13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

149. mál, virkjun Sogsins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég þakka hæversku hv. 2. þm. N.-M. Ég hef ekkert við það að athuga, þó að hann þakki mér fyrir þau orð, sem ég lét falla um Framsfl., því að ég hef ekkert sagt annað en það, sem mér þótti rétt og skylt að minnast á, að ég taldi, að Framsfl. hefði borið að gera þetta, því að það væri í samræmi við það, að þeir áttu, þegar þessi mál voru til umr., flesta fulltrúa á þingi frá þessum héruðum, og það var ástæðan fyrir því, að ég taldi þessi mál liggja Framsfl. næst.

Þá skal ég nokkuð víkja að því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði. Hann vildi andmæla því, að nokkur áróður væri hafinn austan fjalls gegn málinu. Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki heyrt getið um þann áróður í sambandi við Árnessýslu, en ég hef heyrt, að nokkur áróður væri fyrir því í Rangárvallasýslu að telja, að málið sé einungis auglýsingastarfsemi og þess vegna sé bezt fyrir Rangæinga að snúa sér að virkjun heima fyrir. Þetta hef ég eftir skilorðum mönnum úr Rangárþingi. Það var þetta, sem ég meinti með því, að nokkur áróður væri hafinn til þess að gera málið tortryggilegt í þessu héraði. Ég veit ekki, hve mikil brögð eru að þessu, en þannig var málið flutt í mín eyru og er ég tilbúinn að greina að því heimildarmann.

Þá taldi hv. þm., að um nokkurn misskilning væri að ræða um skiptingu varasjóðs Sogsvirkjunarinnar, ef til kæmi, að hún yrði sameign Reykjavíkurbæjar og ríkissjóðs. Þessu yrði nokkuð misskipt, þar sem Reykjavík fengi endurgreiddan sinn hlut framlagsins, en einstaklingar fengju ekki sinn hlut, heldur rynni hann til ríkisins. Ég held, að ekki sé um neinn misskilning að ræða í þessu sambandi, því að þannig er málum skipað eftir frv., að þessum varasjóði er skipt milli Reykjavíkurbæjar fyrir hönd þeirra umbjóðenda, sem hann rekur rafveitur fyrir, og ríkissjóðs til rafveitna ríkisins, vegna þeirra umbjóðenda, sem hann hefur. Þessu verður þannig skipt milli tveggja stofnana, sem hafa með höndum rekstur þeirra rafveitna, sem taka að sér það, sem Sogsvirkjunin tók að sér áður, og borgarar Reykjavíkur fá ekki útborgað þetta fé, heldur er það skrifað á reikning rafveitu Reykjavíkur, og hinir fá ekki heldur útborgað, heldur færist féð á reikning rafveitna ríkisins. En báðir aðilarnir, sem greiða í sjóðinn, njóta sinna fjárframlaga í þessum hlutföllum vegna þess, að þeir verða að borga inn til fyrirtækja, sem hafa með höndum rekstur þeirra rafveitna, sem Sogsvirkjunin hafði áður með höndum.