28.02.1946
Neðri deild: 77. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hafði ekki ætlað að blanda mér í umræður um þetta mál. En ég tek nú til máls vegna þess, hvernig þetta mál hefur verið rætt, hvernig það hefur verið túlkað og hvernig ráðizt hefur verið á bændur á Suðurlandsundirlendinu.

Það verður aldrei hægt að komast hjá því að viðurkenna, að það er óviðkunnanlegt, að bændastéttin skuli háð eftirliti um meðferð sinna eigin fjármuna. Það skiptir ekki máli, hver eftirlitsmaðurinn er, aðalatriðið er, að það lítur svo út, að þessari stétt sé ekki trúandi. Ég vil segja, að slík aðferð sé óviðkunnanleg, ómakleg og jafnvel óviðurkvæmileg. Með þessu er ég ekki að kasta nokkurri rýrð á núv. hæstv. landbrh. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann blandi sér hér í,. en það eru fleiri en hann, sem eiga eftir að fara með þessi mál. En þetta ákvæði er óþarft og niðrandi fyrir bændastéttina, og þess vegna á ekki að hafa það. Hv. þm. A.-Húnv. lét þess getið áðan, að hann hefði ekki flutt þessa till., ef frv. hefði ekki komið fram, og kvað það vera grímuklætt vantraust á hæstv. ráðh. En ég get ekki séð, að frv. beri neitt slíkt með sér, og þótt erfitt sé að segja um hugarfar manna eða rannsaka hjörtun og nýrun, þá er ég sannfærður um, að enginn hefur haft slíkt í huga. Þess vegna er fjarri lagi að flytja þessa brtt. af þeirri ástæðu. Ég hefði kosið miklu fremur, að þeir, sem vilja styðja þessa till., hefðu lagt sig fram um að koma frv. fyrir kattarnef. Sú aðferð að gera bændastéttina ómynduga til að ráða fé sínu er hin versta, sem hugsazt gat. Nú er það svo, að engin hætta er á, að þetta fé yrði ekki notað til gagnlegra hluta, þótt bændur hefðu þess full umráð.

Það leiðir af eðli málsins, að verði búnaðarsamböndunum veitt fé í hlutfalli við gjöld þeirra til sjóðsins, verður sá styrkur allmisjafn, og það er leiðinlegt, að þau héruð, sem betri hafa aðstöðu og skilyrði, skuli ekki geta unnt þeim, sem lakar eru settir, að njóta nokkurra hlunninda í þessu efni. Þessum hugsunarhætti vil ég mótmæla fyrir hönd kjósenda minna í Árnessýslu. Sú yfirlýsing, sem búnaðarsamband Suðurlands lét frá sér fara illu heilli, er að minni hyggju á móti vilja alls þorra bænda. Þeir, sem hafa þetta hugarfar, muna illa þá tíma, sem erfiðastir hafa verið fyrir bændur, svo sem þegar afurðasölulöggjöfin var sett. Og mig undrar, að það skuli hafa hent hv. 2. þm. Rang. að styðja þetta mál. Þá finnst mér og furðulegt, með hverju kappi þetta mál er sótt. Hér kom fram rökstudd dagskrá frá hv. 10. landsk. þm., þess efnis að vísa málinu til næsta búnaðarþings. Þetta var eðlileg leið, og mér virðist, að þeir, sem taka hefðu viljað fullt tillit til bænda, hefðu átt að fallast á þessa afgreiðslu, en það virðist svo, að þeim sýnist bændum sýndur of mikill virðingarvottur með því.

Úr því sem komið er, get ég sætt mig við, að þetta mál nái ekki fram að ganga í nokkurri mynd, en ef menn hefðu viljað taka tillit til bændastéttarinnar, þá var einsýnt, að bíða átti eftir áliti hennar. En nú þótt hin rökstudda dagskrá hv. 10. landsk. hafi verið felld, er sú leið til að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. og fela henni að leita álits bænda um málið.