17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

144. mál, Austurvegur

Magnús Jónsson:

Það er gott að heyra, að þm. Barð. er ekki mótfallinn þessu frv., þótt raunar væri erfitt að skilja það af ræðu hans.

Ég hef alla mína þingmannstíð heyrt hin sömu rök gegn þessu máli, þ. e., hvað mætti gera fyrir þetta fé annars staðar á landinu. Þetta er sterk röksemd fyrir þá, sem úti á landi búa, en hún þarf ekki að vera rétt fyrir því. Þessi framkvæmd þarf ekki að tefja aðrar framkvæmdir, hún getur staðið undir sér sjálf, og þótt fólk úti um land eigi sinn rétt, þá verður að taka tillit til, hvar þörfin er mest. Það eru ekki lagðar dýrar hengibrýr eða önnur fjárfrek samgöngutæki, nema í stórborgum og þar sem umferð er mikil. Hér er um það að ræða að tengja saman höfuðborg landsins, þar sem 1/3 landsmanna býr, og hin stærstu landbúnaðarhéruð í 60 km. fjarlægð. Hér eru fyrir hendi öll þau skilyrði, sem ættu að gera járnbraut nauðsynlega og sjálfsagða, en sú lausn þessara mála hefur ekki enn þá fengið byr hér á Alþingi. En hvað sem því líður, er það ljóst, að þetta 60 km. bil þarf að brúa. Nú er það kunnugt, að miklu getur munað á kostnaði við vegarlagningu eftir því, hvernig vegarstæðið er. En hér skiptir það mestu máli að fá sem beinasta og greiðasta leið, og verður í því tilfelli að ráða það sjónarmið, hvað hagsmunirnir eru miklir.

Það er um þrjár leiðir að ræða, fyrst járnbraut, en frá því virðist nú vera horfið að sinni. Annað er að byggja vandaðan og varanlegan veg, og í því sambandi er rétt, að n. athugi möguleika á að stytta leiðina, t. d. með því að fara mýrarnar í Ölfusinu. Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann gæti fallizt á 4. gr., en ekki meira, en ég vil segja, að þar sem hér er um að ræða framtíðarlausn, þá sé ekki í of mikið ráðizt. Ef Alþ. sýnist, að þetta stefni ekki alls kostar á rétta braut, þá er hægur vandi fyrir það að breyta einhverju, ef hentugra þykir.

Vil ég svo ekki fjölyrða um þetta, en ég vildi eigi láta því ómótmælt, þar sem ég veit af gamalli reynslu, að ævinlega þegar rætt hefur verið um veginn austur, hafa blandazt inn í þær umr. vegamál annarra héraða, hvað þar sé allt í óstandi o. s. frv. En ég segi fyrir mitt leyti, að ég mun ekki láta neitt þvílíkt hafa áhrif á skoðun mína í þessu máli.