04.02.1946
Neðri deild: 63. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 8. þm. Reykv. hefur nú andmælt því, sem ég sagði um þetta mál, fannst ég taka fulldjúpt í árinni um efni málsins. Og hann vann það til að víkja orðum mínum við til að fá átyllu til að gera það að umtalsefni, hvernig þetta mál og undirbúningur þess kemur við ákvæði hinnar almennu löggjafar. Ég var ekki að segja, að þetta mál væri hróp gegn réttarörygginu, ég talaði um, að röksemdir fyrir þessu máli hrópuðu gegn röksemdum fagmanna um það, að framkvæmd þessa máls þyrfti að vera á einni hendi, og það er líka svo. Ef hv. þm. þekkir ekki þau gögn, sem fram hafa komið áður af hálfu okkar helztu kunnáttumanna í þessum efnum, þá ætti hann að kynna sér þau. Þeir telja tvímælalaust bezt og affarasælast fyrir framkvæmd þessara mála, að ríkið standi þar eitt að, og segja, eins og eðlilegt er, að slíkt verði langsamlega ódýrast, ódýrust stjórn, auðveldara að hafa það fyrirkomulag á öllum framkvæmdum, sem hagfelldast er og ódýrast, en með sama öryggi fyrir notendur, auðveldara að fá ódýr lán o. s. frv., minna mannahald, yfirleitt allar framkvæmdir og starfræksla einfaldari. Enda segir þetta sig sjálft. Hver maður, sem þekkir til stórfelldra framkvæmda, getur sagt sér fyrir fram, að svona hlýtur þetta að vera. Það er gegn þessum röksemdum, sem þetta frv. hrópar. Það eru engin rök gegn þeim málstað, sem ég held fram, þó að þm. segi, að Reykjavík hafi leyst þetta mál fyrir sig og sé því eðlilegt, að hún sigli sinn sjó áfram. Þetta er nú stærsti bærinn, og það svo, að í Reykjavík er saman kominn liðlega 1/3 hluti þjóðarinnar. Hér eru langsamlega flestar opinberar stofnanir og stórfelldastar. Og svo stendur mismunandi á fyrir öðrum stöðum. En hví þá ekki að leyfa hverjum stað að sinna þessu máli út af fyrir sig, án minnsta tillits til annarra þegna þjóðarinnar og þeirrar aðstöðu, sem þeir kunna að hafa? Það er hreint ekki mikil félagshyggja, sem kemur fram í þessum málflutningi hjá hv. 8. þm. Reykv. Manni gæti dottið í hug, ef maður nú ekki þekkti þennan hv. þm., hvar hann skipar sér í sveit, að hann væri einhvers staðar annars staðar í flokki, því að það mundi verða talið öðrum nær að túlka svona sjónarmið.

En þá er eftir sú afsökun, sem hv. þm. vill náttúrlega grípa til og fleyta sér á, það að umbjóðendur hans hér kynnu nú í framkvæmdinni að hafa betra af því að vera sér, en verkamenn og sjómenn annars staðar. Og þá er sjálfsagt að láta það sjónarmið ráða, — lengra nær nú umhyggjan ekki og jafnaðarmennskan. Eitthvað finnst mér nú geiga í röksemdunum um sósíalismann.

Hv. þm. fór að rekja ákvæði frv. Þess þurfti hann ekki fyrir mig. Og hann kom ekki heldur með eitt einasta atriði, sem hnekkti því, sem ég sagði, — hvernig þessu skýtur skökku við, bæði að nokkru leyti því frv., sem komið er til Ed., og sérstaklega því, sem hér er fram komið. Það gerbrýtur þá hugsun, sem liggur til grundvallar hinum almennu raforkulögum. Það bætir lítið úr þó að hv. þm. skírskoti til ákvæða 7. gr., að þegar hálfvirkjað sé, geti ríkið (SigfS: Skuli! ), nei, það getur það, því að þetta ákvæði, að það skuli gera það, er tekið aftur undireins, með leyfi hæstv. forseta : „Þegar auka þarf virkjun fram yfir það, að Sogið sé virkjað til hálfs, skal ríkisstjórnin framkvæma aukninguna og gerast meðeigandi að Sogsvirkjuninni, nema samkomulag verði við Reykjavíkurbæ um aðra tilhögun.“ Nema samkomulag verði um aðra tilhögun! Með öðrum orðum: Það mundi verða eftir þessu á valdi ráðherra, hvað gert yrði í þessu efni. Ef nú ríkisstj. kysi að blanda ríkinu ekki inn í þetta, þá er opin leið að semja. Fyrir það að málinu er komið í þetta horf, er miklu torveldara fyrir síðari tímann um framkvæmdir af ríkisins hálfu en ef það gengi strax út í þær, því að því meiri fjárhæðir, sem búið er að binda í fyrirtækinu og framkvæma meira, því erfiðara er fyrir ríkið að grípa inn í.

Hv. þm. sagði, að ríkið hefði haft heimild til að vera þátttakandi, en ekkert hefði gerzt í því efni. Þó að ég hefði hreyft þessu máli á þingi, þá sá ég fram á, að það væri ekki til neins. En hvað er svo þessi virkjun mikil, sem hér um ræðir? Það á að virkja Sogið að hálfu leyti. Ekki veit ég nema það kynni að verða einhver ágreiningur um það, hvenær telja skyldi hálfvirkjað, og ekki er víst, að auðvelt yrði að leysa þá deilu, því að jafnan yrði álitamál um það, hvenær hálfvirkjað gæti talizt. Það er vissulega undir því komið, hvernig virkjanirnar yrðu framkvæmdar, sem gætu orðið þrjár eða fleiri. Talið er, að tvímælalaust séu 100 þús. hestöfl í Soginu a. m. k. En ég gæti vel búizt við, að það fyrirkomulag mætti hafa á virkjun Sogsins, að nytja mætti miklu meira afl. En þó að við tökum einföldustu tölurnar og segjum 50 þús. hestöfl, þá er þetta ekki smávegis fyrirtæki. Þetta mál er því ekki neitt lítilvægt og ekki jafnsjálfsagt, að það gangi fram í þeim búningi, sem það er nú. eins og hv. 8. þm. Reykv. vill vera láta, nema við eigum að löghelga þá aðferð, sem kannske hefur stundum verið viðhöfð í þessu þjóðfélagi, að hver aðili innan þjóðfélagsins olnbogi sig áfram eftir sinni getu án tillits til annarra, eftir því sem aðstaðan leyfir. Óneitanlega kemur sú stefna dálítið fram í þessu máli.

Hv. þm. hélt því fram, að tefja kynni framkvæmd málsins, ef ríkið hefði framkvæmdirnar á hendi, en ekki bærinn. Þetta tel ég fjarri öllu lagi. Hvað hefur Reykjavíkurbær til að bera umfram ríkið sjálft til þessara framkvæmda? Mundi ekki Reykjavíkurbær vera fús til að láta það af mörkum, sem hann hefur yfir að ráða viðvíkjandi undirbúningi til framkvæmda, og fjármuni, til að flýta fyrir framkvæmd Þessa máls? Það veit ég, að bærinn vill gera á augabragði.

Hv. þm. sagði, að sér hefði skilizt, að ég vildi banna Reykvíkingum að virkja Sogið. Þetta er ekki rétt, ekkert orð féll hjá mér, sem mátti skilja í þá átt. En mér finnst óþarfi, að þeir einir virki Sogið. Mér finnst réttara, að ríkið geri það, og það er allt annað mál. Ef það lægi fyrir eitt af tvennu, að Reykjavík virkjaði Sogið eða það yrði ekki virkjað, þá mundi ég hiklaust mæla með því, að Reykjavík virkjaði það. En það er ekki þetta, sem hér er verið að ræða um, heldur er það það, hvort taka eigi upp þá stefnu, að þeir, sem bezta aðstöðuna hafa til framkvæmda í þessu efni, skeri sig út úr, án þess að skipta sér af öðrum.

Síðan vék hv. þm. að því, að Framsóknarstjórnin, sem hér hefði setið að völdum áður, hefði ekki virkjað og þar fram eftir götunum. Svona röksemdum er alltaf hægt að slá fram. Hv. þm. hefur áreiðanlega þann kunnugleika frá þeirri tíð, að hann veit vel, að hvorki voru þá til heildarlög um þetta efni, sem ríkisstj. gæti framkvæmt stórvirkjanir eftir, og eins er það, sem oft vill enn verða, að nýbreytni, sem menn hafa ekki nægilega þekkingu á, hindrar framkvæmdir. Loks má minna á það, að um langt árabil voru fjárhagsástæður hinar erfiðustu, lágt verð á afurðum okkar á erlendum markaði og hinum litla gjaldeyri varð að miðla til hinna allra nauðsynlegustu hluta. Og hvað sem líður ríkisstj. og ríkinu á þessum árum, þá mundu einstök sveitarfélög hafa framkvæmt ýmislegt meira sér til hagsbótar, ef nokkrir möguleikar hefðu verið á slíku. En það er margt, sem grípur inn í eðlilega framkvæmd slíkra mála.

Þá vék hv. þm. að því, að eftir frv. væri réttur Reykjavíkur minni en ríkisins. Þar á hann við það, að þegar til framkvæmda kemur, hafi ríkið eftir þessu frv. svipaðan rétt og það hefur haft eftir eldri löggjöf. Nú er það vitað, að Reykjavík hefur ekki getað fullnægt sinni eigin þörf fyrir raforku, hvað þá heldur þörf annarra landshluta, þótt nú hafi verið bætt úr þessu hvað Reykjavík snertir í svipinn. Þannig getur maður séð, hvernig þetta getur verið. Og það er fjarri því, að fólkið fái orkuna með nokkuð betri kjörum, þótt framkvæmdirnar séu í höndum bæjarins, heldur en ríkið sjái um þetta. Ég skal játa það, að þessi 10% eru ekki stór upphæð, en þetta er þó tíunda hver króna og er þessu fólki, sem fyrir utan Reykjavík er, töpuð. Ríkið á að eiga það fé samkv. frv. En það er síður en svo, að þetta sé nokkurt höfuðatriði. Höfuðatriðið er hin almenna framkvæmd, sem á að tryggja, að sem mestur hluti þjóðarinnar geti orðið þessara~ orku aðnjótandi, en okkur greinir einmitt á um leiðirnar til þess. Og þegar þetta er haft í huga, er ég ekki í neinum vafa um, að ég hef rétt að mæla, enda er þessi skoðun studd af okkar beztu mönnum, einmitt þeim mönnum, sem hafa sérþekkingu á þessum málum. Þannig liggur það ljóst fyrir, hvert stefnt er.