17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

144. mál, Austurvegur

Hermann Jónasson:

Þessi vegur, sem hér er gert ráð fyrir að leggja, er tvímælalaust einhver allra nauðsynlegasti vegur á þessu landi, þar sem hann á að tengja saman aðallandbúnaðarsvæði þjóðarinnar og höfuðborgina, sem er orðin mjög stór og margir mundu segja óeðlilega stór. Þessu máli, samgöngumáli þessa mikla landbúnaðarsvæðis og höfuðstaðarins, verður ekki komið í viðunandi horf nema járnbraut sé lögð eða lagður vegur fyrir stóra bíla, allt upp í 10–12 tonn. Fyrr verður ekki það lag á flutningum milli þessara staða, sem verður að vera á flutningum milli höfuðborgarinnar og stærsta framleiðslusvæðis landsins. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að lögð sé sérstök og óvenjuleg áherzla á þetta, vegna þess hvernig stendur hér á. Tala ég þetta sem þm. fyrir hérað, sem er ekki meðal þeirra, sem þarna eiga að koma til greina. Ég er því þakklátur fyrir, að frv. hefur komið fram. Það hefur nú sýnt sig við þá rannsókn, sem fram hefur farið, að heppilegast sé að leggja veginn í gegnum Þrengslin, og margir, sem hafa farið þá leið í snjóþyngslum, álíta, að þessi niðurstaða sé rétt.

Hvernig það er með vegarstæði yfir forirnar, skal ég ekki segja, en mér er sagt, að þar sé nú landið með allt öðrum hætti síðan það var þurrkað.

Viðkomandi því, að ekki sé dýrara að leggja nýjan veg en að byggja ofan á þann gamla, þá er það ekki óeðlilegt, því að sennilega er mikill hluti gamla vegarins þannig gerður, að hann er ekki steinlagður, en vitanlega er ósteinlagður vegur á þessu svæði gagnslaus, því að þá sker vitanlega niður úr honum seinni part vetrar þráfaldlega, þegar votviðri eru og klaki er að fara úr jörð. Það er því sennilega litlu dýrara að byggja nýjan veg en að laga þann gamla, en vegurinn var einu sinni byggður þannig, að hann var ekki steinlagður, þó að það þyki ófullnægjandi og sé alveg ófullnægjandi fyrir þann þungaflutning, sem nú á sér stað og er gersamlega eyðileggjandi fyrir þá vegi, sem eru ekki steinlagðir.

Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu um þetta mál, sem að vísu er ákaflega stórt mál, sem margt mætti segja um. Hv. flm. sagði í þessu sambandi, að um gönuhlaup hefði verið að ræða, sem ekki tjóaði að tala frekar um. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hér sé átt við Þingvallaleiðina, og mun því vera átt við veginn suður til Krýsuvíkur og austur þá leið. En ég vil aðeins geta þess, vegna þess að nokkuð er um þetta talað í sambandi við þessa vegalagningu yfir Þrengslin, að þetta er ekkert gönuhlaup. Þarna í Krýsuvíkinni er land, sem er kannske eitt af því allra bezta og auðugasta landi, sem þessi þjóð á, og er því ekkert undarlegt, þótt vegur sé lagður um þetta svæði. Vegurinn frá Krýsuvík austur Selvog og til Suðurlandsundirlendisins er mikið mannvirki, en hann er síður en svo nokkurt gönuhlaup, og það er sjálfsagður hlutur að leggja hann, þar sem vitað er, að til hans má áreiðanlega grípa þegar snjór er, þótt hann geti ekki orðið aðalleið, þar sem vegurinn er ekki gerður fyrir mikinn þungaflutning.

Um þetta mál vil ég svo segja það, að þótt flutt sé um það frv., og það er gott, að það kom fram, þá er aðalatriðið, að hægt sé að leggja fram fé til verksins. En allir eru nú sammála um þessa leið, og ég vona, að hv. flm., sem er stuðningsmaður ríkisstj., sjái um það, að peningar verði lagðir fram. En það má vel vera, að nauðsynlegt sé að samþ. till. um lántöku til þess að hægt sé að koma þessu í framkvæmd, ég skal ekkert um það segja á þessu stigi málsins. Ég geri ráð fyrir, að ríkið þurfi að taka lán til svo margra hluta, eins og nú horfir. En ef byggja á þennan veg aðeins fyrir lánsfé, þá gæti svo farið, að dráttur yrði á því, að hann verði byggður.