06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

149. mál, virkjun Sogsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. um þetta mál var frestað í fyrradag, og var ástæðan til þess sú, að ég hef litið svo á, að grundvellinum fyrir starfsemi raforkuframkvæmda hér á landi hefði verið slegið föstum með því frv. til raforkul., sem afgr. var frá þessari hv. d. rétt áður en þingi var frestað. Samkv. því frv. er gert ráð fyrir því, að þegar um stærri virkjunarframkvæmdir er að ræða, verði þeim hagað þannig, að ríkið sé þar aðili að. Að vísu var sú breyt. gerð á 1. gr. þess frv., — ég ætla við 3. umr. málsins, — að aðrir aðilar en ríkið, sem hafa hafið slíkar framkvæmdir áður en l. þessi öðluðust gildi, fái að vera áfram aðilar að þeim framkvæmdum, og geta þeir samkvæmt því frv. fengið leyfi viðkomandi ráðh. til þess að halda virkjunum áfram, sem þeir eru byrjaðir á, ef þeir fara fram á slíkt innan 6 mánaða frá gildistöku þeirra l. Við, sem stöndum að Andakílsárvirkjuninni, höfum haft mikinn hug á því og raunar fengið því framgengt — að vísu með miklum erfiðismunum — að fá að halda áfram þeirri virkjun, sem þar hafði verið fyrirhuguð og nú er byrjað á. Þegar við hv. þm. Mýr. (BÁ) fluttum á þ. 1943 frv. um það að fá sérleyfi til handa þeim aðilum, sem að þessari virkjun standa, til þess að ráðast í hana, þá hafnaði Alþ. því að veita slíkt sérleyfi, en hins vegar tókst okkur að fá hér ríkisábyrgð fyrir þeirri upphæð, sem á þurfti að halda til að afla véla og annarra hluta til þessarar virkjunar. Á þessum grundvelli fékkst leyfi viðkomandi ráðh. til þess, að virkjun yrði hafin. Hefur þetta orðið þess valdandi, — sem sé það, að viðkomandi aðilar fengu frjálsar hendur til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, — að nú er búið að afla allra véla, sem til virkjunarinnar þarf, og sömuleiðis annars nauðsynlegs efnis og leiðslna í sambandi við hana. En það varð þó að ganga í gegnum miklar þrengingar til þess að koma þessu eins langt áleiðis og það nú er.

Ég vildi láta þetta koma fram í sambandi við það, að ágreiningur virðist hafa komið upp um það milli hv. 8. þm. Reykv. (SigfS) og hv. 1. þm. Árn. (JörB), hvort heppilegt væri, að einstök félög stæðu að þessum virkjunum — hvort heldur það væri bæjarfélagið eða fleiri aðilar — eða þetta væri algerlega á vegum ríkisstj. eða ríkisins. Ég býst við því, að ef þeim aðilum, sem standa að Andakílsárvirkjuninni, hefði verið fyrirmunað af hv. Alþ. að hefjast handa um þessar framkvæmdir, þá hefði á þessum tíma ekkert verið gert af hálfu ríkisvaldsins til þess að undirbúa eða hrinda í framkvæmd þessari virkjun, þannig að þetta mál stæði fast enn í dag, eða þangað til endanleg löggjöf hefði verið afgreidd hér á hv. Alþ. um þessi efni.

Ég er þess vegna alveg sammála því, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði um þetta atriði, og tel mjög varhugavert að útiloka eða þrengja mjög framtak einstakra félaga í löggjöf um þessar framkvæmdir. Hitt get ég ekki viðurkennt, að það sé réttmætt af löggjafans hálfu að veita einum aðila aðstöðu í þessum efnum, sem öðrum er fyrirmunuð. Frá þessu sjónarmiði mun ég halda því fram, að framtak einstakra aðila í þessu efni sé mjög mikilsverður þáttur í því að hrinda þessu máli áfram, og að ekki eigi að setja fótinn fyrir þetta, eins og segja má, að gert sé með frv. til raforkul. og því frv., sem hér liggur fyrir um virkjun Sogsins og er greinilegasta dæmið um þetta. Því að ef svo hefði verið frá þessu máli gengið í frv. til raforkul., hefði vissulega ekki þurft samtímis að flytja sérstakt frv. um það að veita Reykjavíkurbæ annan rétt en öðrum er veittur samkv. frv. til raforkul. — Ég vil þess vegna — og kvaddi mér aðallega hljóðs af þeirri ástæðu — skjóta því til hv. iðnn., sem var mjög fús til að taka til greina ýmsar ábendingar, sem fram komu hér í hv. d. þegar frv. til raforkul. lá hér fyrir, en nú er það að vísu komið til hv. Ed. — og má búast við, að það komi hingað aftur, og er auk þess eðlilegt og æskilegt, að samstarf sé milli iðnn. beggja hv. d., — hvort ekki væri ástæða til, að innan takmarka þeirrar heildarlöggjafar, sem sett væri um þessi efni, væri ákvæði, sem gengi í svipaða átt og gert er með því frv., sem liggur fyrir, en þar sem viðkomandi aðilum væri gert jafnt undir höfði, er hefðu svipaða aðstöðu og hér er um að ræða. Og þannig er t. d. ástatt um Laxárvirkjunina, eins og hv. 1. þm. Árn. benti á, þar sem um er að ræða mjög mikla vatnsorku, sem verður til afnota fyrir mjög stórt svæði norðanlands. Þessu hagar einnig mjög svipað til með Andakílsárvirkjunina, því að í þeim till., sem raforkumálan. var með á sínum tíma, var gert ráð fyrir því, að lagt væri til rafmagn frá Andakílsárfossunum til annarra héraða en þeirra, sem standa að virkjuninni. Ég býst við, að hið sama verði einnig uppi á teningnum, þegar til virkjunarframkvæmda kemur austanlands, á Vestfjörðum eða í Húnavatns- eða Strandasýslum. — Mér finnst því heppilegra undir öllum kringumstæðum, að ákvæði um öll þessi raforkumál væru í einni löggjöf, en að ekki sé verið að semja löggjöf fyrir einstök bæjarfélög samtímis því, sem hv. Alþ. er að setja heildarlöggjöf um þessi mál. En það, að við hv. þm. Mýr. gengum ekki frekar fram í því að tryggja þeim aðilum, sem standa að Andakílsárvirkjuninni, frekari rétt en felst í frv. til raforkul., stafar af því, að við höfðum skilið það þannig hér í hv. d., að ekki mundi þýða að flytja málið á þeim grundvelli, þótt við teldum hins vegar, að betri lausn fengist á málinu með því að hafa rýmri rétt í frv. til einstakra aðila til þeirra framkvæmda, er hér um ræðir. Þess vegna finnst mér það koma einkennilega við, þegar frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, kemur fram, og það verður til þess, að við hv. þm. Mýr. ásökum okkur fyrir, að við skyldum ekki ganga lengra fram í að tryggja aðilum Andakilsárvirkjunarinnar betri réttindi en við gerðum til þess að færa málið inn á þessa braut. Nú veit ég að vísu ekki, hver afdrif þessa frv. verða hér, og hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér það.

Enn fremur vil ég benda á annað atriði í þessu frv., sem mér virðist ekki koma alveg heim við sams konar ákvæði í frv. til raforkul. Í því frv. eins og það lá hér fyrir átti hámark þeirrar upphæðar, sem ríkið ábyrgist, þegar um er að ræða framkvæmdir annarra en ríkisins, eins og t. d. héraðsrafveitur, að vera 2/3 lánsupphæðarinnar. Við hv. þm. Mýr. fluttum hér brtt. um það, að í þessum efnum skyldi það hámark látið halda sér, sem nú hefur verið um alllangt skeið, sem sé að ábyrgðin nái til 85% af lánsupphæðinni. Þetta var samþ. hér í hv. d. og málið að þessu leyti afgr. til hv. Ed. Nú stendur í 5. gr. þessa frv., að ríkisstj. ábyrgist lán til handa Reykjavíkurbæ til þessara framkvæmda, sem eru að upphæð allt að 34 millj. kr., en engin slík ákvæði eru þar sett inn um það, að ábyrgðin megi ekki vera nema 85% af heildarkostnaði, heldur getur hún náð til alls þess kostnaðar, sem leiðir af virkjuninni, þ. e. a. s. að 34 millj. kr. Þetta er í ósamræmi við ákvæðin í frv. til raforkul., og verð ég því að láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel ekkert réttlæti í því að veita þeim aðila, sem um er að ræða í frv. því, sem hér er til umr., ríkari rétt í þessum efnum en gert er ráð fyrir, að allir aðrir verði að búa við. Ég vildi þá líka skjóta þessu til iðnn., en ég legg sem sagt áherzlu á það, að ef afstaðan hér á Alþ. hefur breytzt frá því að raforkulagafrv. var afgr. héðan, og nú þykir rétt að veita einstökum aðilum, sem að þessum málum standa, ríkari rétt en gert er með raforkulagafrv., sem á að verða grundvöllur að heildarlöggjöf um raforkumálin, þá verði það látið ná til þeirra aðila annarra, sem þarna koma til greina og mundu óska sér til handa svipaða aðstöðu.