17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

144. mál, Austurvegur

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég tel í rauninni ekki nauðsynlegt að fara nú mörgum orðum um þetta frv., ef maður hefur í huga tvö málsatriði, sem hér koma til greina, annars vegar hina viðurkenndu og miklu þörf á að treysta samgöngur milli höfuðstaðarins og Suðurlandssvæðisins, sem engum blöðum er um að fletta, að er ærin og mikil, og svo hins vegar það, að fyrir stuttum tíma var skipuð mþn., þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu sæti, og þessi n. hefur nú skilað till. um úrlausn þessara mála. Og þar sem n. var að miklu leyti skipuð sérfróðum mönnum og auk þess sérstaklega kunnugum mönnum og hefur mikið starfað að þessu úrlausnarefni og orðið á eitt sátt um niðurstöðu, þá sýnist ekkert annað vera eftir en að ganga á lagið eftir þeim niðurstöðum og treysta málið til framgangs. Þetta frv. er samið í samræmi við álit mþn., svo langt sem það nær, og hvergi vikið frá verulega. Sérstaklega má geta þess, að hér er bætt við því ákvæði, að ef hagur ríkissjóðs virðist ekki svo glæsilegur, þegar til framkvæmdanna kemur, að nægilegt fé yrði fyrir hendi án þess að gengið yrði á aðrar nauðsynlegar framkvæmdir, þá sé ríkisstj. heimilt að taka lán til framkvæmdanna. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að vitanlega er ekki skylt að nota það, heldur aðeins að hafa það í bakhöndinni, ef á þyrfti að halda. Þetta er það, sem er á sérstakan hátt tekið fram í frv. Þegar miðað er við sex ára framkvæmd á þessari miklu vegagerð, eins og mþn. miðar við, að verði gert, þá er það gert með tilliti til þess, hve stórvirk vinnslutæki eru fljótlega og örugglega fyrir hendi, og að sama skapi, hvernig vinnuafli, verkstjórn og verkalýð við þetta mannvirki sé háttað að hverju sinni. Þetta ætti að verða til umbóta á þessari lagasetningu og ekki til annars, því að vitanlega er sanngjarnara og varkárara, að megi hnika þessu til, að ekki sé unnið jafnt öll árin, heldur yrði heimilt að vinna meira annað árið og minna hitt, eftir því sem til hagar um stórvirk tæki og hve mikið er að gera í landinu að hverju sinni. Ég hygg, að þótt þessi varnagli sé sleginn, þar sem þetta er beint eða óbeint sagt í frv., þá verði ekki álitamál, að það sé til bóta að taka þetta fram.

Ég vil fáu einu bæta við þetta, því að ef ætti að lýsa hér með mörgum orðum þeirri nauðsyn, sem er á því, að bæta hér úr, þá er það frá sjónarmiði allra, sem nokkur kennsl bera á, hvað um er að ræða, annars vegar framleiðsla stærsta samfellda framleiðslusvæðis landsins, Suðurlandsundirlendisins, og hins vegar þörf höfuðstaðar landsins. Þarna koma hagsmunir svo margra til greina, að það er ekki of mikið sagt, að það sé hálf þjóðin, og þegar svo langt er komið, þá veit ég, að enginn leyfir sér að halda því fram, að þetta sé héraðspólitík, heldur almenn landspólitík, landshagsmunamál. Því verður ekki á móti mælt, að svona er ástatt um þessa hluti.

Það er ástæða til að taka það fram, að þegar um þessa samgöngubót er rætt, þá hefur þar margt komið til skjalanna og margt komið til álita. Þetta er meira en þrjátíu ára stríð. Það er síðan hingað kom ungur og djarfur verkfræðingur, Jón Þorláksson. Þá byrjaði hann að ræða um járnbrautarmálið. Þá opnuðust sjónir manna fyrir því, að það yrði að opna á traustan hátt þessa leið. Og nú stendur nokkuð sérstaklega á, þar sem n., skipuð sérfróðum mönnum úr öllum þingflokkum, hefur rannsakað málið gaumgæfilega og. gefið út um það nál., sem hefur verið útbýtt meðal allra hv. þm., þar sem allir hv. nm. eru á eitt sáttir um málið og hvernig beri að leysa það.

Ég hef þá að svo stöddu ekki fleira um málið að segja. Ég vona, að hv. þdm. séu ásáttir um, að málið verði ekki að þessu sinni mikið tafið, svo framarlega sem á að vísa því til n., sem ég geri að till. minni, að verði samgmn. þessarar d. Læt ég svo í sparnaðarskyni á tíma máli mínu lokið.