12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er fátt, sem ég þarf að segja, og mun ég ekki tefja mikið, því að hv. þm. Barð. og hv. þm. Dal. hafa svarað hv. þm. S.-Þ. svo rækilega, að það er að bera í bakkafullan læk að bæta hér miklu við. Þó eru hér örfá atriði, sem ég þarf að minnast á, þar sem hv. þm. S.-Þ. fer með sögulegar skekkjur, sem ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta, þótt þessi lestur hans sé nú orðinn margupptugginn bæði í „Ófeigi“ og er 4. eða 5. lestur hans hér í þessari hv. d., eins og hv. þm. Barð. komst að orði.

Þá er það fyrst um eftirgjöfina á kjötverði. Búnaðarfélag Íslands samþykkti eftirgjöfina, 9,4%, vegna ógangna í dýrtíðarmálunum, en vildi ekki skipta sér af, hverjir voru í ríkisstj., og hann talaði um það, að búnaðarþingsfulltrúarnir hefðu verið án umboðs. Þetta er rangt. Búnaðarþingsfulltrúarnir komu með umboð, t. d. Helgi í Leirhöfn, fulltrúinn úr Eyjafirði og fleiri. Þetta er því rugl í höfði þessa hv. þm. og er því aðeins til þess að halda uppi áróðri gegn Búnaðarfélagi Íslands. Þá má minna á, að samkomulagið, sem gert var af ríkisstj., hefur verið svikið með því, að dýrtíðin hefur verið látin hækka og það hefur farið fram, sem oft hefur verið lýst. En þá virðist einkennileg ályktun hv. þm., að snúast gegn flokknum og búnaðarþingi, sem gerði þessar ráðstafanir af þjóðarnauðsyn, til þess að koma í veg fyrir, að dýrtíðin yxi atvinnulífinu yfir höfuð, — þ. e. Framsfl. Þeir, sem hafa svikið þessar samþykktir, sem gerðar voru á búnaðarþingi, það eru fyrst og fremst jafnaðarmenn, sósíalistar og sjálfstæðismenn, sem að ríkisstj. standa, því að það blandast ekki málum, að þeir tóku við framkvæmd í þessa átt, og er ekki dregið í efa, að þær samþykktir, sem búnaðarþing gerði, og það tilboð, það var raunverulega misnotað eins og hægt var að misnota það. Ég skal ekki fara inn á þær deilur, sem stéttarsamtök bænda eiga í við hæstv. landbrh., sem reyndi að draga af bændum þær uppbætur, sem þeir eiga samkv. l. frá 1944, og endirinn verður sá, að þeir verða að fara í mál við stj. til þess að bændur nái rétti sínum. En það mun alls ekki um það deilt, að þeir, sem hafa brigðað því samkomulagi, sem gert var við búnaðarþing, það eru einmitt þessir flokkar, en þá virðist það því einkennilegra, að þessi hv. þm. snýst fyrst og fremst með þessum flokkum í öllum þeirra ofsóknum á hendur bændum í þessu máli viðkomandi búnaðarmálasjóði, búnaðarráði og mörgum fleirum, en gegn Framsfl., sem viðurkennt er, að hafi í engu brugðizt í þessu máli. Þetta ætla ég ekki að minnast á nánar nú, en þetta eitt út af fyrir sig er áreiðanlega merkilegt umtalsefni, sem síðar verður rætt. En þetta efni allt, sem hv. þm. flutti hér, kemur sáralítið þessu atriði við, og tel ég ekki rétt að misbjóða hv. þd. og hæstv. forseta með því að rekja nema í örstuttu máli þessi atriði, sem hv. þm. dró hér inn í umr.Hv. þm. sagði, að á fundunum austanfjalls hefðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gefið í skyn, að það mundi verða mynduð stj. framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Þetta er, eins og um starfsemi búnaðarþings, óeðlilegur heilaspuni hv. þm., því að það var tekið fram á öllum fundunum, að þetta væri laust við alla stjórnarmyndun, og ég man það sérstaklega um fundinn á Selfossi, að þegar ég var spurður um þetta, þá sagði ég, að þetta kæmi stjórnarmyndun ekkert við. Þegar búnaðarþingsfulltrúarnir spurðu, hvort stjórnarmyndun stæði þarna á bak við, þá var þeim sagt, að þetta stæði ekki í sambandi við neina ákveðna stjórnarmyndun, svo að þetta er skáldskapur, sem svo oft hefur verið endurtekinn, að hv. þm. virðist sjálfur vera farinn að trúa því. Enn kemur fimmta eða sjötta brenglunin á staðreyndum. Hv. þm. segir, að hv. þm. V.-Sk. hafi lýst því yfir við keppinaut sinn þar austurfrá, að hann mundi ekki bjóða sig fram á móti honum við næstu kosningar, — svo mikil hafi blíðskaparmælin verið milli þeirra út af þessu samkomulagi, og átti það að vera í framhaldi af eftirgjöf Búnaðarfélagsins. Þetta er sami heilaspuninn, því að þessi yfirlýsing var gefin í sambandi við það, að umræddur þm. skrifaði bréf um kollsteypu Sjálfstfl. varðandi stjórnarmyndun og lýsti því með átakanlegum orðum, og þegar hv. þm. V.-Sk. sá bréfið, lýsti hann því yfir, að ef bréfritarinn stæði við það, sem hann hafði skrifað í bréfinu, og breytti pólitískt í samræmi við það, þá mundi hann ekki bjóða sig fram á móti honum. Í sambandi við þetta er talið, að þessi yfirlýsing hafi verið gefin, án þess það sé vitað með nokkurri vissu, hvort þessi orð hafa verið töluð. Nú veit maður ekkert um það, hvernig bréfritarinn, þm., sem þarna á hlut að máli, muni standa við það, sem hann hefur um Sjálfstfl. ritað í þessu bréfi, — ég geri ráð fyrir, að það verði bráðum birt, eg þess vegna er ekkert sýnt um það, hvernig þetta muni enda, viðskiptin milli þessara tveggja þm.

Ég nenni ekki að fara nánar inn á svo kallað sex manna nefndar verð og það, sem ég hef um það sagt og núv. forsrh. Því hefur verið haldið fram 10–20 sinnum, að bændur hafi átt kröfu á ákveðnu verði samkv. sex manna nefndar verðinu, kröfu á ríkissjóð. Þetta er hin mesta firra, og mig undrar, að menn, sem sitja hér á Alþ. og meta þingmannsæru sína nokkurs og lesa l. frá þinginu, skuli halda öðru eins og þessu fram, að bændur hefðu átt að byggja kröfu sina á ríkissjóð samkv. þessum 1, Það ber að segja hið sanna, að það, sem þeir áttu kröfu til, eins og ég geri ráð fyrir, að hver þm. viti, það var það, að þeir áttu kröfu til þess að ná sex manna nefndar verði með því að setja svo hátt verð á vörur á innlendum markaði, að þeir gætu fengið fram yfir sex manna nefndar verð og notað það til þess að bæta upp vöruna, sem seld var til útlanda. og það var talið, að það þyrfti að setja 18 kr. á kjötkg. 1944 til þess að ná sex manna nefndar verðinu. Það boðaði kjötverðlagsnefnd. Þess vegna var það, þegar sett var haustverð, þá kom stj. og sagði: Þið setjið ekki verðið nema í samráði við okkur, — og þá varð samkomulag um, að innlenda verðið skyldi vera lægra, gegn því, að ríkisstj. tæki ábyrgð á verði þess útflutta. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir það, að dýrtíðaraldan risi svo hátt, að framleiðslan stöðvaðist. Þetta gerði Jón Árnason 1943. Kjötverðlagsn. fór ekki til ríkisstj. og sagði: Við viljum setja okkar ákveðna verð á innlendum markaði. — Ef það hefði verið í l., að bændur hefðu átt kröfu á sex manna nefndar verði, þá hefði verðlagsn. 1944 og Jón Árnason svikið hlutverk sitt. En vitanlega var þetta ekki gert, vegna þess að það var aldrei neinn stafur í l. um þetta annað en það, sem ég hef greint, að bændur höfðu rétt til að setja innlenda verðið svo hátt, að þeir hefðu von um að fá sex manna nefndar verðið. Það, sem við sögðum um þetta, ég og hæstv. forsrh., var þess vegna lögfræðileg staðreynd, og mig undrar, að það skuli vera gerð tilraun til þess að halda þessu fram hvað eftir annað.

Þá fara að styttast þessi atriði, sem ég þarf að leiðrétta. Hv. þm. sagði, að ég hefði á miðstjórnarfundi hjá Framsfl. sagt, að samvinnufélögin og Búnaðarfélagið væru sköpuð af Framsfl., og gefið það í skyn, að efling þessara stofnana væri efling Framsfl. Það hefur komið fyrir, að þessi hv. þm. hafi ekki farið nákvæmlega með sögulega atburði og staðreyndir, það hefur komið fyrir hann eins og aðra, að staðreyndir hafi lítils háttar skolazt til í meðförunum, þó að ekki væri þriðji aðilinn til þess að bera á milli. En þessi orð eru, alveg eins og það, sem hv. þm. sagði um þm. V.-Sk., Búnaðarfélagið o. fl., gripin úr lausu lofti. Ég hef aldrei talað þau; alveg þvert á móti er þetta öfugt við staðreyndir. Ég minntist á þessi félög, samvinnufélögin og Búnaðarfélagið, og tók það fram, að vitanlega ættu bæði þau félög að vera ópólitísk, en það, sem Framsfl. fyrst og fremst gerði, ekki sízt fyrir íslenzka bændur, væri að efla ópólitísk félagssamtök þeirra, og minntist á, hvað það væri ánægjulegt, hversu vel hefði tekizt að halda samvinnufélögunum og Búnaðarfélagi Íslands ópólitískum hin síðari ár. Svo að þetta er alveg öfugt við það, sem hér er borið fram. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta og efast ekkert um það, að þegar hv. þm. S.-Þ. heyrir þessa leiðréttingu, þá muni hann ekki endurtaka þetta.

Svo kem ég að öðru atriði, sem kom málinu enn minna við, og ætla ég að segja um það aðeins fáein orð. En áður en ég kem að því, vildi ég aðeins segja það, þar sem hv. þm. minntist á snerru okkar hæstv. menntmrh., að ég held satt að segja, að þessari snerru, sem átti sér stað milli mín og hæstv. ráðh., sé gert allt of hátt undir höfði og okkur báðum sögupersónunum með því að minnast svo oft á þetta sem hv. þm. gerði, — þetta, sem gerðist hér í hliðarherbergjum þingsins. Hv. þm. vitnaði í Alþingi hið forna í þessu sambandi, en ég held, að það þurfi ekki að fara svo langt, ég held að það þurfi ekki að fara nema aftur til þingsins í þessum sölum til þess að sjá, hvað þessi snerra okkar hæstv. menntmrh. er lítilfjörleg og eiginlega okkur til minnkunar, og ætla ég, að flestir séu svo sögufróðir í sögu þingsins, að þeir viti það, — svo maður tali nú ekki um viðureignina áður en þingið fluttist til Reykjavíkur, þetta var þá allt myndarlegra, enda við því að búast, þar sem þetta voru miklu merkari menn en við — eða ég. En nú sýnist þetta allt standa til bóta, því að á milli stjórnarflokkanna er það þannig, að í staðinn fyrir að vera að þessu krukki í hliðarherbergjum, þá slást menn nú, eins og t. d. vestur á Ísafirði, og ég sé, að blöðin eru farin að tala um það, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Morgunblaðið, að eiginlega sé sár vanlíðan í stjórnarliðinu, vegna þess að þeir geti ekki hver um sig gert hinn höfðinu styttri, svo að þessi snerra okkar er eiginlega orðin sér til minnkunar, enda heyri ég sagt, að hæstv. menntmrh. hafi síðar farið þeim orðum um hana, — hann hefur eiginlega sagt um hana svo skemmtilegan hlut — að ég virði hann miklu meira fyrir.

Að því er snertir það flokkslega í þessu máli, þá vil ég segja þetta: Hv. þm. minntist á það, að við, hæstv. núv. forsrh. og ég, hefðum skrifað greinar, sem væru alveg eins, um 9,4%. Ég skal ekkert um það segja, en ég er að hugsa um að taka upp alveg sama siðinn eins og hæstv. forsrh. viðhafði í Nd., þegar uppreisnin átti sér stað gegn ráðh. Þá svaraði hann eitthvað á þá leið, að hann svaraði þm. ekki neinu, en sagði, að hann skyldi bara koma á flokksfund, þar væri vettvangur til þess að ræða málin, og þar með var þeirri ofanígjöf lokið. Ég vil taka mér ráðh. til fyrirmyndar og segja við hv. þm. S.-Þ.: Komdu á flokksfund og ræddu málið þar, þar er sá rétti vettvangur. Það er ekki hér, sem á að ræða um þessi mál, þó að hæstv. forseti hafi verið svo góðviljaður að leyfa það.