13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

149. mál, virkjun Sogsins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú sjálfsagt tilgangslaust að elta ólar við þennan hv. þm., sem síðast talaði, þm. V.-Sk., því að hann talaði eins og maðurinn, sem sagði, að hann væri ekki hingað kominn til þess að láta sannfærast. (SvbH: Er þetta ný tilkynning frá ríkisstj.?). Ræða hv. þm. V.-Sk. gaf mér fullkomið tilefni til þessara orða, því að svo berlega snýr þessi hv. þm. við því, sem ég veit, að hann veit betur um málið, og því, sem sagt var hér áðan, að ég þarf ekki að leiða frekar rök að því. — Þegar ég kom hér inn í deildarsalinn áðan, var það hið fyrsta, sem ég heyrði hv. þm. tala um, að ríkisstj. hefði í frammi óhæfilega auglýsingastarfsemi í sambandi við raforkuframkvæmdir og að ekkert afl væri til aflögu í Soginu — og ég tala ekki um á Selfossi. Þess vegna væri það gabb og blöff hjá ríkisstj. að tala um að leggja nokkra rafmagnsleiðslu út frá þessum stöðum. Og hv. þm. V.-Sk. leyfði sér að áfellast það sleifarlag, sem hann sagði, að væri á raforkuframkvæmdum hjá ríkisstj., og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri heppilegra fyrir þessi héruð austan fjalls að virkja sjálf en að eiga nokkuð undir þessum framkvæmdum ríkisins. Mér virtist hv. 1. þm. Rang. taka þessu miklu skynsamlegar í sinni ræðu. Hef ég ekki við þá ræðu að athuga nema tvö atriði. Skal ég víkja fyrst að ræðu hv. þm. V.-Sk. — Hann sagði eitthvað á þá leið, að í þessum málum væri ríkisstj. ekkert að þakka eða vanþakka. Þetta getur verið rétt á vissan hátt. En svo sagði þessi sami hv. þm.: Eða hvað hefur verið gert? Þessum hv. þm. til leiðbeiningar skal ég upplýsa, hvað hefur verið gert í rafmagnsmálum þessa landshluta upp á síðkastið. Það hefur verið ákveðið að leggja línu til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar, og haft hefur verið samstarf við héraðsstjórnir á þessum stöðum um þetta. Ákveðin hafa verið fjárframlög í þessu skyni og ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir viðkomandi héruð, til þess að þau geti lagt fram fé að sínum hluta til þessa kostnaðar. Gerður hefur verið út maður til útlanda til þess að kaupa efni í þessar raforkuveitur. Það er svo nýlega gert, að það er ekki farið að leysa þetta efni út á staðnum, en allur undirbúningur er fenginn til þess að línan komi upp, þegar efnið kemur til landsins. — Náttúrlega getur hv. þm. V.-Sk. sagt, að hann trúi engu af þessu. En hann verður þá bara að bíða, þangað til hann sér það. Og þá fyrst getur hann áfellzt ríkisstj., ef hún svíkur og víkur um framkvæmdir frá því, sem hér hefur verið sagt. Hann getur fengið sannanir fyrir því, að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar, bæði hjá ríkisstj. og rafmagnseftirliti ríkisins. Og ég undrast, að þessi hv. þm. skuli ekki telja, að gerðar séu framkvæmdir í einhverju slíku máli fyrr en farið er að vinna í sjálfri línulagningunni, því að mikið verk liggur jafnan fyrir að framkvæma áður en svo langt er komið málum. Auk þessa var svo samþ. hér á hæstv. Alþ. heimild fyrir ríkisstj. til þess að nota kringum 2 millj. kr. til þess að leggja fram í línu frá Selfossi og austur um Árnessýslu, austur í Holt, sem skiptist þar yfir í Þykkvabæinn og til Hellu á Rangárvöllum, en þó þannig úr garði gerðar línurnar, að halda mætti þeim áfram austur um sýsluna, þegar hentugt þætti. Síðan hefur ríkisstj. ákveðið að nota þessa heimild og það hefur verið tilkynnt viðkomandi héraðsyfirvöldum í Árnes- og Rangárvallasýslum, þannig að það liggja fyrir hjá sýslumanni Árnessýslu og sýslumanni Rangárvallasýslu skilríki um, að ríkisstj. hefur ákveðið að nota þessa heimild og spurzt fyrir um, hvort viðkomandi héruð vildu leggja á móti þann hluta fjárframlags, sem lög gera ráð fyrir, og hefur nú — að vísu ekki alveg ákveðið — annað þessara héraða svarað þessu þannig, að þeir vilji, að þetta verði gert, og þakka ég þeim það ekki, þar sem ríkissjóður leggur fram 3/4 hluta fjár til framkvæmdanna, en héruðin eiga að leggja fram ¼ hluta. — Í þessu sambandi hefur verið minnzt á, að hér væri um auglýsingastarfsemi að ræða. Ég hef, eins og ég sagði áðan í minni fyrri ræðu, ekki sett eina einustu auglýsingu eða blaðagrein af stað um þetta mál, annað en það, sem ég man eftir, að ég í Ed. í yfirlitsgrein um þingmál gaf leyfi til að hafa eftir mér um þetta mál. Um þá útvarpstilkynningu, sem valdið hefur hneykslun hér í hv. þd., get ég ekkert vitað, og vissi ekki um hana fyrr en ég hlustaði á hana. Hún er ekki undan mínum rifjum runnin og var ekki undir mig borin, enda sum atriði hennar þannig, að hún stenzt ekki veruleikann. Ég veit ekkert, hver að þessari útvarpstilkynningu hefur staðið, og það var a. m. k. ekki ráðuneytið og ekki ég, og vil ég þess vegna ekki, að ég sé neitt við hana bendlaður, enda hef ég enga auglýsingastarfsemi haft með höndum í þessu máli, því að fyrir mér hefur ekkert vakað annað en að koma þessu máli áleiðis svo fljótt sem unnt væri, þó að hv. þm. V.-Sk. telji það ólíklegt.

Hv. þm. V.-Sk. gekk svo langt, að hann fór að skýra frá því, að það væri aðeins til einn lítill mótor á Selfossi til raforkuframleiðslu, svo að það væru ákaflega litlar líkur til, að lína frá Selfossi gæti bjargað þeim fyrir austan með rafmagn, því að mér skildist hann telja, að þessi litli mótor gæti varla annað að fullnægja þörfum fyrir rafmagn á staðnum. Hér mælti hv. þm. mjög á móti betri vitund, því að hann veit, að það hefur engum dottið í hug að leggja línu frá þessum mótor. Hann veit, að það er fyrirhugað að leggja línu frá Soginu að Selfossi og svo frá Selfossi línu austur í sveitir. Þetta er því hreinn útúrsnúningur hjá hv. þm. og sú málsmeðferð, sem ekki er öðrum sæmandi en honum og verður ekki tekin alvarlega hér í hv. d.

Þá sagði hv. þm. V.-Sk., að sú eimtúrbínustöð, sem hér ætti að byggja í Reykjavík, mundi eingöngu verða varastöð, og kæmi þess vegna ekki til mála að geta veitt rafmagni austur um sveitir frá henni, enda muni vera óheppilegt að framleiða rafmagn hér með kolakyndingu og leiða það síðan austur á þá staði, þar sem héruðin eigi að fá raforku frá vatnsorkuveri. Hér ber að sama brunni, að hv. þm. V.-Sk. reynir að villa um staðreyndir eins og hann frekast getur. Rafmagnsnotkunin hér er ekki alltaf jöfn. Hún er stundum meiri og stundum minni, og það getur verið nokkrar klukkustundir á dag, sem venjuleg rafmagnsframleiðsla yfir sólarhringinn er ekki nóg fyrir bæinn, og þessari varastöð er ætlað að taka álagið, þegar það fer fram úr því, sem Sogsstöðin getur annað. Og við það, að þessi varastöð tekur að sér að sjá fyrir rafmagnsþörfinni meðan þetta ástand varir, þá verður það auðvitað til þess, að afgangur verður aftur af rafmagni við Sogið til þess að fullnægja rafmagnsþörf fyrir austan. Þetta veit ég, að hv. þm. V.-Sk. skilur, og hans málflutningur í þessu efni er því hreinn útúrsnúningur hjá honum.

Hv. þm. V.-Sk. vitnaði einnig í skýrslu, sem legið hefur frammi í þinginu frá atvmrh., sem er grg. um verksmiðju til herzlu síldarlýsis, og greindi hann úr þessari skýrslu frá því áliti rafmagnseftirlits ríkisins, að sú aukning, sem fyrirhuguð væri á Sogsvirkjuninni og nemur 30–35 þús. hestöflum, mundi ekki verða fyrr en árið 1950, og vildi hann aftur með þessu sanna, að þessi virkjun, sem hér um ræðir, kæmi langt of seint, og á meðan væri ekki á neinn hátt séð fyrir þessum auknu þörfum. En hann las ekki það, sem stendur nokkrum línum framar og gerbreytir málinu í þessu sambandi, þar sem gert er ráð fyrir, að við raforkuframleiðsluna í Reykjavík bætist 7500 kw. toppstöð. En raforkuþörfin til þessara staða, Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyrar og í Holtin og Þykkvabæinn og til bæjanna þar í kring, er sjálfsagt um innan við 1000 kw. M. ö. o. það, sem ætlað er að bæta við Sogsstöðina til nota fyrir austan, er aðeins 1/7 partur af því, sem á að bæta við raforkuframleiðsluna hér í Reykjavík á næsta vetri. Þannig er fullkomlega séð fyrir því, að sú aukning á álagi, sem kemur frá þessum stöðum fyrir austan, Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri og byggðunum, sem ég nefndi áðan, er aðeins örlítið brot af því, sem bætt verður við raforkuframleiðsluna hér í Reykjavík. En um þetta las hv. þm. V.-Sk. ekki úr sama plaggi og hann las upp úr áðan, sjálfsagt viljandi, af því að hann vildi ekki láta þetta koma fram.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að Framsfl. hefði ekki verið hér í meiri hluta síðan Sogið var virkjað, og það er víst nokkuð rétt, sem betur fer. En þó ætla ég, að ef Framsfl. hefði viljað beita sér fyrir málinu, — og að sjálfsögðu hefði honum staðið það næst, — þá mundi ekki hafa staðið á fylgi við málið, ef sá flokkur hefði viljað koma því fram, því að hann mun hafa átt flesta fulltrúana úr þeim héruðum, sem hér er um að ræða. Og að ég hafi á nokkurn hátt viljað löðrunga minn eigin flokk í þessu máli, kemur ekki til mála, því að hann hefur ekki staðið á móti því, að þetta yrði gert.

Hv. þm. V.-Sk. gekk svo langt, að hann fór að tala um strandferðirnar í þessu sambandi og tók upp ummæli blaða um ásigkomulag strandferðanna. Ég skal nú ekki hafa um það mörg orð. En ég vil aðeins segja þessum hv. þm. það í trúnaði, sem reyndar allir mega vita, að mér hafa borizt ákaflega margar kvartanir um rekstur strandferðanna á síðustu tímum, og margir hafa sitt hvað við þær að athuga, og margir af þeim beina þeim aðfinnslum gagnvart forstjóranum, sem er framsóknarmaður, Pálma Loftssyni. Ég hef tekið þá afstöðu gagnvart þessum kvörtunum, að ég hef heldur reynt að bægja þeim frá en hitt, og reynt að bæta úr, án þess að til örþrifaráða hafi þurft að grípa. En ræður eins og sú, sem hv. þm. V.-Sk. nú hélt, örva sannarlega ekki til þeirra hluta.

Sem sagt, allt þetta tal hv. þm. V.-Sk. er fyrir mér aðeins augljóst merki um upprifnar taugar og slæman málstað. Þeir finna það, hv. þm. Framsfl., að þeir hafa ekki staðið vel að málinu, og að dómur þjóðarinnar er yfir þeim vofandi. Þess vegna þurfa þeir nú að gera ágreining út af aukaatriðum í þessum efnum. En aðalatriði málsins eru þau, að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að koma þessum málum af stað og á þann hátt, að hægt er að auka þarna við framkvæmdir, þegar ákvörðun verður um það tekin á sínum tíma að teygja þessar línur út um þessar viðkomandi sýslur. Og ég hef lagt fyrir rafmagnseftirlit ríkisins fyrir nokkru að gera áætlanir um raforkuleiðslu frá Soginu um ýmis þéttbýlustu héruð Árnes- og Rangárvallasýslu, og ef þær athuganir sýna, að hægt verði að leggja þessar línur, geri ég ráð fyrir, að stefnt verði ákveðið að því að ráðast í þær, því að ég hef þá trú, að ef nokkrar sveitarafveitur geta komizt á á Íslandi, þá sé það í Árnes- og Rangárvallasýslum.

Mér finnst engin alvara felast á bak við allar þær kynlegu aðfinnslur hv. framsóknarmanna í þessum málum, sem þeir hafa sett fram. Ég hélt því fram í minni fyrri ræðu, að það væri verið að reyna að koma af stað áróðri heima í viðkomandi héruðum, til þess að reyna að gera framkvæmd þessa máls tortryggilega. Hv. þm. V.-Sk. vildi mótmæla þessum áróðri austan fjalls á móti málinu, eins og hann orðaði það. En ég sagði ekki, að þessi áróður væri á móti málinu, heldur til þess að gera aðgerðir ríkisstj. í málinu tortryggilegar, þ. e. a. s. framkvæmd málsins, og það staðfesti hv. 1. þm. Rang. í gær, því að hann sagðist hafa orðið að beita sér fyrir því, að samþykkt fengist einróma fyrir því, að þetta yrði framkvæmt, og mér skildist, að sú samþykkt hefði fengizt aðeins vegna þess, að hann beitti sér fyrir því, því að þessi hv. þm. sagði : „Þessi samþykkt fékkst einróma fyrir. eindregin tilmæli mín.“ En ég treysti honum til að sjá, að þetta er skynsamlegasta lausn málsins, og þess vegna hefði það verið málinu til ills, ef ágreiningur hefði verið um samþykkt þess heima fyrir, og það ber að hindra, að þessi áróður beri þann árangur, að málinu verði stofnað í voða, því að allir eru sammála um, að þetta beri að gera, þó að reynt sé af sumum að gera framkvæmd málsins tortryggilega. Annars sneri sá hv. þm., 1. þm. Rang., ræðu sinni mest um auglýsingastarfsemi, sem hann var að tala um, að hefði verið í sambandi við þetta mál, eins og reyndar hv. þm. V.-Sk. minntist á líka. En hv. þm. V.-Sk. talaði um útvarpsauglýsingu, sem birt hefði verið, þannig eins og hún lægi fyrir frá mér. (SvbH. Nei, ég hef aldrei sagt þetta). En ég hef aldrei staðið að henni.

Hv. þm. V.-Sk. sagðist hafa verið fylgjandi því frá upphafi, að sveitirnar fyrir austan ættu sína eigin rafstöð. Ég vildi óska, að hv. þm. V.-Sk. vildi beita sér fyrir þessu. Því að ef þeir þar eystra treysta sér til að reisa sína eigin stöð og reka hana á allan hátt, þá skal ég ekki vera meinsmaður þess. En þessi hv. þm. veit, að á því yrði verri útkoma en með því að fá rafleiðslu frá Selfossi.

Ég hef í þessum umr. ekki farið inn á efni frv., enda þarf þess ekki að þessu sinni. En út af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um aðstöðu sveitanna og aðstöðu Reykvíkinga til þessarar virkjunar og til þess að fá rafmagn frá þessari virkjun, skal ég leyfa mér að vísa í ákvæði 6. gr. frv. og einnig í 7. gr. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er henni“ — þ. e. Sogsvirkjuninni — „einnig að láta í té raforku við stöðvarvegg í orkuverum og við afspennistöðvar til almenningsnota utan Reykjavíkur við kostnaðarverði og að viðbættum allt að 5%.“ Þetta er þessi heildsalaálagning, sem hv. þm. V.-Sk. er að tala um. En hvernig er svo þessi heildsalaálagning? Það stendur hér strax á eftir því, sem ég las áðan : „Þetta verð má þó aldrei fara fram úr því, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur borgar fyrir raforkuna miðað við afhendingu á sama stað.“ M. ö. o., raforkuveitum fyrir austan fjall er tryggt rafmagn fyrir nákvæmlega sama verð og Reykjavík fær það á, og Reykjavík er skyld til að láta alla, sem búa á þessu svæði, fá rafmagnið alveg á sama hátt og Reykjavík og með sama verði, og það er kostnaðarverð að viðbættu í hæsta lagi 5%. — Nú kann hv. þm. að segja: Sogsvirkjunin getur safnað í sjóð á þennan hátt. En þá stendur í 7. gr., hvernig með skuli fara, þegar þessi sjóður hefur safnazt. Þar stendur: „Nú hefur virkjuninni safnazt varasjóður, þegar ríkissjóður verður meðeigandi hennar samkvæmt þessari grein, og verðar hann þá eign Reykjavíkurbæjar og ríkissjóðs að réttri tiltölu við greiðslur þær, er sjóðurinn hefur myndazt af, frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur annars vegar og notendum utan hennar hins vegar.“ Það er svo nákvæmlega eins í þessu tilfelli réttur Reykvíkinga og réttur ekki Reykvíkinga. Þeir fá hvorir um sig rafmagnið jafndýrt. Og sömu reglur gilda um báða aðilana, ef varasjóður safnast, því að þá á hann að skiptast eftir sömu hlutföllum á milli þessara aðila og til hans hefur verið stofnað af þeim. Þetta ranglæti, sem notendum rafmagnsins utan Reykjavíkur á að vera skapað með þessu, sé ég því ekki, að sé til, heldur eru aðfinnslur út af þessu atriði einungis til þess að reyna að — finna upp eitthvað til þess að gera málið tortryggilegt og til þess að reyna að búa til átyllu til þess að halda því fram, að ekki sé allt með felldu í framkvæmd málsins. Og hv. Framsflm. virðist koma illa það, sem verið er að framkvæma í þessu máli.

Þá hef ég rakið öll þessi atriði, sem á hefur verið minnzt. Ég hef ekki gert það af því, að ég búist við að geta sannfært hv. þm. V.-Sk., því að ég tel, að undir vissum kringumstæðum sé alveg útilokað að reyna það. En ekki að síður tel ég rétt, vegna annarra hv. þdm., að þessar upplýsingar komi fram, svo að þeir, sem vilja, geti myndað sér um málið hlutlausa og heilbrigða skoðun.