12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Eftir umr., sem hér hafa farið fram, gæti aðvífandi áheyrandi haldið, að eitthvert glæpamál væri á dagskrá, fremur en venjulegt þingmál. En til þess að minna á, að svo er ekki, og til þess að ekki slitni þessar umr. algerlega úr tengslum við dagskrármálið, þykir mér viðkunnanlegra, af því að ég er frsm. fyrri minni hl. landbn., að segja nokkur orð. Hér hafa verið haldnar fleiri klukkutíma ræður, ekki um málefnið sjálft, hvernig eigi að haga útbýtingu fjár úr búnaðarmálasjóði, heldur eru það rætur gamalla synda, sem er verið að greiða hér úr og skýra fyrir þingheimi, hvaða vaxtalögum séu háðar.

Ég tel þetta mál, sem fyrir liggur til umr., ekki stórmál. Og þegar lög þessi um búnaðarmálasjóð voru fyrst samin, var ég andstæður framgangi þess máls. Ég áleit ekki rétt að klípa utan úr afurðaverði bænda og því bezt að lofa þeim áfram að hafa ráðstöfunarrétt á því, sem þeir fengju fyrir söluvörur sínar. En þrátt fyrir það, þótt ég léði því lítt liðsyrði, þá varð niðurstaðan svo sem hún varð. Og það er komið á daginn, að þessi lagasetning ætlar að verða mæðubarn. Ég vildi, að bændur fengju þetta fé sjálfir til umráða, en hæstv. Alþ. tæki ekki að sér forsorgun á þessum hluta afurðaverðs þeirra. En úr því að svo er komið, að Alþ. hefur gert þetta, þá álít ég, að úthlutunarrétturinn á þessu fé eigi samt sem áður að vera sem allra næst heimavettvangi bændanna sjálfra. Því fjær sem sá réttur liggur heimavettvangi bænda sjálfra, því dýpra finnst mér seilzt ofan í vasa þeirra. Og þó að hér hafi blandazt í umr. um þetta mál, að þessu fé sé rétt að verja til hluta, sem nauðsynlegir eru, t. d. eins og að reisa samkomuhús fyrir bændur, þá vil ég ekki, að orð mín skiljist svo, að ég telji ónauðsynlegt, að slíkt hús verði reist. T. d. eru húsakynni Búnaðarfélags Íslands og búnaðarþings algerlega óviðunandi, svo að jafnvel skömm er að fyrir íslenzka bændastétt. Og það þarf að taka með stórhug á því máli. En fjárframlög til þess eiga að vera með allt öðrum hætti en hér er um að ræða, að vera með smánart utan úr vöruverði bænda. Ég get því fallizt á það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði, að það er spurning, hvort þessi lagasetning væri ekki bezt komin þannig, að hún væri algerlega numin úr gildi aftur. Og ef bændur vilja veita fé til sinna eigin þarfa, þá eiga þeir að segja sjálfir til um það, hvað mest kallar að um að framkvæma hjá þeim, bæði í búnaðarfélagsskap þeirra heima fyrir og jarðræktarframkvæmdum.

Ég get ekki skilið, hvað meint er með því, er einn hv. þm. hefur sagt, að þetta mál sé flutt fyrir áhuga kommúnista og viss bændafulltrúi hafi hjálpað þeim í því: Er það þá meiningin, að það eigi að stimpla málin eftir því, hvort fulltrúar bænda flytja þau ásamt kommúnistum eða ekki kommúnistum? Ég hef haldið, að það eigi að meta þingmálin eftir málefnalegu gildi þeirra, en ekki eftir því, hverjir eru flm. þeirra. Og að þetta mál sé flutt til eyðileggingar stéttarsamtökum bænda, það fæ ég ekki skilið. Viðkomandi stéttarsamtökum bænda finnst mér, að þeir kunni að standa saman um sín hagsmunamál eins og aðrar stéttir. Og ég hef haldið, að prófsteinn á stéttarsamtök þeirra sé á allt öðrum vettvangi en hvort þessi eða hinn ráði yfir þessum hálfa hundraðshluta af söluverði afurða þeirra. Ég hélt, að hann væri á þeim vettvangi, að bændur skildu, hvað eru sameiginleg mál þeirra.

Það er ekki mitt meðfæri að halda langar ræður. Ég held, að ég gæfi upp andann fyrr en ég hefði lokið því að halda tveggja eða þriggja klukkutíma ræðu. En ég vildi bara láta þessi fáu orð fylgja úr garði áliti okkar tveggja nm. í hv. þd. Og þar sem ég tel þá málsmeðferð réttláta og óskaðlega, sem við leggjum til, þá vænti ég þess, að hv. þd. geti fallizt á niðurstöður okkar nál.