21.03.1946
Neðri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér þykir fyrir því, að hv. n. skuli ekki hafa fallizt á þessar brtt. mínar. Mér skilst þó, að hv. n. sé því frekar hlynnt, að 3. liður brtt. nái samþykki, en raunar fylgir þá 2. liður með, því að hann byggist á brtt, undir 3. tölul., eðli málsins samkvæmt, en öðru máli gegnir um 1. tölul. Hins vegar þykir mér ekki rétt að slá því lengur á frest, að ríkið gerist aðili, en þangað til Sogið er hálfvirkjað. — Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta. Atkvgr. mun skera úr. Ég tel hættu á því, að Reykjavíkurbær kunni að verða heldur sparsamur við fyrirtæki og aðila utan Reykjavíkur, ef þessu verður ekki breytt. Auðvitað getur löggjafarvaldið hvenær sem er gripið fram í, en til þess þarf að skapast annað viðhorf en nú ríkir. Það er eðlilegt, að Reykjavík hlúi að sínum hag, en það er ekki sanngjarnt, að hún sitji yfir annarra hlut, en mér virðist ekki laust við, að sumir fulltrúar, sem eiga kjörfylgi í bænum, líti svo á.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en láta atkvgr. skera úr.