06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

149. mál, virkjun Sogsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mig langar að óska eftir nánari skýringum á einstökum atriðum frv.

Í 5. gr. frv. er ákveðið um ríkisábyrgð handa Reykjavíkurbæ og nefnd upphæð allt að 34 millj. kr. Nú skilst mér á frv. að öðru leyti, að þarna muni innifalið það, sem Reykjavíkurbær nú kann að skulda vegna Sogsvirkjunarinnar og ríkið er í ábyrgð fyrir, og hefði ég gjarnan viljað fá skýringu á því, hve mikill hluti þetta væri af upphæðinni og hvað þarna væri nýtt eða væntanleg lántaka hér eftir.

Þá er það annað atriði, sem snertir 6. gr. þessa frv. Ég vænti, að forseti hafi ekki við það að athuga, þó að ég spyrji um þetta, þótt ræða eigi einstakar gr. við 2. umr. Þar er gert ráð fyrir, að þessi virkjun selji rafmagn fyrst og fremst til Rafmagnsveitu Reykjavíkurbæjar, en einnig til annarra orkuvera og aflstöðva, og raforkan verði seld við kostnaðarverði að viðbættu allt að 10 af hundraði. Þætti mér fróðlegt að vita frá flm. þessa frv., hvers vegna það er áformað að leyfa svona mikla álagningu á raforkuna. Í kostnaðarverðinu er að sjálfsögðu innifalið hæfilegt fyrningargjald af vélum og mannvirkjum, sem þarna er um að ræða, og auðvitað eru vextir af kostnaðarverði þeirra innifaldir í kostnaðarverðinu, og þá er þessi 10% álagning hreinn gróði, eða heimild til að taka 10% í álagningu ofan á allan kostnað. Mér finnst þetta vera óeðlilegt og vildi því óska eftir skýringum á þessu og beini því til flm., hvort þeir teldu ekki fært að lækka þetta til verulega muna.

Þá er að lokum í frv. víðar en á einum stað talað um fullvirkjun Sogsins og virkjun að hálfu, og mun hv. 11. landsk. vera með einhverjar tölur í því sambandi. En mér kemur í hug, að það kynni að verða einhver ágreiningur um það, hvað hægt væri að fá mikla orku alls úr Soginu, og þess vegna hefði ég nú talið eðlilegast, að þarna í frv. væru ákveðnar einhverjar tölur, tekinn fram t. d. einhver ákveðinn hestaflafjöldi, til þess að útiloka það, að þarna gætu orðið deilur um. Ef verkfræðingar hafa þegar reiknað út eða telja sig geta það, hve mikla orku megi fá úr Soginu, ætti að vera hægt að setja í staðinn fyrir þessa hálfu virkjun ákveðna tölu inn í frv.

Það hafa nú þegar orðið miklar umr. um þetta frv., og mönnum kemur ekki að öllu leyti saman um það, hvernig heppilegast sé að fara með þessi mál. Tel ég, að heppilegra hefði verið að ákveða þessa framkvæmd með öðrum hætti en hér er gert, en ætla þó ekki á þessu stigi málsins a. m. k. að fara að lengja umr. um þetta né heldur að gera aths. við einstakar ræður, sem fluttar hafa verið, þó að ástæða hefði verið til.