11.04.1946
Efri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

149. mál, virkjun Sogsins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Brtt. þessar eru fluttar vegna breyt., sem gerðar voru á þessu frv. í Nd. Hv. 1. þm. Árn. flutti við 3. umr. málsins brtt., sem náðu fram að ganga þrátt fyrir mótmæli bæjarráðs gegn tveimur þeirra af þremur, en frv. er upphaflega samið af bæjarráði og var sent því til umsagnar.

Brtt. mínar miða að því að færa frv. til fyrra horfs að því er varðar tvær af þeim breyt., sem gerðar voru, en láta hina þriðju standa. Brtt. hljóða svo:

„Við 7. gr.

1. Aftan við 1. málsl. 1. mgr. bætist: nema samkomulag verði við Reykjavíkurbæ um aðra tilhögun.

2. Aftan við 2. málsl. 1. mgr. bætist: og eigandi að helmingi, þegar vatnið er fullvirkjað.“ Eins og þetta er nú, verður ríkið eigandi að virkjuninni að hálfu, þegar virkjun Sogsins er lokið. En eins og frv. var upphaflega og eins og brtt. mínar miða að, skal þetta ekki verða nema samkomulag náist um þetta. Með þessu eru ekki lögð of mikil völd í hendur bæjarins, en hins vegar mun engin ríkisstj. fallast á það, sem hún telur sig ekki hafa þingvilja fyrir. Eins og þetta er nú í frv., þarf að ónáða Alþ. með löggjöf, þar sem annars nægir vilji ríkisstj. Er því einungis um einfaldari aðferð að ræða. Frv., eins og ég vil hafa það, er í samræmi við núgildandi lög um virkjun Sogsins. Þegar Ljósafoss var virkjaður, hefði orðið að leita til Alþ., ef hliðstæð ákvæði hefðu þá verið í lögum, en þá gaf ríkisstj. leyfi sitt og hefur ekki, svo að mér sé kunnugt, sætt neinni gagnrýni fyrir. Ef ríkisvaldið telur sig á sínum tíma fært til að taka þetta að sér, þá synjar það umsókn bæjarráðs, en fari svo, að ríkinu komi betur, að Reykjavíkurbær haldi áfram að annast þessar framkvæmdir, þá er ástæðulaust, að til þess að það megi verða, þurfi sérstök lög. Ég held, að þegar menn athuga þetta, þá sjái menn, að það er að öllu réttara, sem brtt. mínar miða að. Ég tel málinu spillt, ef þær ná ekki fram að ganga, þótt það hafi ekki neina úrslitaþýðingu.