03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Dal., sem er frsm. fyrir 2. minni hl. landbn., sem stendur fyrir nál. á þskj. 645, hefur gert fullkomna grein fyrir skoðunum okkar á málinu. Því er e. t. v. „faktiskt“ talað óþarft fyrir mig að kveðja mér hljóðs. Mér þykir þó rétt að geta örfárra atriða varðandi þetta frv.

Ég ætla þá fyrst að benda á það, að leitað hafði verið, er l. um búnaðarmálasjóð voru fyrst sett, álits bændanna sjálfra, bæði óbeinlínis að sumu leyti og líka beinlínis, þ. e. leitað til ýmissa einstakra bænda, og varð að mestu leyti samkomulag hjá bændum, að l. yrðu sett samt, eins og frv. lá fyrir, enda var það gert.

Það frv., er hér liggur fyrir, er allt öðruvísi en I. voru í upphafi og eru nú. Ég þarf ekki að útskýra þetta mjög. Eftir núgildandi l. ráðstafa fulltrúar bænda fénu, en eftir frv. hér er það Alþ., sem því ráðstafar. Þar eð vitað er, að bændur óskuðu eftir eða felldu sig við, að l. um sjóðinn yrðu sett í öndverðu, en hins vegar, að nú hafa margir bændur eða samtök þeirra mótmælt l., eins og á að setja þau eftir frv. hér, þá finnst mér, að mátt hefði bíða til næsta Alþ. að setja þessi lög.

Í sumar verða tvennar kosningar, nefnilega til Alþingis og líka búnaðarþings. Ætti þá að vera hægt um vik fyrir bændur að velja menn á búnaðarþ. með hliðsjón af þessu deilumáli. Sú nýja ráðstöfun, er í frv. felst, getur fyrst haft áhrif 1947, því að búið er að ráðstafa fénu fyrir þetta ár. Mér fyndist því liðlegra, enda meiri nærgætni, ef breyta á l. á annað borð, og vegna risinna deilna hér á þingi, að láta setningu l. bíða, þar til að hvorum tveggja kosningum liðnum. Ég fyrir mitt leyti get látið þess getið, að mér hefði fundizt réttara, ef 1. ætti að breyta í þá átt, er frv. gerir ráð fyrir, að þá yrðu sett almenn heimildarlög fyrir sambandssvæðin með reglum til að innheimta gjöld af hverju svæði. Þótt varla sé um deilt, að eðlilegt sé, að aðrar skoðanir komi fram í málinu, m. a. þessi, þá þykir mér eðlilegt, að samtök bænda gætu sýnt vilja sinn og látið í ljós álit sitt, áður en l. sé breytt.

Veður hefur verið gert út af þeirri ákvörðun síðasta búnaðarþings að leggja fram fé til hótelbyggingar handa bændum. En ég verð að segja það, að mér þykir till. búnaðarþings hafa verið affluttar mjög í umr. manna. Ég fæ eigi séð, að till. hafi á neinn hátt gefið tilefni til að fella þann úrskurð, að búnaðarþing bænda sjálfra sé þess ekki fullfært að hafa með höndum framvegis ráðstöfun á fé búnaðarmálasjóðs. Á fyrra þ. komst inn í frv. ákvæði þess efnis, að landbrh. þyrfti að leggja samþykki sitt á ráðstafanir búnaðarþings að því er úthlutunina úr sjóðnum snertir. Mörgum hefur þótt þetta óviðfelldið ákvæði, og hafa verið uppi háværar raddir um að mótmæla þessu athæfi. Mér þykir vorkunnarmál, að bændur vildu losna við ákvæðið. Ég sé ekki betur en frv. þetta sé að nokkru leyti eins konar hefndarráðstöfun vegna aðfinnslna, er fram hafa komið um þetta atriði laganna. Ég tel víst, að hæstv. núv. fjmrh. mundi ekki misbeita þessu valdi. En mér þykir þó ákvæðinu hafa verið þannig háttað, að eðlilegt megi teljast, að bændur vildu losna við það. Þessar umkvartanir hafa þó eigi verið svo harðar, að það réttlæti setningu l. Það virðist beinlínis viðurkennt í nál. að þetta sé hefndarráðstöfun.

Að minni hyggju gerir dagskrártillagan á þskj. 645 ljósa grein fyrir málinu og bendir á. sjálfsagða leið. Ég mun því greiða henni atkv. og óska þess, að hv. þdm. geti fallizt á hana. Ég held, að þannig verði betur séð fyrir málinu vegna þeirrar andúðar, er gætir í garð þess hjá mörgum hv. þm.