12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Ég vil reyna að leiðbeina þeim hv. þm., sem búa við Breiðafjörð, um það, hvernig þetta réttlætismál bændanna getur gengið á þann bezta hátt, sem ég hef líka sýnt þeim fram á. Það, sem hér liggur fyrir, eins og allir vita, er það, að það er lagður skattur á bændur, t. d. í Dalasýslu, sem nú sem stendur er dreginn saman í Reykjavík hjá Búnaðarfélaginu og á að vera til þess að liðsinna bændum um ræktun og allt mögulegt. Ef hann er notaður á þennan hátt, eins og til er ætlazt, mundu verða veittar úr þessum sjóði töluverðar summur, t. d. í kjördæmi hv. þm. Barð. eins og í Dalasýslu og annars staðar. Þess vegna get ég ekki skilið það, að þeir finni ekki, að þarna er tilgangurinn að senda þetta beint frá miðstjórn í Reykjavík. Hitt er auðvelt fyrir kjósendur hv. Þm. Barð. að segja, að þetta eigi allt að fara í ræktun, og þess vegna er ekkert, sem bannar okkur að nota þetta beint. Ég veit, að þessir tveir þm. bera þessi kjördæmi fyrir brjósti, og þá hljóta þeir að vera ánægðir yfir því að vita, að bændur fá þessa peninga til þess að auka við þær framkvæmdir í ræktunarmálum, sem þeir hafa þegar gert. Eitt af því, sem gert er með þessu frv., er að veita þeim störfum, sem nú eru gerð, frá Reykjavík til búnaðarsambandanna, og ég trúi ekki öðru en hv. þm. hallist að þeirri skoðun, að það sé ekkert á móti því að skapa nokkuð meiri heimastjórn í þessum efnum en verið hefur. Þetta er lítil byrjun, en getur orðið miklu meira, ef það fer svo sem ég hef varað við, að Búnaðarfélagið komist inn í fína stofu í stjórnarráðinu, og Búnaðarfélagið hefur eiginlega siglt hraðbyri inn í stjórnarráðið, en þetta er óeðlilegt, þar sem Búnaðarfélagið er ekki stofnað sem flokkslegt atriði.

Af því að hv. þm. Dal. er svo mikill ræktunarmaður, þá vil ég benda honum á, án þess að ég ætli að fara að kenna honum búskap, að ef hann fengi þessa peninga, þá held ég, að það væri gott að nota þá til þess að kenna ungum bændum að fara með vélar. Það er ekki nema gott um það að segja, að menn í sveitum fái bíla, einkum ef hægt er að nota þá til jarðræktarframkvæmda, en það er líka nauðsynlegt að kenna mönnum að fara með þessi tæki, og ég sé ekki, hvar sýslusjóður á að hafa peninga til þess. Þess vegna held ég, að það væri gott að nota þessa peninga á þennan hátt.

Þá sagði hv. þm. Barð. — og nefndi tvo sjóði, — að það væri óviðeigandi að fara að skipta þessum sjóði upp. Mér er sérstaklega kunnugt um fiskimálasjóð og að stjórn hans hefur fengizt við fiskimál alveg ópólitískt, og þess vegna hafa stjórnirnar fengið að njóta sinna góðu daga í vinsemd.

Hv. þm. Str. hefur nú ekki notað sinn náttúrlega vaskleika eins og hann er vanur, en mér finnst það heldur yfirlætislaust af honum að gera ráð fyrir því, að kynslóðin yrði svo hægfara sem hann vék að. Það er ómögulegt að neita því, að það var velgerð við hæstv. forsrh., að losa hann við að draga þessar 8 millj. út úr hinum frægu rottuholum. Ég veit, að bændur eru hjálpfúsir, en þessu trúir enginn, að þeir gefi eftir 8 millj. kr. af sínum réttmæta hlut og án nokkurra skilyrða. Fimm menn úr Sjálfstfl., þar á meðal tveir, sem eru bundnir margra ára vináttu við Sjálfstfl., sögðu líka: Við erum ekki með. — Ég þekki þm. Borgf., og það er ekkert fjær honum en brigðmælgi, og því mundi hann styðja þá stjórn, sem sjálfstæðismenn eru í, ef eitthvað hefði ekki komið fyrir. En hvað hafði komið fyrir? Því hafði verið lofað, að mynduð yrði stjórn, sem kommúnistar yrðu ekki í, stjórn ábyrgra flokka. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Str. að segja annað. Hann fer hörðum orðum um hæstv. forsrh., en það var þá skrýtið, að þeir skyldu renna saman í sláturtíðinni, um það leyti, þegar ég boðaði fund á Selfossi. Þá var haldið herráð í þinginu, og mér er sagt, að beztu menn flokkanna sluppu, einungis fyrir vaskleika sinn, frá því að fara með. Hvað áttu þessi fleðulæti að þýða? Ég boða fund, og þeir senda þangað herráð, eins og þegar Hitler var sem voldugastur, og mér er sagt, að það hafi verið brennivín með í bílnum. Og þegar maður lítur á þetta samkomulag Framsfl. og Sjálfstfl., þá er eins og þeir hafi gengið á gylltri brú, því að ærumeiðslin hafa gengið bæði á undan og eftir. En hv. þm. Str. hlýtur að gera grein fyrir sínum hlut í þessu. Þetta eru hlutir, sem allir vita. Hvaða erindi áttu hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. S.-M. austur á þennan eina fund? Þá voru þeir góðir vinir. Þá fóru þeir heim eins og nýtrúlofað par, — en trúlofun getur bilað. Og það var þetta, sem gerðist. Núverandi kvislingur, hv. þm. A.-Húnv., var trúlofaður 2. þm. S.-M. Hvað gátu þeir viljað? Bændur gátu ekki annað séð en þeir mundu mynda stjórn og urðu „skúffaðir“ eftir allt þetta dufl og daður, sem svo varð ekkert úr, allt svik og prettir. Ég vil ekki móðga þessar persónur með því að segja, að þeir hafi ekki meint eitthvað með þessu.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta, því að hitt vita allir, að haldnir voru stöðugir fundir í Búnaðarfélaginu heima hjá Páli Zóphóníassyni. Og þessir menn sýndu fram á nauðsyn þess og hvað það væri mikils virði fyrir föðurlandið að gefa eftir þessar 8 millj. kr. En þeir höfðu enga heimild til að gera þetta. Ég hefði aldrei ráðlagt bændum að gera þetta, heldur að láta aldrei undan fyrr en það væri gert, sem þeir vildu.

Hv. þm. Str. sagði, að 3 flokkarnir hefðu svikið bændur. Þetta er sama tækniorð og hann hafði um mig í Tímanum. En ég sé ekki, að það sé nokkur brú í þessum ásökunum. Það er ómögulegt annað en að fríkenna menntmrh. af þessu og hans flokk. Það er aðeins hægt að ásaka þann hluta Sjálfstfl., sem fór í stjórnina. Það er ekki hægt að áfellast fimmmenningana; þeir hafa sýnt, að þeim var alvara. Þá sagði hv. þm. Str., hvaða örlög mundu bíða mín, — það voru grimm örlög. Enn fremur sagði sami hv. þm. um sex manna nefndarálitið, að það væri tóm vitleysa. Ég vil biðja hv. þm. um að líta í Tímann og Morgunblaðið og sjá þar hinn yfirstreymandi fögnuð yfir því, hvaða dásemdar úrlausn þetta sex manna nefndarálit væri. Mér finnst, að þessum mönnum hafi yfirsézt. Þeir áttu að láta blöð sín segja allt annað. Sex manna nefndarálitið og réttur bænda komu upp eins og selshausinn á Fróðá. En ég vil beina því til hans sem eftirmanns míns í flokknum, að þegar Ólafur Thors yrði forsrh. og hann sjálfur í opposition, — hvaða vit var þá í því að gefa honum syndakvittun? Nú er flokkurinn í andstöðu og deilir á forsrh. Hvaða vit var þá í því að skrifa undir þetta? Hvað hefði verið betra en hafa 8 milljónirnar og sex manna nefndarálitið sem vopn, til þess að leggja með þann jötun, sem þarna situr, og segja: „Hann hefur svikið bændur“?

Forsrh., sem brosir hér til allra í dag, getur litið með velþóknun á þetta, er hann lét hv. þm. Str. leggja niður 8 milljónirnar og sex manna nefndarálitið. Ég vona, að þegar hv. þm. Str. kemur heim eftir þessar umr. og sofnar, þá segi hann við sjálfan sig: Ég skal aldrei framar láta leika á mig! — Þetta segi ég sem eldri maður, því að það mun aldrei hafa komið fyrir í allri sögu landsins, að svona hafi verið leikið á nokkurn flokksforingja í stjórnmáladeilum eins og ég gruna hæstv. forsrh. að hafa gert í þetta sinn. Það hafa verið klókindi hans að deila ekki við hv. þm. Str., þegar hann skammaði hann sem mest.

Hv. þm. Str. sagði, að sex manna nefndarálitið fæli ekki í sér neina skyldu fyrir ríkið. Það væri Alþ., sem ákvæði um þetta, og hlutur bænda væri jafngildur og annarra. Þetta er alveg rangt hjá hv. þm. Str. Sama þing og ákvað þessi l. átti þá á einhvern annan hátt að bæta þetta upp. Svona litu bændur á, og svona leit Mogginn á. Hann sagði, að þarna væri öryggi. Það var misgáningur hjá þm., er hann minntist á samvinnufélögin og búnaðarfélögin. Hann sagði það mína skoðun að láta samvinnufélögin sitja í fyrirrúmi fyrir flokknum. En kjarninn var sá, að Framsfl. hafði haft forustuna í Búnaðarfélagi Íslands og skapað það. Hann segir og, að Framsfl. hafi skapað bændasamtökin. En hann segir: Svo eru menn, sem eru á móti þessu sunnanlands. — Hann vill láta beita slíka menn hörku. Núverandi stjórnarflokkar líta einmitt á Búnaðarfélag Íslands sem vitni á móti okkur, og eins og ég benti á í dag, treystir stj. sér betur en Búnaðarfélagi Íslands, og svo er stéttarsambandið alveg undir Búnaðarfélaginu, svo að ekki treysta þeir því heldur. Það, sem að er, er það, að fyrir alþjóð manna er Búnaðarfélag Íslands alltaf lamið, því að það er neðar í brekkunni. Þeir bíða alltaf ósigur. Þess vegna eiga þeir ekki að vera að fara í stríð og ganga mót fallbyssueldinum. Mig furðar á því af greindum mönnum, að þeir skyldu ekki sjá það, að eftir 1923 var búið að kúga þá í því, að þeir réðu vali framkvæmdastjóra. Það er sorglegt, að menn, sem hafa gáfur, hafa samt lent í því að halda Búnaðarfélaginu í pólitískri streitu. Og nú vil ég nota tækifærið, vegna þess að hér inni eru margir menn og sumir þeirra eru merkir bændur. Ég vil nota tækifærið til þess að segja, hvers vegna það var svo örlagaríkt, eftir slæmri tilvísun þm. Str., að Búnaðarfélagið eyðilagði stéttarsamband bænda. Ef ég hefði haft áhrif á það, hvernig beita ætti andófi gegn stj.. hefði ég spurt, hvar sprunga væri í liði Ólafs Thors. Ekki hjá krötunum og ekki hjá kommúnistum, heldur hjá 5-menningunum. Þm. Str. átti að koma með vantraust á kommúnista. Hvers vegna var það ekki gert? Vegna þess að hann bjóst við því, að Ólafur Thors ylti út úr og hann sjálfur þyrfti að fara yfir til kommúnista. Það, sem gerðist á öðru ári utanþingsstjórnarinnar, er tvennir 14 komu fram og fengu Pétur Ottesen og Jón Sigurðsson og mikinn hluta bæjarmanna úr Sjálfstfl., var, að þá var verið að þoka bændum saman um sín mál. Á móti þessu reis þm. Str. af alefli, og var það eitt hans mesta óhapp. Ef hann hefði þolað það, að bændur efldu samtök sín, án þess að hann dreymdi nokkuð um völd, þá hefði hann ekki þurft að koma með þetta vantraust nú. En það er enginn dugur í þessu andófi. Einu hjálpinni til framsóknarmanna, 5-menningunum, hefur þm. kastað á glæ og vildi ekki taka afstöðu með bændum. Það er langt frá því, að mig langi til þess að styðja Morgunblaðið í árásum þess á vitsmuni hv. þm. Str., en nú bara neyðist ég til að viðurkenna það, sem blaðið hefur haldið fram.

Í stéttarsambandi bænda hefur þm. fengið nokkra af 5-menningunum með sér. Ef þeir vildu rísa gegn Pétri Magnússyni vegna þess að hann hefur tekið verðlagningarvaldið úr höndum bænda, sem ekki var auðvitað hægt að þola, þar sem duglegir bændur eiga í hlut, þá var aðeins einn hlutur, sem gat komið Pétri Magnússyni í vanda, og það var stofnun alveg óháðs stéttarsambands bænda. Ekki pólitísks sambands, heldur málefnalegs. Ef sá kraftur hefði verið lagður frá Búnaðarfélagi Íslands og að fengnum þessum liðsauka, þá hefðu bændur eins getað gert verkfall og Sigurður Guðnason gerði. Ágúst í Birtingaholti hefði þá getað komið til landbrh. og sagt við hann: Viltu fá mjólk eða ekki næstu viku? — eins og Sigurður Guðnason sagði, og hugsa ég, að tvær grímur hefðu runnið á landbrh. Bændum hefðu auðvitað aldrei dottið í hug að setja verðið úr hófi fram hátt. Þm. Str. hefur nú látið forsrh. fá bæði 8 milljónirnar og sex manna nefndarálitið.

Það hefði verið lafhægt fyrir núv. ríkisstj. að fara miklu verr með bændur en hún hefur gert, því að þeir hafa handónýtt Búnaðarfélag Íslands og stéttarsamband. Það er nefnilega þannig með þm. Str., að hann kann ekki að tefla, þegar hann þarf að tefla einn.

Við hæstv. forsrh. höfum oft skammazt og sýnt hver öðrum klærnar í 20 ár. En eftir að samstarfið tókst milli þriggja flokka, reyndi ég hann aldrei að því að reyna að beita mig brögðum. Ég verð að segja það, að ég er hissa á því, hvers vegna þm. Str. hefur ekki getað unnið með forsrh. Ég áleit af minni reynslu, að aðrir gætu unnið með honum. Ég held, að þm. Str. hafi haft eitthvað óhentugan máta í skiptum sínum við Ólaf Thors. Þrátt fyrir þetta mun ég pólitískt greiða atkv. með vantrausti á móti Ólafi Thors.

Hv. þm. Str. eyddi miklum tíma í að ræða um handalögmál sín við menntmrh. og þótti þau lítilfjörleg. En ég held, að þetta sé sögulega skakkt. Mér hefur alltaf virzt það verða mönnum til ófarnaðar að gefa kinnhesta, og ég skal taka þrjú dæmi úr Íslandssögunni. Þegar Gunnar á Hlíðarenda gaf Hallgerði kinnhestinn, þá kostaði það hann lífið. Þegar Hermann Jónasson gaf Brynjólfi Bjarnasyni kinnhest, þá kostaði það hann ráðherradóm, og á Ísafirði kostaði það Hannibal Valdimarsson meiri hluta í bæjarstjórn, þegar hann gaf Sigurði Bjarnasyni kinnhestinn. Ég vona nú, að þessir frægu menn, Gunnar, Hermann og Hannibal, láti sér þetta verða til varnaðar og búi betur að Hallgerði í öðrum heimi. Um meðferðina á núv. ráðh. er mál betra, og fer hann betur frá þessu. En þm. Str. segir, að þetta hafi verið íslenzkur löðrungur, og gefur það tilefni til þess að ætla, að hann hafi verið vel úti látinn.

Ég get varla látið hjá líða í þessu sambandi að minnast á, hvað það var, sem kom Framsfl. til að hafna boði Sjálfstfl. 1942. Ég tel rétt, að þetta komi fram sögunnar vegna, að þótt Sjálfstfl. hafi margar syndir að bera, þá er hann saklaus í þessu tilfelli. Nú hafa hinir sömu menn, sem á sínum tíma höfnuðu samvinnu við Sjálfstfl., gert það að flokksmáli að fella þetta frv., og þar eð ég hef neitað að hlýðnast þessu, hefur verið skotið á mig úr byssu, sem er álíka kraftmikil og notuð var á kolluna forðum, enda fer það nú líklega svo, að ég lifi ekki síður en kollan.

Það hefur verið borið út um allt land, að ég hafi álíka og Snorri á Helgafelli haft í frammi klókleg ráð og sé nú orðinn margfaldur svikari við bændastéttina í þessu máli. Nú var það vitað af flokksbræðrum mínum, að ég stóð með Sunnlendingum og á móti Búnaðarfélaginu í þessu máli, og þeir gátu búizt við, að ég sviki ekki þá, sem ég hafði stutt. Kannske hryggir það hv. þm. Str., þegar ég segi honum, að ég hélt 300 manna fund norður í Þingeyjarsýslu, og voru þar allir á einu máli um frjáls bændasamtök, og þótt þessi hv. þm. vilji beita hér sinni handjárnapólitík án þess að geta fært rök fyrir máli sínu, þá hlýtur hann að skilja, að hann getur ekki sótt mig til sektar fyrir það að svíkja ekki kjósendur mína, og greiði ég hér atkv. samkv. því.

Nú vil ég að lyktum lýsa því yfir, að þar sem þeir menn, sem nú hyggjast beita við mig handjárnapólitík, hafa þrásinnis brotið stöðulög síns flokks, tel ég mér ekki skylt að hlýða þessum skipunum og skal því segja hv. þm. Str. það, að ég greiði atkv. með þessu frv. Í fyrsta lagi af því, að ég tel það rétt, í öðru lagi af því, að ég tel, að bændur hafi þegar orðið fyrir nægu ranglæti, og í þriðja lagi af því, að mér er kunnugt um, að bændur í Þingeyjarsýslu vilja frjáls stéttarsamtök. Jafnframt og ég lýsi þessu yfir, vil ég minna hv. þm. Str. á kenningu eftir Herbert Spencer, þar sem hann heldur því fram, að brotið sjálft eigi að framleiða hegninguna. Þar sem þessi hv. þm. hefur þrásinnis brotið grundvallarlög flokks síns, getur hann ekki búizt við, að aðrir virði þau lög, og má nú gjalda þess. Ég vænti, að hann hafi nú lært, að það borgar sig ekki, lært, að hegningin hittir þann seka.