Búnaðarfélags Íslands segja hér: Ég vil heldur nema l. úr gildi að öllu leyti en að þau verði samþ. eins og útlit er fyrir, að nú verði gert. — Hv. form. Búnaðarfélagsins mælir hér ekki fyrir munn bændastéttarinnar, heldur talar hann svo fyrir munn Framsfl. Bændastéttin vill sízt af öllu, að 1. um búnaðarmálasjóð verði felld niður, eftir að sú breyt. er á komin, sem nú á að gera, og ég veit, að hv. þm. Mýr. mælir þar ekki fyrir hönd framsóknarbændanna. Hann hefur kannske í huga framsóknar-þingmennina, að þeir vilji heldur afnema l. um búnaðarmálasjóð en samþ. þau eins og nú á að gera, en framsóknarbændur vilja l. eins og ákveðið er. Ég þekki marga framsóknarbændur, sem vilja þetta. Brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. landsk. var samþ. við 2. umr. hér í d., og er vonandi, að frv. fari áfram í gegn í þeirri mynd, sem það nú er í, og verði afgr. þannig sem lög. Ég tók það fram áðan, að ákvæðið um landbrh. væri burtu fallið, þetta sem var málað upp á vegginn sem skolli og hætta fyrir bændastéttina. Og eru framsóknarmenn ekki ánægðir með það, eða eru þeir óánægðir yfir því, að þeir skuli ekki hafa þetta atriði áfram til þess að geta talað um það og hrætt bændur með því, t. d. á fundum í vor fyrir kosningarnar? Ef það skyldi kannske vera aðalóánægjan yfir þeirri breyt., sem nú er orðin, þá verður það ekki tekið til greina. Búnaðarþing samþ. ráðstöfun á fé búnaðarmálasjóðs síðast og það ætlar sér að ráðstafa því, eins og form. Búnaðarfélagsins sagði áðan. Í fyrsta lagi til þess að byggja yfir starfslið Búnaðarfélagsins sjálfs, yfir ráðunautana og búnaðarmálastjóra og yfir bókasafn o, s. frv. Það er rétt, sem hann sagði, að það húsnæði, sem þeir starfa í, er orðið gamalt og lélegt og þarf áreiðanlega áður en langir tímar liða að bæta úr því. En það var fleira, sem átti að gera og kostar mikið fé, og meira en það, sem nauðsynlegt var að gera til þess að ráðunautum og starfsliði Búnaðarfélagsins gæti vegnað vel í þessu húsnæði. Það átti að byggja gistiheimili fyrir 100 gesti með tilheyrandi veitingasölum, og það var látið í veðri vaka í þeirri till., sem samþ. var á búnaðarþingi, að fé búnaðarmálasjóðs ætti nú á komandi ári að verða varið að mestu leyti til þessarar byggingar. Till. var, eftir því sem ég man, skrifuð af hv. 2. þm. Skagf. í fyrsta lagi var stjórn Búnaðarfélagsins falið að fá lóð á hentugum stað í bænum undir þetta hús, og það er náttúrlega fyrsta atriðið, en það hefur ekki verið reiknað út eða verið með áætlanir um, hvað sú lóð gæti kostað, ef hún t. d. væri nálægt miðbænum. Í öðru lagi átti að gera ráðstafanir til að fá teikningu fyrir þessa væntanlegu byggingu, það er sjálfsagt atriði. Í þriðja lagi að hefjast handa um framkvæmdir, eftir því sem fært þætti. En í till. var það líka orðað, að það skyldi útvega. fé annars staðar að, eftir því sem fært þætti. Hv. þm. Mýr. talaði um það hér áðan, að það hefði verið meiningin að fá fé til viðbótar frá Mjólkursamsölunni, Sláturfélagi Suðurlands og S. Í. S., og það átti að réttlæta það, að búnaðarþing samþ. að ráðast hér í stóra hótelbyggingu, með því, að féð ætti að koma frá þessum stofnunum, en ekki allt frá búnaðarmálasjóðnum. En hver er munurinn? Búnaðarmálasjóðurinn er stofnaður með veltuskatti á afurðum bænda. Og þessar 3 stofnanir, sem ég taldi upp, hvaðan hafa þær fé nema þá frá bændum? Sláturfélagið, — hvar átti það að taka féð, sem það vildi leggja í þessa byggingu, nema með því að draga nokkra aura af hverju kjötkg., sem bændur leggja inn? Hvaðan átti Mjólkursamsalan að fá fé nema með því að borga bændum minna fyrir mjólkina en hún annars hefði getað gert? Og S. Í. S.; bændur einir eiga ekki þá sjóði, sem þar eru til, af því að þar starfa líka neytendur í kaupstöðum, en bændur eiga drjúgan hluta af eignum Sambandsins. Það ber þess vegna allt að sama brunni, þó að þessar stofnanir hefðu lagt til nokkurn hluta af stofnkostnaði þessum, þetta fé var allt komið frá bændastéttinni; og ég verð að segja það, að stjórn Búnaðarfélags Íslands og form. þess, hv. þm. Mýr., sem ugglaust hefur ferðazt um sveitir þessa lands og þekkir vel, hvernig hagur þeirra er, hann veit, að bændastéttin hefur ekki efni á því að verja millj. kr. til hótelbygginga hér í Reykjavík. Það er augljóst af því, að í sveitum landsins víða er enn mjög ábótavant með húsnæði og nauðsynlegar byggingar. Ég veit, að bændur sjálfir álíta að þeir eigi fyrst að byggja sæmilega yfir sjálfa sig, áður en þeir leggja í lúxusbyggingu hér í Reykjavík. Það er talað um, að það sé nauðsynlegt að byggja hér í Reykjavík hótel fyrir bændur, vegna þess að þeir verði annars að vera á götunni eða híðast á kunningjum sínum og frændum, þegar þeir eru hér á ferð. Ég veit, að ástandið hefur ekki verið gott í þessum efnum undanfarið að fá gistingu hér í Reykjavík, en það er verið að bæta úr þessu. Það er í ráði að byggja hér stórt hótel, sem á að kosta 15 millj., og þetta hótel er ekki frekar fyrir aðra en bændur og fyrir hvern, sem er á ferð í bænum. Það er eins og sumir alþm. hugsi, að hús þurfi að vera eitthvað öðruvísi, ef bændur gista þar en aðrir. Ég segi, að bændur eigi að gista í sams konar húsum og aðrir menn í þessu þjóðfélagi. Ef byggt er hér hús, sem ætlað er fyrir bændur til að gista í, á það ekki að vera óvandaðra eða óvistlegra en þótt öðrum landsmönnum væri líka boðið þar inn. Þennan hugsunarhátt hjá hv. þm., sem fara með umboð bændastéttarinnar, á að reka út, og er ekki sæmandi nema því aðeins, að þessir þm. líti svo á, að bændur séu eitthvert annars flokks fólk. Ég leyfi mér að mótmæla þessu. Og í sambandi við þetta vil ég minnast á grein, sem hv. 2. þm. Skagf. skrifaði fyrir nokkru og átti að vera svar til mín og hv. þm. A.-Húnv. Það mátti lesa það milli línanna í þessari grein, að ef hús væri byggt hér, sem ætlað væri fyrir bændur, þá þyrfti það ekki að vera eins vandað og önnur hótel. Það er leiðinlegt að verða var við slíkan hugsunarhátt sem þennan og slíkar skoðanir sem þessar hjá bændum sjálfum, hjá alþm., sem fara með umboð þeirra á Alþingi.

Ég kemst ekki hjá því að hrekja firrur hv. 2. þm. Skagf., sérstaklega að því er varðar byggingarkostnað á þessu nýja hóteli. Hann var á undanhaldi í þessari grein. Till. Búnaðarfélags Íslands var að byggja hótel fyrir 100 gesti, en hv. þm. segir, að aldrei hafi ætlunin verið að hafa herbergi fyrir fleiri en 50 menn. Þá er líklegt, að afgangurinn fari í gólfflötinn. En hví fer hann svona hart á undanhaldinu? Hann vildi leyna því, að það mundi kosta um 4 millj. kr.

Þá verður hótelið ódýrara, ef helmingurinn á að vera á gólfinu. Þegar búnaðarþing samþykkti að byggja hótel fyrir 100 manns, þá átti það við herbergi fyrir 100. Það er ég alveg sannfærður um. Hv. þm. minnir á Nýja stúdentagarðinn og segir, að hann hafi kostað 1½ millj. kr. Hins vegar verði hin væntanlega bygging minni. En hvað er annars um Garð að segja? Byrjað var á honum árið 1941, og þá voru vinnulaun um helmingi lægri en nú. Svipað er urn sementið að segja. Það var mun lægra, en verð á timbri var aðeins hærra. Efniskostnaðurinn var ekki nema 15–20% af byggingarkostnaði. Ef Garður væri byggður nú á tímum, mundi hann a. m. k. kosta 3 millj. kr.

Þessu næst ætla ég að athuga þá staðhæfingu hv. þm., að nýja húsið verði minna. Garður er með 60 herbergi. Rétt er nú það. Hann er byggður með svipuðu fyrirkomulagi og íbúðarhús yfirleitt. Má segja, að það sé boðlegt bændum, sem boðlegt er stúdentum. Stúdentagarðurinn er ekki byggður sem nýtízku hótel. Hann hefur að vísu nógu stórar stofur fyrir mötuneyti, en í byggingunni eru engir veitingasalir. Þetta verðum við að taka til athugunar. Garður hefur enga veitingasali, en þá þurfa hótel að hafa.

Ýmis fleiri þægindi vantar og á Garð, sem nauðsynleg eru, til þess að telja megi einhverja byggingu hótel í samræmi við nútímakröfur. Þar eru ekki heldur nema 60 herbergi. Á hótelinu er yfirleitt gert ráð fyrir eins manns herbergjum. Þótt hótelið yrði byggt fyrir bændur og miðað við, að tveir yrðu í herbergi, þá er það nú svo, að byggingin má aldrei standa auð. Hótelið á að vera fyrir hvern sem er, a. m. k. ef bændur þurfa ekki á því að halda. Ég hafði tal af húsameistara í morgun, og sagði hann mér, að alls ekki væri of hátt reiknað, að eitt herbergi með veitingasal í nýju gistihúsi kostaði 100 þús. kr. Á Borginni eru 40 herbergi leigð út, og nam byggingarkostnaður þess hótels á árunum 1929–'30 900 þús. krónum. Koma þá 22.500 kr. á hvert herbergi. Á hinn bóginn hefur byggingarkostnaður 6–7-faldazt síðan. Nú kunna margir að láta svo um mælt, að hótel Borg sé „lúxus“hótel, mikill íburður o. s. frv. En ég býst ekki við, að það orð verði með réttu haft um Borgina. Hitt er svo aftur annað mál, að ekki er of mikið sagt, að Borg sé nýtízku hótel og það bezta, er við eigum. Og ég held varla, að búnaðarþing hafi ætlazt til annars en þetta yrði fullkomlega nýtízku hótel, enda er alls ekkert vit í öðru. Vitanlegt er, að aðeins er von um, að herbergin standi ekki auð, að um nýtízku byggingu sé að ræða.

Svo að minnzt sé aftur á Nýja Garð, þá fullyrti húsameistarinn, að hann mundi kosta nú ekki minna en 3 millj. kr. Ég hef nú fengið nýtt sönnunargagn frá Sigurði Guðmundssyni arkitekt. Segir hann rúmmál Garðs vera 5300 m 3 . En talið er, að m3 í vönduðu húsi nú í Reykjavík kosti yfir 500 kr. Verður þá útkoman 2.750.000 kr. Ég álít, að því athuguðu, að herbergin á Nýja Garði eru 60, þar vantar veitingasali og ýmis nýtízku þægindi, að hótelið yrði að vera töluvert stærra en hann, ef það á að uppfylla kröfur nútímans til hótela. Og svo þarf þjónustufólk og starfsfólk að búa í því samkvæmt hótelrekstrinum. Skrifstofum Búnaðarfélagsins ber og að vera þarna, og ætla verður rúm fyrir bókhlöðu. Samkv. tillögu búnaðarþings yrði því hús þetta að vera allmiklu stærri bygging en Garður. Menn munu sannfærast um það, að hinar 3 millj. eru fremur of lágt verð en of hátt. Gætum að einu: Hin 40 herbergi á Hótel Borg kostuðu 900 þús. kr. Borg, sem telja verður nýtízku hótel, en ekki „lúxus“-hótel, mundi kosta núna um 6 millj. kr. En hér er eitt að athuga, og það er gyllti salurinn. Hann yrði nú ekki nauðsynlegur þarna (BÁ : Mega bændurnir ekki eiga sér sinn gyllta sal?). Ég býst við, að eitthvað verði að dragast frá Borg. Þótt gyllti salurinn sé dreginn frá, þá eru eftir 400 þús. kr.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ekki væri ætlunin að verja meiru en ¼ hluta búnaðarmálasjóðs til byggingarinnar. Þetta kemur ekki heim við ummæli hv. þm. Mýr. hér áðan, er hann sagði það ætlun búnaðarþings að verja mest öllum búnaðarmálasjóði til hótelbyggingar. En það mun rétt vera hjá hv. þm. Kemur það því undarlega fyrir sjónir, þegar hv. 2. þm. Skagf. talar um, að aðeins eigi að verja ¼ hluta úr sjóðnum til byggingarinnar, en 3/4 hluta eigi að fá annars staðar að. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ætlazt væri til að fá allríflegan ríkisstyrk, en þeirri fjárleitan hefur ekki verið komið formlega á framfæri. Ég undrast það mjög, að þessi hv. þm. skuli þá ekki hafa gert neinar ráðstafanir til þess hér á hv. Alþ. að útvega þetta fé — 3/4 — til móts við framlag sjóðsins. (JS: Ég held, að hv. þm. hafi ekki lesið gr. þá, sem hann er að svara.) Því getur ekki að öllu leyti verið komið á herðar bænda að bera slíkt. Ég held ég hafi rökstutt það, að allt hefði borið að sama brunni, bændur hefðu orðið að bera hita og þunga verksins. Hefur mér skilizt, að réttlætanlegt væri að koma upp slíku húsi fyrir bændur.

Hv. 2. þm. Skagf. færir rök fyrir máli sínu með því að vísa til norsku bændaheimilanna. Þar sé ódýrara að vera en annars staðar. Ég tel, að hv. þm. verði að nefna frekari heimildir, til þess að trúanlegt verði tekið, að þar sé ódýrara og hagur bænda betri en annars staðar. Svo er nefnilega málum háttað, að á norsku bændaheimilunum er ekki hóti ódýrara að dveljast en annars staðar. Aðrir en hv. þm. hafa líka ferðazt um Noreg og gist á þessum hótelum. En þeir hafa allt aðra sögu að segja, og ljúka allir upp einum munni um það, að þar sé ekkert ódýrara en á öðrum stöðum. Ég sé ekki fram á, að hér í Rvík verði farið að selja ódýran sveitamat. Hvernig á að hafa íslenzkan sveitamat ódýrari á sambærilegan hátt við annað matarverð? Ég tel okkur báða á eitt sátta um, að sveitamatur eigi ekki að lækka í verði á undan öðrum mat. Og þó vona ég, að ekki verði langt þangað til farið verði að selja sérstaklega ódýran sveitamat. Hvernig ætti og að fara að leigja ódýrari herbergi í þessu hóteli en öðrum, sem byggð verða á sama tíma? Við hljótum að verða sammála um það, þm. Mýr. og 2. þm. Skagf., að hótel, byggt með margfaldlega meiri — eða 5–6 földum byggingarkostnaði, geti ekki leigt ódýrari herbergi en eldri hótel. Það er ekki talað um að útvega hótelinu rekstrarstyrk. Ef hann væri vís, kæmi ódýr dvalarkostnaður til greina. Hv. þm. eru það skynsamir, að þeir skilja, að ekki er hægt að reka hótelið á ódýran hátt, nema rekstrarstyrkur komi til. Og tel ég búnaðarmálasjóði illa varið í þann rekstrarstyrk.

Af eðlilegum ástæðum hef ég orðið fjölorður um byggingarkostnaðinn. En það er vegna þess, að haldið hefur verið fram, að sú upphæð stofnkostnaðarins, er ég nefndi — 4 millj. kr. —, væri of há. Þið, hv. þm., ættuð bara að tala við húsameistara og aðra menn, sem við byggingar fást hér í bæ og kunnugir eru þeim málum. Þið skuluð spyrja um kostnaðinn við svona hótelbyggingu. Þeir munu svara ykkur og nefna ekki 4 millj., heldur 5–6 millj. Því get ég látið útrætt um kostnað húss, sem verður ekki byggt, þótt fyrirhugað sé.

Ég hef nokkuð talað um stofnkostnað þessa hótels, og ætti að vera óþarfi að fjölyrða um það mál frekar. Ljóst er, að um svipaðan rekstrarkostnað verður að ræða.

Ég sagði áðan, að hótelið yrði ekki reist. Verður lögum um búnaðarmálasjóð breytt til þarfa fyrir bændastéttina sjálfa. Með breytingunni er gert ráð fyrir, að fé sjóðsins renni til búnaðarsambandanna. Samböndin halda árlega einn aðalfund, og ráðstafa þau þar fé þessu, eftir því sem heppilegt telst á hverjum tíma. Ætlazt er til, að aðalfundurinn verji fé úr sjóðnum, þegar búnaðarsamböndin vantar fé, en þau hafa ekki alltaf haft mikið milli handa. Þetta fé verður vafalaust notað til ræktunar, verkfærakaupa, leiðbeiningastarfsemi o. fl., enda eru verkefnin ótæmandi. Segir það sig sjálft, að með því að láta samböndin hafa féð, muni þau nota það til þess, er með þarf, þegar bændur fá svona vald til ráðstöfunar eigin fjár. Tel ég víst, að menn muni verða sammála um, að ummæli hv. þm. Mýr. séu óskiljanleg, þar sem hann talar um ofbeldi, er sýnt sé bændum með því að svipta þá valdi yfir sjóðnum. Kemur mönnum þessi staðhæfing hv. þm. mjög undarlega fyrir sjónir. Hann hefur fremur gott orð á sér fyrir hæversku og að vera gætinn í orðum, og er því þessi orðræða hans þeim mun undarlegri. Hvað veldur þessum ummælum hv. þm? Hvað veldur, að formaður Búnaðarfélags Íslands segist heldur vilja afnema lögin en samþykkja þau í þeim búningi, sem þau nú eru? Er það vegna þess, að honum finnist, að búnaðarsamböndin þurfi þessa fjár ekki með, eða hann álíti ekki vera næg verkefni fyrir hendi? Treystir formaðurinn fulltrúunum ekki til þess að ákveða á skynsamlegan hátt, hvernig fénu skuli varið? Ég held tæplega, að hv. þm. Mýr. líti svo smáum augum á stéttarbræður sína sem ætla má af þessari fullyrðingu hans. Ég held miklu frekar, að þessi hv. þm. hafi gripið til þessarar fullyrðingar sinnar út af því, að hann hafi vantað rök fyrir öllum þeim upphrópunum, sem voru í ræðu hans, sem hafa verið í tali hans og hans flokksmanna um þetta mál, síðan það kom hér á dagskrá. En þessi hv. þm. er þegar búinn að vera of lengi í sölum hæstv. Alþ. til þess að vita ekki það, að svona gífuryrði hafa ekki áhrif á hv. alþm. og breyta ekki skoðun þeirra á málinu. Ég held, að jafnvel þó að þessi hv. þm. væri á kosningafundi vestur í Mýrasýslu, þá yrði alveg gagnslaust fyrir hann að grípa til svona fullyrðinga máli sínu til framdráttar. Og því síður ætti það að gagna hér á hæstv. Alþ.

Ég get nú að þessu sinni látið máli mínu lokið. Ég tel, að það, sem fram hefur komið af hálfu þeirra manna, sem ekki vilja samþ. l. um búnaðarmálasjóð í þeirri mynd, sem þau nú eru, hafi allt verið hrakið nú. Ég held þess vegna, að ekki sé ástæða til þess að lengja orðræður um þetta frekar.