25.02.1946
Neðri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka til máls. En þar sem hv. 2. þm. Rang. vék orðum sínum alveg beinlínis til mín út af grein, sem ég hafði skrifað fyrir nokkru um gistiheimili bænda, þá sé ég ekki annað en að ég verði að gera ræðu hans nokkur skil. Það er óneitanlegt, að það er heldur leiðinlegt að ræða við menn, sem maður finnur að belgja sig upp, en hafa í raun og veru ekki trú á nokkru því, sem þeir eru að segja. Og það er það, sem er tilfellið með hv. 2. þm. Rang. í þessu efni. Hann hefur ekki sjálfur trú á þessu, sem hann heldur fram í sambandi við þetta gistihúsmál, heldur hefur þetta gistihúsmál verið valið sem áróðursmál til þess að reyna að réttlæta það, að það er farið ósvífnislega að Búnaðarfélagi Íslands. Það er ekkert annað en þetta, sem gerzt hefur. Það þurfti að finna eitthvað til að fóta sig á til þess að vega að Búnaðarfélagi Íslands, og þá er þetta mál valið, af því að það er talið líklegast af þeim málum, sem fyrir lágu, til þess að geta vakið athygli bænda og gert þá tortryggna. Þetta er sú raunverulega ástæða til alls þess langlopa, sem hv. 2. þm. Rang. spann og leitt hefur til allra þessara umr., sem hér hafa farið fram um þessa gistihúsbyggingu. Því að þótt þetta mál hafi ekki komizt fyrr inn í þingið, er það ekkert nýmæli. Og það hefði verið full ástæða til að taka þetta oftar til umr., því að búnaðarþing er búið að gera ályktun um þetta og starfa að undirbúningi þessa máls um lengri tíma. Og meira að segja var mjög mikið rætt um þetta fyrir stríð. Þetta er því síður en svo nýtt mál. Og þessi hvalablástur nú um þetta mál bendir fyllilega til þess, að mál þetta hefur verið valið sem áróðursatriði, af því að annað var ekki fyrir hendi til þess að grípa til, sem líklegra þætti til þess að gera búnaðarþingið og ráðstafanir þess á fé búnaðarmálasjóðs tortryggilegt. Það var ekki annað fyrir hendi.

Hv. þm. Mýr. hefur nú svarað nokkru af firrum hv. 2. þm. Rang., sem komst nú út í að tala um það, sem þegar hefur verið svarað, að lóðin undir þessa byggingu mundi kosta mörg hundruð þús. kr. Og fleira þess háttar kom hv. 2. þm. Rang. með. Annars vil ég — af því að hv. 2. þm. Rang. kvartar mjög um það, að upplýsingar liggi ekki fyrir og ályktun um þetta mál, — upplýsa, að ég hef gefið upplýsingar um málið, sem nefndarmaður í nefnd, sem að tilhlutun Búnaðarfélags Íslands er starfandi um þetta mál. Og ef hv. 2. þm. Rang. hefði viljað vita eitthvað frekar um þetta mál, þá var ég alltaf til viðræðna um það. Hann hefði ekki þurft annað en að koma til mín og þannig getað fengið allar upplýsingar, sem hann hefur vantað, sem aftur hefur valdið því, að hann hefur að sumu leyti hlaupið í þessu máli á hundavaði. Þetta lá fyrir, og það var umsögn nefndar, sem ég gerði þar grein fyrir. Það er ekkert undanhald í því efni af minni hálfu eða annarra, vegna þess að það er ekki annað en það, að skýrt var frá því, sem gerðist og ég veit, að allir nm. eru reiðubúnir til að staðfesta. Og má hv. 2. þm. Rang. gjarnan spyrja aðra nm. um, hvort ekki sé að öllu leyti rétt með farið í þeirri grein, sem hann minntist á, að því er snertir afstöðu n. og það, hvernig málið var lagt fyrir. Ég hygg, að þar hafi ekki verið hallað réttu máli á nokkurn hátt, hvað svo sem hv. 2. þm. Rang. reynir að snúa út úr og gera það tortryggilegt, sem þar kom fram. Annars er afstaða þessa hv. þm. vægast sagt dálítið einkennileg. Hann mótmælir því harðlega, að bændur leggi fram nokkurn eyri í byggingu gistiheimilis. Þó telur hann, að það séu hreinustu vandræði ástandið í þessu efni, sem nú er, hve erfitt er fyrir bændur að fá húspláss hér í Reykjavík á ferðum sínum, og hann telur, að bændur geti hvergi búið, nema á lúksushótelum, — það sé ekki annað þeim samboðið, skilst mér. En manni verður fyrir að spyrja: Hvernig er ástandið nú í þessum efnum? Hv. 2. þm. Rang. sagði, að menn, sem kæmu á ferðalagi hingað til bæjarins, yrðu að þrengja sér inn hjá kunningjum sínum og liggja á dívan eða jafnvel á flatsæng. Og ég get bætt því við, að ég veit þó nokkur dæmi þess, að menn, sem ókunnugir eru, hafa ekki komizt hér inn og jafnvel orðið að leita á náðir lögreglunnar, þegar komin hefur verið nótt, til þess að fá inni a. m. k. fyrstu nóttina. Þannig er ástandið hjá þeim, sem búa í fjarlægð frá Reykjavík. Það kann að vera betra fyrir þá, sem heima eiga á Suðurlandi, en fyrir þá, sem heima eiga í fjarlægum héruðum frá Reykjavík, er þetta reynslan. Enda hefur þessu gistiheimilisbyggingarmáli verið mjög vel tekið þar, sem ég þekki til. Og það hafa verið boðnar fram talsverðar upphæðir sem gjafir eða styrkur til þessa fyrirtækis, bæði frá prívatmönnum og stofnunum, og allt að 45 þús. kr. hafa þegar verið afhentar Búnaðarfélagi Íslands sem gjafir til slíks heimilis. Þetta sýnir m. a., að það eru ýmsir menn og stofnanir, sem líta á þetta mál nokkuð á annan veg en hv. 2. þm. Rang. og hafa miklu meiri metnað fyrir hönd bænda en hann virðist hafa. En í sambandi við það lúksushótel, sem hann talaði um, og að það væri ekki boðlegt að bjóða bændum upp á annað en það allra fullkomnasta í þeim sökum, þá kann það vel að vera um bændur í Rangárvallasýslu. Ég skal ekki segja um það. Það kann vel að vera, að þeir búi alltaf á Hótel Borg, þegar þeir eru hér í bænum, sem má telja eina lúksushótelið á landinu. En ég þekki ekki til þess, að bændur búi, nema út úr neyð, á Hótel Borg. Og hvað mig snertir, og ég tel mig með bændum, og ekki með þeim lökustu, þá er ég þannig gerður, að ég kynni bezt við að búa hér í Reykjavík í sem svipuðustu umhverfi og ég á við að búa heima. Ég geri ekki meiri kröfur. Ég hef enga ánægju af því að búa í lúksushótelum, hvort sem þar er um að ræða gyllta sali eða annað, þó að hv. 2. þm. Rang. þyki ekki annað hæfa fyrir sig og sína kjósendur.