12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefur nú, ætla ég, þurft hátt á þriðju klst. til að gera grein fyrir atkv. sínu. Mér þykir því sem það muni ekki reiknað mér til syndar, þótt ég noti stutta stund til að gera grein fyrir mínu atkvæði, þótt ég hins vegar muni láta það nægja, að það komi fram, að ég tel, að það mál. sem hér er um deilt, sé hreinasta hégómamál, og hirði því ekki um að greiða atkv. — Hinu skal ég ekki neita, að mér þykja fróðlegar upplýsingar flokksforingja Framsfl., þeirra þm. Str. og þm. S.-Þ., og þá ekki sízt um samningana við Sjálfstfl. 1942, sem hv. þm. S.-Þ. hefur nú upplýst, að áttu sér stað, þótt atvikin háttuðu því svo, að ekkert varð af þessum samningum. Enn fremur er fróðlegt að heyra, hvernig samkomulagið er á þessu flokksheimili, þó að óneitanlega væri viðkunnanlegra, að leiðtogarnir gerðu upp sínar sakir á flokksfundum heldur en færa slíkar umr. hér inn á Alþingi.