06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

149. mál, virkjun Sogsins

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. hefur máske ekki tekið eftir því, að það var fleira en eitt atriði, sem ég beindi til hv. iðnn. í þessu sambandi, því að mér skildist svo, þegar hann var að beina þeim tilmælum til form. n., að þá væri það til þess að taka til athugunar þær aths., sem ég hef gert um þá ábyrgð, sem um ræðir í þessu frv. Hitt er meginatriðið, sem ég beindi til n., að hún tæki til athugunar, hvort efni þessa frv. bæri ekki að taka inn í það frv., sem fyrir liggur til raforkulaga, og gera það þannig, að þeim aðilum, sem svipað stendur á um, þeim yrði skapaður sami réttur og á að skapa Reykjavíkurbæ með þessu frv. Þetta var vissulega aðalatriðið í því, sem ég beindi til n., og ég vænti, að n. gangi ekki fram hjá því, þegar hún fer að ræða þetta mál.

Mér þótti vænt um, að hv. 8. þm. Reykv. tók mjög vel í þá till. hjá mér, að þessi ákvæði yrðu tekin inn í heildarlöggjöf um þetta efni, og því vænna um það sem hann er einn aðilinn að þessu máli sem meðlimir bæjarstjórnar Reykjavíkur og sem fulltrúi Reykjavíkurbæjar hér á Alþ. Þegar þetta mál var sent til n. til flutnings, hefur hann talið eðlilegast, að málið kæmi ekki fram hér í þeim búningi, að það hefði verið flutt brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir um þetta efni, enda kom það vitanlega út á eitt fyrir Reykjavíkurbæ að fá eftir þeim leiðum óskum sínum fullnægt eins og með því að vera að flytja sérstakt frv. um þetta mál, og verð ég að segja, að ég kann illa við það að vera að afgreiða þetta mál samtímis í mörgum pörtum. Vil ég mælast til þess, að n. taki þetta til athugunar.

Ég vildi aðeins taka þetta fram hér og legg áherzlu á það, að aðrir aðilar, sem eins stendur á um, verði látnir sitja við sama borð, og tel ég það undir öllum kringumstæðum eðlilegast, nú og í framtíð, að öll þessi ákvæði væru látin vera í sömu lögum.