13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

149. mál, virkjun Sogsins

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Þetta verður aðeins lítið, sem ég vildi segja. Það hefur komið fram, að hæstv. samgmrh. og hv. 11. landsk. leggja áherzlu á þá breyt., sem vitanlega er til þess að draga úr því, að sveitirnar austanfjalls fái rafmagn.

Ég vísa á bug, þeirri staðhæfingu hæstv. samgmrh., að ég hafi verið að áfellast hann fyrir aðgerðir hans í. samgöngumálunum. Það er ekkert að þakka eða áfellast, því að hann hefur alls ekkert gert fyrir samgöngumál Suðurlandsundirlendisins.

Þó að pantað hafi verið efni í háspennulínu austur í Rangárvallasýslu, þá er engin trygging fyrir því, að það fari til þess, sem það var fyrirhugað fyrir, eða annað eins hefur maður a. m. k. séð.

Þá vil ég algerlega mótmæla því, að Framsfl. hafi haft það á sínu valdi að leggja þessa línu austur. Aðeins á 2–3 þingum hefur flokkurinn haft meiri hluta, 1931–32, og ef hæstv. ráðh. áfellist flokkinn fyrir það, þá er hann ekki síður að löðrunga sjálfan sig og sinn flokk í þessu máli, því að eina tækifærið hefði þá verið, þegar flokkurinn var í samstjórn með Alþfl. En honum ætti að vera kunnugt, að á þeim árum voru aðrar fjárhagsástæður en nú, þar sem þá voru kreppuár, en nú eru veltiár. Og þó að þetta mikla veltutímabil hafi verið viðkomandi fjárl., hefur lítið borið á framkvæmdum hjá hæstv. ríkisstj., þó að hæstv. samgmrh. hafi hælt sér af framkvæmdum, sem gerðar hafi verið í landinu, enda var eitt stjórnarblaðið nú alveg nýlega að segja það um þennan ágæta samgmrh., að slíkt sleifarlag, sem væri á strandferðunum, hefði aldrei átt sér stað fyrr og væri hreint hneyksli, sem þyrfti að kippa í lag. (Samgmrh.: Það er framsóknarmaður, sem stjórnar þeim). Ég tel víst, að það sé undir yfirstjórn hæstv. samgmrh. Eða kannske hann hafi afsalað sér stjórn á samgöngumálunum, og þá er, held ég, ekki af miklu að láta í þeim efnum fyrir hann? Og það er þess vegna með öllu út í bláinn sagt, að farið sé að framkvæma það, sem hæstv. ráðh. segir, að við framsóknarmenn höfum svikizt um undanfarið. Ég þori að fullyrða, að ábyrgðin er meiri hjá hæstv. ríkisstj. en Framsfl. á því, að ekki er enn farið að leggja þessa línu. Ég er alls ekki umboðsmaður þeirra, sem eiga heima á þessu svæði. En sem búsettur á þessu svæði, sem þessar línur á að leggja til, vil ég segja það, að ég gef ekkert fyrir þær línur frá orkuveri, sem þannig eru, að ekki eru til annars en að æra upp í mönnum sult, þ. e., sem aðeins eru til ljósa. Og það stendur í nál., sem ég tel víst, að sé frá ríkisstj., í grg. um hreinsun og herzlu síldarlýsis, áliti frá forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins, m. a., að Reykjavík muni ekki vera fær um að veita afl til þessarar verksmiðju fyrr en viðbót er komin við Sogsvirkjunina, og hér er greint í þessari grg., að aukning Sogsvirkjunarinnar muni ekki verða fullgerð fyrr en 1950. Og ef Reykjavík getur ekki látið raforku til einnar verksmiðju hér í Reykjavík af því afli, sem fyrir er, þá sér hver maður, hvernig það mundi ganga, ef leggja ætti margar línur í viðbót frá Soginu við það, sem nú er, og hvað þær yrðu réttháar í þessum efnum. Þess vegna ætla ég að standa við það, sem ég hef sagt sem einn af búsettum mönnum á þessu svæði, að þetta raforkuleiðslumál fyrir sveitirnar þarna eystra er mest auglýsingaskrum, enn sem komið er. Og ég á eftir að sjá framkvæmdirnar, sem á eftir muni koma. Ég ætla a. m. k. ekki að þakka hæstv. ríkisstj. neitt í þeim efnum fyrr en það kemur í ljós, að þetta mál sé fyrir henni eitthvað annað en orðin tóm.

Þá sagði hæstv. samgmrh., að það væri áróður að segja, að ekkert rafmagn væri til á Selfossi. Er nokkuð rafmagn til á Selfossi? Ég veit ekki til, að þar sé rafmagn til nema frá einum litlum mótor. Og ég hefði vart trúað því, að jafngætinn og glöggur maður og hæstv. samgmrh. er mundi viðhafa fullyrðingar eins og þær, að fullkomlega nægilegt rafmagn væri til í Soginu eins og verið hefur til þessa, því að það er ekkert annað en að stangast við staðreyndir, sem þeir menn vita bezt og hafa fengið að reyna, sem síðast hafa fengið línur til sín þaðan, því að þeir fá þaðan ekki rafmagn nema mjög takmarkað til sinna nota. Og ég get ekki skilið, að meiri trygging mundi vera fyrir þá um að fá rafmagn, sem austar á Suðurlandsundirlendinu búa.

Þá talaði hæstv. samgmrh. um það, að þegar eimtúrbínustöðin kæmi, mundi rakna mjög úr þessu. Ég hef alltaf skilið það svo, að það væri dýrt að framleiða rafmagn með eimtúrbínustöð til að leiða það út um landið. Og ég hef skilið það svo, að bygging eimtúrbínustöðvar hér í Reykjavík mundi eingöngu vera miðuð við, að það væri varastöð til þess að grípa til, þegar vantar rafmagn, en ekki til þess að selja rafmagn. Og að hæstv. samgmrh. skuli grípa í þetta hálmstrá, sýnir ljóst, hve málstaður hans er lítils virði, — þessi maður, sem ekki þurfti áður, ef hann varði góðan málstað, að grípa til slíks. En það var reyndar áður en hann komst í þann félagsskap, sem hann nú er í.

Þá vil ég aðeins svara hv. 11. landsk. þm. örfáum orðum, sem kom hér með mjög mikla umvöndun í minn garð, og sagði, að komið hefði í ljós, að ég hefði ekki kynnt mér málið, og þess vegna væri í raun og veru skylda að láta mér upplýsingar í té. Ég efast um, að sá hv. þm. hafi lesið þetta frv. fyrr en um leið og það var tekið fyrir nú við umr. En það þykir mér hart frá hans hendi — og ég verð að segja: Heyr á endemi! — þegar hann bregður öðrum þm. hér um það, að þeir hafi vanrækt að setja sig inn í mál, sem hér koma til meðferðar. Ég hef ekki séð neitt sérstakt ljós skína frá þessum hv. þm., sem gefi mér tilefni til að halda, að hann sé fær um að fræða aðra, því að oftast þegar ég hlusta á þennan hv. þm. verður það til þess frekar að rugla mig — í hvaða máli sem er — heldur en að gera mér glögga grein fyrir því: Hygg ég, að margir aðrir hv. þm. geti sagt það sama. — Hv. 11. landsk. þm. sagði, að skylt væri að láta í té utan Reykjavíkur rafmagn, bæði eftir nýju og gömlu l., með kostnaðarverði og jafnrétti við Reykjavík, — hann sagði að vísu: „með kostnaðarverði o. s. frv.“ En hvað var það, sem átti að felast í þessu „og svo framvegis“? Ætli það hafi ekki verið eitthvað, sem dró úr jafnréttinu? Því að ég veit ekki betur en heimilað sé í l., að Reykjavík megi leggja á þetta rafmagn eins og heildsalar gera, til þess að græða á hinum, sem eiga að fá orku frá verinu. En það mátti bara ekki nefna, hvað þetta „og svo framvegis“ var, en það er þetta, sem ég tók fram. Og það þarf náttúrlega engan að furða, þó að þeir, sem í Reykjavík búa og telja sig fulltrúa Reykjavíkur, vilji fá þá aðstöðu gagnvart öðrum um raforkusölu, sem heildsalar hafa um álagningu gagnvart öðrum. Þetta er mjög mannlegt. En ég sem einn þeirra manna, sem búa á þessu svæði, sem talað er um hér að leiða rafmagn til, neita réttmæti þessarar sérréttindaaðstöðu Reykjavíkur, bæði í þessu máli og öðrum viðkomandi Suðurlandsundirlendinu. Hún er ekkert jafnrétti eða réttlæti, heldur yfirgangur og ranglæti, og því lengur sem henni er haldið áfram og þessari aðstöðu er mælt bót af fulltrúum eins og hv. 11. landsk., því fyrr er þess að vænta, að það muni verða mynduð þau samtök, sem geta líka talað sínu máli gagnvart Reykjavík.

Hæstv. samgmrh. var að tala um, að við hefðum rætt um það, þegar ekki væri betur um þessi mál séð en gert væri, að þeir, sem búa austan fjalls, hefðu sína raforkustöð sjálfir. Ég hef verið því fylgjandi, að þeir á Suðurlandsundirlendinu hefðu rétt til þess að eiga sína raforkustöð, alveg eins og Reykjavík á sína. Og ef þannig á að jafna aðstöðumun, sé ég ekki annað en að við séum á réttri leið. — En hvað vakir á bak við þetta, kemur bezt í ljós í þeim ummælum, sem hv. 11. landsk. þm. hefur haft hér á hæstv. Alþ., að ef greiða ætti fyrir því, að sveitirnar fengju rafmagn, yrði það til þess að tefja fyrir því, að þær færu í eyði. Það er einmitt þessi hugsunarháttur, sem kemur fram hjá hv. 11. landsk., að það sé einmitt það, sem stefna eigi að, að reyna að tæma sveitirnar meir og meir. Og einn af flokksmönnum þessa hv. þm., sem hér sat á þingi áður, lét einu sinni svo um mælt, að það væri hið mesta ólán, að nokkurn tíma skyldi hafa sprottið nokkurt strá á þessu landi. Og hugurinn til sveitanna mun enn vera svipaður hjá þessum flokki. En ég vil nú segja það þeim, sem hér vilja ekki ganga inn á það, að jafnrétti fáist fyrir alla, sem þurfa að nota virkjun Sogsins, að það er hægt að brýna svo deigt járn, að það bíti. Og ég hygg, að það muni kannske ekki ganga eins greiðlega að tæma sveitirnar og hv. 11. landsk. þm. og aðrir, sem hafa sama hugsunarhátt, gera sér hugmynd um, að hægt sé í þessu efni.

Um þetta raforkumál duga engar ráðherrayfirlýsingar. Þær hafa ekki reynzt vel haldgóðar, eins og kunnugt er. Og ég hygg, að það muni varla þekkjast í nokkru landi, að ráðherrayfirlýsingar hafi komið hver á móti annarri frá einni og sömu ríkisstj., þar sem ráðh. hafa sagt hver annan segja ósatt, nema hér. Og þjóð, sem búin er að búa við slíkt stjórnarfar í nokkur ár, er ekki ákaflega ginnkeypt fyrir einhverjum verzlunartilkynningum, þó að þær eigi að heita tilkynningar frá ríkisstj. Þjóðin er farin að líta svo á, að ef það er fyrirsögn fyrir einhverju máli, að það sé tilkynning frá ríkisstj., þá sé ástæða til þess að leita sér frekari upplýsinga um sannleikann í málinu.