06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

149. mál, virkjun Sogsins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs á síðasta fundi d. til þess að andmæla nokkuð hv. 1. þm. Árn. En áður en ég sný mér að því verkefni, vil ég benda á, sem ég geri ráði fyrir, að hv. þm. sé ljóst, að frv. er algerlega í samræmi við raforkulagafrv. eins og það var afgr. héðan úr d. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Við gildistöku þessara l. er þó þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl, heimilt að reka þau áfram, og ráðh. er heimilt að leyfa aukningu á þessum orkuverum, allt að fullri fyrirhugaðri virkjun, enda sendi eigendur þeirra uppdrætti og greinargerðir um framkvæmdirnar innan 6 mánaða frá gildistöku l.“ o. s. frv. Hér er um að ræða, að Reykjavík fái fyrirhugaða virkjun við Sogið, og hún er fyrir löngu fyrirhuguð og, eins og ég hef áður tekið fram, undirbúin og vel á veg komin. Ég held, að megi segja, að verkfræðilegum undirbúningi sé að mestu lokið og hafizt verði handa á komandi sumri.

Ég held, að ég megi segja, að meginefni þessa frv. sé í fullu samræmi við 1. gr. frv. um raforkumál, sem nú er í Ed., eins og ég hef tekið fram, en ég vil í tilefni af ummælum hv. þm. Borgf. taka það fram, að þegar við ræddum þetta mál, um virkjun Sogsins, þá var ekki verið að ræða um ríkið eða bæjarfélagið, það var ekki verið að setja þessa aðila hvorn gegn öðrum. Ég skal í höfuðatriðum rekja efni þessa frv., og efni þess er þetta: Reykjavíkurbær fær rétt til þess að halda áfram að virkja Sogið, allt að því marki, að það verði virkjað til hálfs. Þessum rétti fylgja vissulega margar skyldur. Sú fyrsta, að bænum er lagt á herðar, að hann verði að ljúka þessari virkjun á Soginu til hálfs, Það er hans hlutverk að fylgja því fram. Fram kvæmdirnar eru háðar eftirliti ráðh., þannig að fyrir hann verður að leggja alla uppdrætti og áætlanir og ráðh. hefur vald til þess að krefjast breytinga á hvoru tveggja. Enn fremur er sú skylda lögð á bæjarfélagið að láta raforku í té frá raforkuverinu við stöðvarvegg og við afspennistöðvar til almenningsþarfa, þótt utan Reykjavíkur sé, við lögákveðnu kostnaðarverði og samkvæmt mati á hverjum tíma. Það eru ekki neinar smáræðisskyldur. Og loks er svo, sem ég áður hef rætt, að ríkið getur gengið inn í þetta virkjunarstarf bæjarfélagsins og því er skylt, ef ekki hefur önnur ákvörðun verið tekin síðar, að virkja það, þegar bærinn hefur hálfvirkjað Sogið. — Hér er því ekki, eins og ég hef áður tekið fram, ríkið gegn bæjarfélaginu eða bæjarfélagið gegn ríkinu, heldur samstarf. Meginatriðið er, að framkvæmdin sjálf sé í höndum þess aðila, sem líklegastur er til að ljúka henni sem fljótast, og hér er mikið starf, sem þarf að leysa, og því má engin töf verða. Jafnframt verður að gæta þess, að réttur engra aðila sé fyrir borð borinn og þannig hagað framkvæmdunum, að allir aðilar geti notið góðs af þeim. En varðandi það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ekki væri rétt að veita einum aðila það, sem öðrum væri meinað í þessu efni, þá er ég honum fullkomlega sammála. Ég tel ekki efamál, að ef önnur héruð kæmu með sambærilegar ástæður og Reykjavíkurbær hefur fært fram í þessu frv., þá ber þinginu að taka það sömu tökum og það vonandi tekur þessu frv. En undir öllum kringumstæðum er það trygging fyrir, að framkvæmdirnar gætu gengið fljótt og greiðlega. Það má vel vera nokkuð rétt það sjónarmið hjá hv. þm. Borgf., að það sé í sjálfu sér óeðlilegt að þurfa að hafa um þetta sérstakt frv., heldur fella ákvæði um það inn í aðalfrv. En ég skal taka það fram, að bæjarráð fól iðnn. að athuga þetta frv. og hvort samrýma bæri aðalstefnu þess inn í heildarlöggjöfina, en slíkt hefði hlotið að tefja, úr því sem komið var, og ég tel ekkert athugavert við það, þó að svo væri ekki gert.

Ég geri ráð fyrir, að rétt sé á það bent hjá hv. þm. Borgf., að í 5. gr. frv. um Sogsvirkjunina og frv. um raforkuver sé ekki fullt samræmi. Ég vil taka það fram, að Reykjavíkurbær hefur aldrei notið neinnar ríkisaðstoðar við lán vegna síns innanbæjarkerfis og fer ekki heldur fram á það, heldur aðeins að njóta ríkisábyrgðar með lán til þess að koma upp aðalorkuverinu. En ákvæðið um 85% af kostnaðarverði hygg ég, að sé miðað við heildargreiðslu, en ég sé fyrir mitt leyti ekkert á móti því að bæta inn í 5. gr. ákvæði um það, að ábyrgðin fari ekki fram úr 85% af kostnaðarverði. Verður þá annars vegar talað um 34 millj. kr. og hins vegar, að greiðslan fari ekki fram úr 85% af kostnaðarverði. Ég hygg, að slíkt sé á engan hátt óaðgengilegt, hvorki fyrir Reykjavíkurbæ né ríkið.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Árn., sem hann flutti hér, þegar málið var síðast á dagskrá. Hann hóf ræðu sína með því að vitna til kunnáttumanna á sviði raforkumála, sem teldu, að ríkið eitt ætti að hafa þennan rekstur með höndum, og frv. væri í mótsögn við allar þeirra röksemdir. Nú spyr ég hv. þm., hverjir eru þessir kunnáttumenn? Ég skal ekki mikið fullyrða, en ég vil leyfa mér að draga mjög í efa, að þessir kunnáttumenn séu andvígir þessu frv. Ég geri mér hugmynd um, að sá kunnáttumaður, sem hv. þm. á við, sé forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins, en ég veit ekki betur en hann sé hlynntur þessu frv., sem fyrir liggur um virkjun Sogsins. Ef það eru einhverjir aðrir kunnáttumenn, sem hv. þm. hefur í huga, er æskilegt að heyra, hverjir það eru og þeirra álit um virkjun Sogsins. Ég má til að skjóta því til hv. þm., að ef miðað er við kunnáttumenn eins og þá, sem mynda meiri hl. raforkumálan., Jón Pálmason o. fl. hv. þm. og Sigurð Jónasson forstjóra, þá tek ég þá ekki gilda sem kunnáttumenn á sviði raforkumála, hv. 1. þm. Árn. verður að fyrirgefa mér það. En eigi hv. þm. við einhverja aðra, t. d. eins og Jakob Gíslason, væri æskilegt að heyra það. En séu það ekki slíkir kunnáttumenn, sem hv. þm. á við, þá eru orð hans dauður bókstafur, sem ástæðulaust er að lesa.

Næsta röksemd. hv. þm. er sú, að auðveldara muni að fá lán til framkvæmdanna, ef ríkið á hlut að máli. Mér eru ekki kunnir neinir erfiðleikar á því, að Reykjavíkurbær geti fengið umbeðið lán. Ég efast ekki um, að ríkið eigi auðvelt með það líka, en ég tel óhætt að fullyrða, að það verður enginn Þrándur í Götu þessa máls, ef þetta frv. verður að l., að Reykjavíkurbær eigi erfitt með að fá lán til framkvæmdanna.

Þriðja röksemd hv. þm. er sú, að það þurfi minna mannahald, ef ríkið annist framkvæmdirnar. Ég hef enga trú á, að hægt yrði að komast af með minna mannahald, þó að þetta yrði rekið af ríkinu, en ekki af Reykjavíkurbæ. Það er engin skynsamleg ástæða til þess að halda það. Og það má taka það fram í þessu sambandi, að þetta kemur á engan hátt í mótsögn við þessa heildaráætlun, sem verið er að gera um raforkumálin, og á engan hátt í bága við yfirstjórn ríkisins á þessu máli sem heild.

Þá talaði hv. þm. um, að erfitt mundi að neita öðrum stöðum um sama rétt og Reykjavík fengi. Þá hlið hef ég rætt, og ég tel sjálfsagt, að Alþ. geti ekki gert upp á milli staða, sem koma með sams konar ástæður, og engum stað séu tryggð viss forréttindi, en öðrum aðilum meinaður aðgangur að orkunni, og er þess gætt með þessu frv., og mundi svo að sjálfsögðu verða um aðra staði.

Hv. þm. gat þess, að sér þætti gæta í ræðu minni furðu lítillar félagshyggju og að ég mundi koma hér fram sem umboðsmaður umbjóðenda minna í Reykjavík. Ég ber engan kinnroða fyrir það að koma hér fram sem umboðsmaður þeirra Reykvíkinga, sem hafa falið mér umboð sitt hér á hæstv. Alþ. eða í bæjarstjórn, og ég álít, að það komi ekki í bága við neina félagslega hyggju, þó að ég vilji fara beztu leiðina til þess að tryggja einum þriðja landsmanna aðgang að raforku á eins varanlegan og auðveldan hátt og hægt er um leið og engum öðrum er varnað sama réttar, sem tilkall getur átt til hans. Annars get ég ekki varizt að minnast þess, að ég held eiginlega, að það hafi bólað á heldur minni félagshyggju hjá hv. 1. þm. Árn. og skoðanabræðrum hans, þegar þeir voru að fjalla um 35. gr. frv. um raforkul., þar sem þeir komu til leiðar, að raforkulánasjóði er hægt að útdeila til smástöðva hingað og þangað úti um land. Það finnst mér ákaflega takmörkuð félagshyggja að líta aðeins á einstaka ágæta bændur úti um landið og mjög miklu lengra frá því að geta kallazt slíkt en það, sem stefnt er að með þessu frv., þar sem litið er á hagsmuni 45 þús. manna í Reykjavík og Hafnarfirði og á Suðurnesjum og öðrum stöðum, sem eðlilega ættu að geta fengið aðgang að Sogsvirkjuninni.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um það, að ríkið hefði haft heimild til þess að verða þátttakandi í Sogsvirkjuninni, eins og ég hef bent rækilega á, en sagðist ekki hafa komið með till. um það af því, að hann teldi það algerlega þýðingarlaust, og kom hann í því sambandi inn á það, að það væri dálítið undarlegt, hvað tiltölulega hægt gengi með virkjunina fyrir Reykjavík, því hefði verið haldið fram á sínum tíma, að Reykjavíkurvaldið hefði ekki nándar nærri verið nógu stórhuga í framkvæmdum hvað snerti rafmagnsmálin. En þó að meiri stórhugur hefði þurft að ríkja, þá var þó ríkisvaldið þá enn smærri hugar, og sérstaklega var sá hugur smár, þegar flokkur hv. 1. þm. Árn. var hér allsráðandi á þingi og í ríkisstj., og það er víst, að ef sú ríkisstj. hefði átt að leysa þetta mál Reykvíkinga, þá væri það þó ekki komið þetta áleiðis, heldur áreiðanlega í aðalatriðum óleyst. Og hv. þm. mætti vel minnast þess, að flokksblöð hans og flokksbræður töldu ekkert annað meiri þjóðarvoða fyrir 15 árum síðan en að ríkið gengi í ábyrgð fyrir Reykjavíkurbæ, þegar verið var að undirbúa virkjun Sogsins. Það er sýnishorn af því, hvers hefði mátt vænta af ríkisvaldinu, sérstaklega í höndum Framsfl., ef hann hefði haft þetta mál með höndum.

Þá var hv. þm. með aths. um það, að það væri dálítið efamál, hvenær búið yrði að hálfvirkja Sogið. Þetta er sagt til þess að segja eitthvað. Það mun vera ákaflega auðvelt að gera sér nokkra grein fyrir því, hve mikil orka felst í Soginu, og ef hv. þm. vill, þá má það vera tekið fram í frv., hve mörg hestöfl verði að vera virkjuð, til þess að Sogið geti talizt virkjað til hálfs, svo að þessum vandræðum sé þá vikið frá hv. þm.

Þá sagðist hv. 1. þm. Árn. ekki ætla að banna Reykvíkingum að virkja Sogið, en gera óþarft, að þeir gerðu það. Það er nú svo. Ég hef vikið að því áður, að ef þessi hv. þm. hefði ráðið kringum 1930 og gert óþarft, að Reykvíkingar virkjuðu Sogið, þá væri sú virkjun langtum skemmra á veg komin en hún er nú.

Ég þarf ekki að eyða öllu meiri tíma í að ræða þetta og býst ekki við að eyða meiri tíma til þess hér eftir. Ég er búinn að sýna mjög rækilega fram á, að frv. er í samræmi við það, sem hv. d. hefur afgr. frv. það um raforkumál, sem nú er í Ed., og ég hef einnig sýnt fram á, að hér er ekki um að ræða bæjarfélagið gegn ríkinu eða ríkið gegn bæjarfélaginu, heldur samstarf, þar sem ríkið tryggir sér og þegnum sínum sanngjarnan rétt og Reykjavík hlýtur í raun og veru meiri skyldur en rétt er, en orsökin til þess, að ég held því fram, að Reykjavík eigi að hafa þetta sjálf með höndum, er sú, að ég er sannfærður um, að það greiðir betur fyrir virkjuninni en ef það væri lagt í hendur annarra aðila á þessu stigi málsins.