13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

149. mál, virkjun Sogsins

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég vildi aðallega svara einu atriði í ræðu hæstv. samgmrh., en hann virðist ekki vera viðstaddur núna og vildi ég óska þess, að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess að fá hann hingað í d., ef hægt væri.

Ég ætlaði ekki að taka hér til máls við þessa umr., en nokkur orð í ræðu hæstv. samgmrh. gáfu mér tilefni til þess að standa upp.

Þetta rafmagnsmál, sem deilur hefur vakið, er lína sú, sem fyrirhugað er að leggja frá Selfossi og austur í Þykkvabæ árið 1947. Ráðh. talaði um það, að mikill áróður hefði verið gegn þessu máli austan fjalls. Þetta er auðvitað hinn mesti misskilningur, þar eð þetta hefur verið og er mesta áhugamál sveitanna, mál, sem varðar svo miklu, að brýn nauðsyn er á, að það leysist sem allra fyrst, og um það eru menn sammála.

Mþn. í raforkumálum lagði fram frv. til raforkul., en það fann ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. og lét hún þá semja annað frv., sem nú er orðið að l., en það gengur bara ekki eins langt og hitt.

Við vildum, þegar lína væri komin til Eyrarbakka, fá línu þaðan beint austur í Þykkvabæ. En með sínum alkunna dugnaði fékk hv. samþm. minn því framgengt, að línan yrði fyrst lögð heim til hans. Og það er út af fyrir sig fjarri mér að lasta það og raunar ekkert við það að athuga. Ég býst ekki við, að það standi á Rangæingum að verða við þeim kvöðum, sem á þá kunna að verða lagðar í þessu skyni. Og fyrir hálfum öðrum degi var samþ. á sýslufundi Rangárvallasýslu að leggja fé á móti til þessarar línu, og var það samþ. einróma fyrir tilmæli mín.

Hins vegar játa ég, að ýmsir menn líta til þess, hve lítið rafmagn er nú aflags fyrir Reykjavíkurbæ. Og nú stendur hér til að koma upp eimtúrbínustöð við Elliðaár til bráðabirgða. Það má því búast við því, að á næstunni verði lítið rafmagn fyrir austanmenn, þar sem varla er ráð fyrir gert, að þessi stækkun fullnægi þörfum Reykjavíkur. Ég held, að þessi skoðun þeirra austan fjalls sé nokkuð rétt.

Það sló nokkrum óhug á menn fyrir austan, þegar sama kvöldið og sýslunefndinni var skrifað um þessa ákvörðun að leggja línuna austur, kom tilkynning um það í útvarpinu, og hlýtur hún að vera komin frá hæstv. samgmrh. Satt að segja fannst mörgum þessi auglýsing skrumkennd. Mönnum fannst þetta óþarfa bráðræði, þar sem framkvæmdir áttu ekki að hefjast fyrr en 1947. Og sannast mála er það, að það dofnaði yfir vonum manna við þessa auglýsingu. Litið var á þetta sem kosningabeitu. Mér finnst skrýtið að hlaupa svo fram fyrir skjöldu, og margir héldu, að hér væri um auglýsingastarfsemi að ræða. Við væntum þó, að alvara sé á bak við og við þetta sé staðið. En ég þekki hæstv. ráðh. ekki að slíku og ég efast ekki um, að ef þessi hæstv. ráðh. fer með þessi mál, muni honum vera alvara. En eins og málum er nú komið í Soginu og fyrir liggur hér á þskj., þá held ég, að við megum bíða eftir þessu í 4 ár. Það, sem hér liggur fyrir, sú brtt., sem komin er frá Ed., hún er þannig vaxin, að við megum búast við því, að Reykjavík sitji fyrir.

Fyrir rúmum 2 árum síðan sagði hv. 11. landsk., að hann vildi ekki, að sveitirnar fengju rafmagn, því að það mundi seinka fyrir eyðingu þeirra. Þetta sagði hann þá. — Ég býst við, að landsmönnum þyki meiri trygging í því, að ríkið hafi framkvæmdir þessara mála með höndum en einstök bæjarfélög, því að búast má við, að þau vilji skara eld að sinni köku, og er það í sjálfu sér ekkert nema mannlegt. Þess vegna held ég, að mjög nauðsynlegt sé, að breyt. Ed. verði aftur felld úr frv.

Ég vil svo ekki lengur orðlengja þetta meira.

Nú er orðið áliðið þings, og því hefur verið haldið fram, að við framsóknarmenn höfum tafið þingstörfin, en ég held, að ég hafi a. m. k. ekki talað nema 1–2 sinnum á þessu þingi síðan um nýár.