12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Ég býst við, að mín aths. verði stutt, því að nokkuð er nú. liðið á kvöld.

Hv. þm. Str. segir, að ég sé mjög vinafár og menn hafi margir aðrar skoðanir en ég. Ég get sagt þessum hv. þm., að ég harma það ekkert, t. d. í því tilfelli, þó að ég hafi ekki sömu skoðanir og framsóknarmenn, þegar þeir villtust út af leið flokksins og hafa verið villtir síðan og hefur ekki tekizt að hafa nokkur jákvæð áhrif á þjóðmálin síðan árið 1942. Þá þykist ég betur farinn að vera ekki með í för þeirra, sem þannig hafa villzt í þokunni.

Hv. þm. Str. minntist á það, að Jón Baldvinsson var rekinn úr Dagsbrúnarfélaginu, og hann dó skömmu síðar. Það var álitið, að þetta hefði verið óverðskulduð meðferð, sem hefði átt þátt í því að stytta honum aldur. Ég er nokkuð líkt settur að vissu leyti og Jón Baldvinsson var þá. Ýmsir af samstarfsmönnum hans ráku hann þá úr Dagsbrún. Og það er almennt talið, að hv. þm. Str. langi til að reka mig líka úr Framsfl. En það er hægt að reka menn úr kirkju og flokki, en menn fara ekki, nema menn vilji fara sjálfir. Það er ekki til neins að ætla að reka mig frá framsóknarstefnunni. Ég hef haldið við stefnuna. En þegar menn hafa villzt frá þeirri stefnu, — eins og hv. þm. Str., — þá hafa menn verra af því. En sá hv. þm. getur litið yfir það fyrir það tímabil, síðan hann kom inn í þingið, hvernig ég studdi hann til valda, hvernig ég skaut undir hann skábretti, þegar hann þurfti að semja frið við gamla andstæðinga. Hv. þm. Str. getur ekki gert gys að því, að ég hafi ekki haft nögu illt álit á hv. þm. G.-K. Ég hef verið miklu meira á móti hv. þm. G.-K., Ólafi Thors, heldur en hann, og það hefur munað miklu meira um mína mótstöðu gegn honum en mótstöðu hv. þm. Str. Hv. þm. G.-K. var með dugnaði á móti mér og ég á móti honum. Hins vegar hef ég gefið hv. þm. Str. þrjú ár í ráðherrastóli með þessum manni, hv. þm. G.-K. Ég fékk framlengt samstarf borgaraflokkanna með ýmsum aðgerðum, af því að ég vildi gera það. Um hitt er svo afbrýðisemi hjá hv. þm. Str., að ég hef ekki reynt svik af hæstv. núv. forsrh. En hv. þm. Str. hefur borið á hann svik, og hann hefur gengið svo langt að segja, að þessi svik hafi orðið þess valdandi, að hér er ekki hægt að halda áfram borgaralegu samstarfi. En hv. þm. Str. þarf ekki að búast við, að langt líði, án þess að ég geri grein fyrir því, hvað hans áhrif hafa gert að verkum í hinu pólitíska lífi flokks hans.

Hv. þm. Str. vildi sanna það, að séra Sveinbjörn væri ekki hættur við þingmennskuframboð. Ég hef ekki sagt um það annað en það, sem ég hafði eftir manni, sem beinlínis hefur talað við hv. þm. Str. Og hv. þm. Str. fer austur í Skaftafellssýslu og biður tvo tiltekna menn að vera í framboði á móti sýslumanninum, en þeir neita báðir. Og svo gekk annar þeirra úr flokknum með símskeyti til þess að sýna hv. þm. Str., að hann vill ekki vera með honum lengur. Því að hann sá fram á, að einn hinn greindasti og menntaðasti maður þessa þings, Sveinbjörn Högnason, var ekki hættur við þingmennskuframboð. En þá er hv. þm. Str. búinn að gera sér krók austur í Skaftafellssýslu til þess að fara á bak við hv. þm. V.-Sk. (SvbH) og útvega fyrst einn og svo annan mann í hans stað til framboðs.

Þessar umr. munu nú vera að fjara út, og mér þykir ótrúlegt, ef hv. þm. Str. skilur það ekki, að það er nokkurs konar Nemesis, sem eltir hann hér. Honum varð gott af því upp á veraldlegar valdastöður að kynnast mér. Ég á honum hins vegar ekkert að þakka. Ég hélt honum í ráðherrastólnum í átta ár, — með miklum erfiðleikum oft og tíðum —, en þegar ég gat ekki gert það lengur fyrir hans þrákelkni, þá gekk hann út á eyðihjarnið og hefur verið þar síðan. Ég held, að hv. þm. Str. ætti að skilja það, að það er ekki skemmtileg aðstaða fyrir mann, sem getur með réttu sagt, að hann hafi verið lengur forsrh. á Íslandi en nokkur annar maður. Og það er enn minna skemmtilegt, þegar það er athugað, hve lítið liggur eftir hann frá þeim tíma, er hann var ráðh. En enn minna liggur eftir hann, eftir að hann gekk út á eyðimörkina, því að þar dvelur hann við eymd og vesöld. Því að ef viðkomandi andófi gegn ríkisstj. það er borið saman, sem eftir hann liggur annars vegar, og hins vegar eru athuguð þingtíðindi frá árunum 1924–1927, þá er sýnt, að hans andstaða og hv. 2. þm. S.-M. gegn ríkisstj. er aumleg móts við andstöðu okkar Tryggva Þórhallssonar á móti stjórn Jóns Þorlákssonar, af því að hv. þm. Str. hefur ekki í sér þann neista, sem þarf til þess að vera í þeirri vandasömu aðstöðu. Hv. þm. Str. hefur sem sé ekkert getað, síðan honum betri menn hafa hætt að geta borgið honum. Og þannig mun það verða, þangað til hans eigin þungi ber hann þangað, sem hann á að vera til efstu stundar.