13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

149. mál, virkjun Sogsins

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. endaði orð sín á því, að það mundi vera útilokað, að hægt væri að sannfæra mig um það, sem hann taldi rétt vera. Ég vil bera honum allt annað. Ég er búinn að sannfæra hann um, hvað rétt er í þessu máli, þó að hann vilji ekki viðurkenna það. Ég þekki hæstv. samgmrh. að því að vera það skilningsgóðan mann, að hann yfirleitt þekki rök frá falsrökum. Og þegar ég heyri, að hann vill stangast á við staðreyndir, þá er það ekki annað en að vilja berja höfðinu við steininn. Hitt hef ég heyrt á ræðu hans, að hann er sannfærður um margt af þeim falsrökum, sem hann fer með. Hann bendir t. d. á 6. og 7. gr. frv. og segir, að með þessum ákvæðum, sem hann greindi, sé tryggt jafnrétti fyrir sveitirnar annars vegar og Reykjavík hins vegar í þessum málum, þó að leyfð sé þessi heildsöluálagning, 5%, á alla raforku, sem framleidd er til sveitanna. En hvers vegna stendur þá ekki, að það sé skylt að láta það með kostnaðarverði? Fær Reykjavík það ekki með kostnaðarverði? Er hún látin borga eitthvað það, sem fram yfir er kostnaðarverð á þessu? (Samgmrh.: Já). Og enn fremur vil ég spyrja: Ef sjóður myndast við þetta fyrirtæki, er þá tilætlunin; að menn fái úr þessum sjóði eftir því, sem menn hafa í hann lagt? Er hæstv. samgmrh., jafnglöggur maður, enn að því að bera það á borð fyrir hæstv. Alþ., að ekki sé hægt að verja hagnaði af fyrirtækinu til neins annars en að leggja það í sjóð? Hvernig stendur á, að hæstv. samgmrh. fer með slík falsrök eins og þessi? Eins og Reykjavíkurbær — ef hann hefur hag af rekstri orkuversins, sem hann á við Sogið, sem getur skipt hundruðum þús., sem hann getur haft á ári — geti ekki notað það fé til annars en að leggja það í sjóð, t. d. til að bæta sína línu og sína aðstöðu í þessu efni og bæta orkuverið til sinna þarfa, bæði leiðslur, línur og annað. En eftir þessu er öll málfærsla hjá hæstv. ráðh., að það muni ekki vera hægt með nokkru móti að koma fyrir hagnaði einhvers fyrirtækis með öðru en því að leggja það í sjóð. Þetta sýnir, hve bágborinn málstaður hæstv. samgmrh. er.

Þá sagði hæstv. samgmrh., að okkur framsóknarmönnum virtist koma það illa, sem verið sé að gera í þessum málum. Ég get ekki séð, að nokkrum manni geti komið illa það, sem ekkert er. Og hann talaði um yfirlýsingar. Það hefur ekkert komið fram af framkvæmdum ríkisstj. í málinu annað en yfirlýsingar, engar raunhæfar framkvæmdir í málinu. Og ef þessi hæstv. ríkisstj. t. d. hefði ekki traust þjóðarinnar til þess að halda áfram í þessu máli, þá sé ég ekki, að hún væri búin að afreka nokkurn hlut í þeim efnum, annað en að gefa út sínar venjulegu auglýsingar og yfirlýsingar.

Það er rangt hjá hæstv. samgmrh., að ég hafi sagt, að hann hefði gefið út þá tilkynningu, sem birt var í útvarpinu og minnzt hefur verið á í þessum umr. En hæstv. samgmrh. sagði líka, að hún hefði ekki verið sannleikanum samkvæm, þannig að ástæða var til, að ýmsir hefðu haldið, að hún væri frá ríkisstj.

Þá sagði hæstv. samgmrh. um austursveitirnar, að þessar línur, sem fyrirhugaðar eru fyrir austan, mundu ekki þurfa nema á 1000 kw. rafmagni að halda. Ég veit ekki, hvaðan sú fræðsla er komin, en einkennilegt þykir mér þetta, eftir rafmagnsþörf annars staðar, því að ég hygg, að á þessu svæði búi 3000–4000 manns, og það hefur held ég aldrei verið reiknað með minna en 750 w. rafmagnsnotkun á mann, þar sem minnst er notkunin, og allt upp í 1000 wött á mann, og fyrir Reykjavík er þessi notkun reiknuð miklu meiri. Þessar tölur virðast því vera út í bláinn.

Ég sé svo ekki, að nokkur ástæða sé til að ræða þetta nánar. Það er búið að sýna sig, hvað á bak við býr í þessu máli hjá hæstv. ríkisstj. Og það vildi ég fá fram og ekkert annað, svo að menn geti eftir því greitt atkv. Og ég hygg, að þeir, sem að brtt. standa, telji hana stórmál.