13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

149. mál, virkjun Sogsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma í að ræða það, sem fram hefur komið hjá hæstv. samgmrh., enda hefur það verið gert af öðrum. Það er líka svo með hann, að ef minnzt er hér á sleifarlag á framkvæmdum vissra mála, sem heyra undir hans ráðuneyti, þá reynir hann að koma því á sinn undirmann. En hv. 11. landsk. talaði hér áðan og gat um störf raforkumálan. og raforkul., sem nú eru nýafgr. frá þinginu. Ef einhver ókunnugur hefði hlýtt á þessa ræðu hans og tekið mark á orðum hans, hlyti sá maður að álíta, að þessi hv. þm. væri mikill afreksmaður í rafmagnsmálum og eiginlega, að það, sem gert hefði verið í þeim málum, væri hans verk. En ég held, að þetta væru alrangar hugmyndir um afrek þessa hv. þm. Það var nú þannig með hans starf í mþn. í raforkumálum, að hann klauf sig þar frá öðrum nm. og skilaði nál., sem hann kallaði svo. En þetta svo kallaða nál. var nær eingöngu skætingur um okkur hina nm. í mþn., sem höfðum skilað okkar frv., en till. um framkvæmdir var þar ekki að finna. Þegar frv. það til raforkulaga, sem nú er nýlega afgreitt, var lagt fyrir þingið í vetur, bar það með sér, að mörg atriði úr frv. okkar, sem vorum í mþn., höfðu þar verið tekin með, og að mörgu leyti hafði verið höfð hliðsjón af því frv. við samningu þessa frv. Að vísu vantaði þar mörg þýðingarmikil ákvæði, sem voru í okkar frv. En þáttur hv. 11. landsk. í þessu máli nú á þinginu hefur verið þannig, að hann yfirleitt hefur verið í fararbroddi þeirra manna, sem hafa reynt að spilla fyrir og beita sér á móti breyt. til bóta, sem fram hafa komið í málinu. Þetta eru hans afrek í málinu, og er ekki ástæða til að öfunda hann af frammistöðunni.