28.02.1946
Neðri deild: 77. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það var ræða hv. 2. þm. Rang., sem knúði mig til þess að halda hér áfram og segja nokkur orð. Ég get sagt það þegar, að ræða hans hneig í þá átt að sanna, að hann hefði ekki skrökvað nema um helming, þegar hann ræddi um gistihúsbygginguna. Röksemdir hans á móti því, að Búnaðarfélag Íslands ætti að reisa gistihús, voru þær, að byggingin hlyti að verða 3–4 sinnum dýrari nú en ef byggt hefði verið fyrir nokkrum árum. Þegar öllu er á botninn hvolft, verða rök hans léttvæg fundin. Þegar hv. þm. hefur tekizt að finna upp einhverja rakavitleysu, þá leggur hann út af því, og er ekki nema eðlilegt, að útkoman verði þá harla rýr.

Við skulum taka hér til samanburðar annað dæmi. Hugsum okkur, að til væri félag í Rangárvallasýslu, þar sem hv. 2. þm. Rang. væri ekki meðlimur. Nú væri það gert heyrinkunnugt, að félag þetta ætlaði sér að reisa hús fyrir 25 þús. kr. Þá kemur hv. þm. til skjalanna og segir það vitleysu eina að reisa hús fyrir 25 þús., heldur skuli byggja hús fyrir 100 þús. kr. Það er gert, en síðan ræðst þessi sami maður á félagið fyrir að reisa hús fyrir 100 þús. kr. Svona röksemdafærsla er naumast svaraverð og alls ekki sæmandi fyrir hv. 2. þm. Rang. Það stendur óhaggað, að Nýi stúdentagarðurinn var reistur á árunum 1942 og '43 og kostaði 1.5 millj. Þar hafast við um 100 manns. Búnaðarfélagið hefur áætlað, að reisa þyrfti hús með herbergjum fyrir 50 manns, og yrði því kostnaðurinn mun minni, en raunar er þess að gæta, að verðlag er nú hærra en 1942. En hér er líka það að athuga, að engin ákvörðun hefur verið tekin um það, hvenær þetta gistihús verður reist. Því ráða aðstæður og verðlag. Hér er aðeins um undirbúning að ræða. Svo að allt þetta fimbulfamb hv. 2. þm. Rang. er ómerkilegur rógur um gott málefni. — Hann mótmælti því að bændur legðu nokkurn eyri í gistihúsbyggingu handa sjálfum sér. Nú liggur hér fyrir hæstv. Alþ. áætlun um að reisa 75 millj. króna gistihús. Ráðgert er, að ríkissjóður leggi fram mikinn hluta fjárins ásamt félagasamtökum. Þess vegna munum við bændur leggja þar fram fé eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Einnig eru konur landsins að safna fé til Hallveigarstaða. Er ætlað, að þar rísi upp dvalarheimili kvenna, þar sem konur geti leitað athvarfs. Allir vita, að fram var lagt úr hinum ýmsu héruðum allmikið fé til byggingar Nýja stúdentagarðsins. Það er síður en svo, að ég sé að telja fé þetta eftir fyrir æskulýðinn. En því skýtur bara nokkuð skökku við, er þessir sömu menn mega ekki hugsa til þess, að bændur leggi fram nokkurn eyri til húsbygginga fyrir sjálfa sig. Þeir mega ausa út fé fyrir aðra, en alls ekki skapa sér betri þægindi né aðstæður. Og þetta gengur jafnvel svo langt, að þessir menn vilja taka ákvörðunarrétt bænda yfir fé því, sem búnaðarþingi hefur verið falið að ráðstafa. Ef búnaðarþing væri einhver einlit stofnun, þá gæti þetta verið réttlætanlegt. En til búnaðarþings er kosið eftir hlutfallskosningu um land allt. Ég hef aldrei heyrt bornar brigður á það, að þar ríkti hið fyllsta lýðræði og að þar kæmi fram vilji bændastéttarinnar. Og ef einhverjum dettur nú í hug, að fulltrúar búnaðarþings nú sýni ekki hinn rétta vilja bændastéttarinnar, þá má minnast þess, að kosningar fara fram til búnaðarþings í vor. Þess vegna sýnist mér og fleirum ekki hundrað í hættunni, þótt afgreiðslu málsins væri seinkað, þar til umsögn búnaðarþingsins, sem háð verður að afstöðnum kosningum, kemur fram.

Þá er næst að athuga, hvort kosning fulltrúa búnaðarsambanda sé í meira samræmi við lýðræðið. Ekki eru þar viðhafðar hlutfallskosningar. Þar fær meiri hl. í hverjum hreppi alla fulltrúana kosna. Ekki er þetta trygging fyrir því, að fram komi hinn rétt vilji bænda.

Þá kem ég að einu sérlega geðfelldu atriði, en það er um skiptingu búnaðarmálasjóðs. Það er ætlazt til þess samkv. fyrirhugaðri breytingu, að réttur búnaðarþings til ráðstöfunar á fé sjóðsins verði tekinn af því, en úthlutun sjóðsins verði framkvæmd af Búnaðarbankanum. Ég veit ekki nokkur dæmi þess, að hv. Alþ. hafi nokkurn tíma tekið almannasjóð, sem í þessu tilfelli er eign bænda, og fengið öðrum vald í hendur til þess að skipta fénu en sjóðseigendunum. Hvað mundu menn t. d. segja, ef Búnaðarbankanum væri fengið vald til þess að skipta upp ríkissjóði, sem er sameign landsmanna? Ég hygg, að þá kæmi snúður á margan, sem og eðlilegt er. Það er því ekki að undra, þótt bændur telji sig grátt leikna og hljóta ómaklega þjónustu af fulltrúum sínum.

Þá kem ég að rúsínunni, sem er í þessu öllu saman. Hvert samband á að fá endurgreitt nákvæmlega það sama, sem það hefur greitt í sjóðinn. Fyrst á að innheimta í sjóðinn, en síðan að borga það sama út. Ég verð að segja það, að ég þekki ekki neitt dæmi þess, þar sem um sameiginlegan sjóð er að ræða, að honum skuli ekki vera skipt eftir þörfum aðilanna, eftir að sameiginlegur kostnaður hefur verið greiddur. Í þess stað eiga þeir aðilar, — samkv. ræðu hv. 2. þm. Rang., — sem hafa bezta aðstöðu, beztu vegina, beztu markaðsmöguleikana o. s. frv., að hljóta mest úr sjóðnum. Þeir segja svo við hina, sem standa verr að vígi: Við viljum ekkert af ykkur vita. Þið getið farið ykkar leið. Við hirðum hvern eyri, sem okkur ber. — Þetta er nú hægt að kalla félagsþroska á háu stigi. Þetta er sú rammasta sérhagsmunastreita, sem hægt er að hugsa sér. Þegar þessir menn hafa komið ár sinni vel fyrir borð, geta þeir ekki unnt stéttarbræðrum sínum í öðrum landsfjórðungum stuðnings, svo að þeir geti bætt aðstöðu sína.

Ég skal gjarnan taka það fram, að ég mæli ekki svo vegna þess, að mitt kjördæmi muni bíða tjón við þessa fyrirhuguðu breytingu. Þvert á móti, en ef farið verður eftir eldri skiptingunni, þá hygg ég, að kjördæmi mitt muni heldur verða veitandi en þiggjandi. Og það gleður mig að geta rétt þeim hjálparhönd, sem eru verr á vegi staddir en við.

Þá kem ég næst að því, hvernig fer um þessa skiptingu til sambandanna, þannig að hvert samband fái nákvæmlega það, sem því ber. Innan sambandanna eru misstórar heildir, sem leggja misjafnlega mikið í sjóðinn. Það er því engin sanngirni í því, að stærsta búnaðarfélagið fái jafnt og það minnsta. Eðlilegast væri að borga hverjum það, sem hann hefur í sjóðinn lagt, en þá er bara búið að fara í hring.

Hv. þm. klykkir út með því, að þetta sé ósk bændanna. En hann þorir ekki að bíða með þetta þar til nýtt búnaðarþing kemur saman og stjórn er kosin, hann þorir ekki að leggja það undir bændurna. Hann getur ekki sannað betur, að hann trúir ekki því, sem hann hefur sagt.