01.03.1946
Efri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Með því að ég er meðflm. að þessu frv., tel ég mér rétt og skylt að flytja meðnm. mínum þakkir fyrir þeirra góða skilning á þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um frv. þetta eða niðurstöður n., sem eru, að frv. verði samþ. með einni breyt. Það, sem mestu máli skiptir, er, að n. hefur fallizt á meginrök frv., sem eru þau rök, sem komu fram í rannsókn mþn. Það væri ekki til annars en að eyða tíma til óþarfa að fara að rekja þetta mál hér, þm. er nauðsyn þess of kunn til þess, enda væri það svo langt mál, þó að það hins vegar væri ekki erfitt mál.

Till. mþn. eru ekki handahófstill. í þessu máli, enda hafa þær ekki farið fram í einu. Athuganir um þetta hafa verið gerðar hvað eftir annað um langt skeið. Lagabálkur þessi er því vel undirbúinn af færustu mönnum. Það er líka nauðsynlegt, því að hér er um að ræða stórvirki, sem miklu skiptir, að komi að góðum notum, enda dýrt.

Ég vil drepa hér á eitt atriði, sem er þó að vísu getið um í frv. og einnig í milliþinganefndarálitinu, en ég vil þó greina nokkru nánar frá, vegna þess að það hefur valdið nokkurri gagnrýni í þessari hv. d. við 1. umr., en það var, hvort mþn. hefði komizt að réttri niðurstöðu um vegarstæðið yfir hinar svonefndu Ölfusforir, en þær eru, eins og kunnugt er, mjög blautar og illar yfirferðar, einkum neðan til. Ég hef aflað mér sérstakra upplýsinga um þetta og hvort öruggt sé að leggja veg yfir forirnar. Vitanlega eru þetta foræðisfen, en hið fyrirhugaða vegarstæði er mjög ofarlega eða nálægt hraunbrúninni og er því foræðið þar ekki nærri eins mikið, auk þess sem vegurinn kemur til með að liggja aðeins á stuttum kafla yfir mýri þessa og grundvöllurinn þar er malarlag, þó að nokkur mýri sé ofan á hraunlaginu. Þegar þessi mýri hefur verið ræst fram, telja sérfræðingar þetta vegarstæði öruggt. Það ætti að vera óhætt að trúa þeim mönnum, því að bæði eru það vegaverkfræðingar og framræslulandbúnaðarfræðingar. Það má og benda á það, að þegar járnbrautarlagning austur var til athugunar, töldu sérfræðingar ekkert á móti því að leggja hana yfir þessar forir og það þó allmiklu neðar en vegarstæðið er hugsað.

Þetta eru þau svör, sem liggja næst, að mþn. hefur athugað þetta gaumgæfilega og telur heppilegt að fara þessa leið. — Þá var og í sambandi við þetta tekið fram, að það gætu fundizt staðir, sem vill skefla í, niður í Ölfusið, en með myndarlegri hleðslu á þetta að vera hættulaust, en það má líka breyta til, ef um smáatriði er að ræða.

Þá hefur verið tekið fram, að ekki ríði jafnmikið á öllum atriðum þessa Austurvegar. Það er rétt og samkv. till. mþn., að vegagerðin verði fyrst ákveðin á vissum kafla. Fyrst verður heiðin sjálf brúuð, og er skýlaust tekið fram, að þar skuli framkvæmdir byrja. — Við höfum vísvitandi látið þess getið í nál., að áætlanir mþn. standi óraskaðar þrátt fyrir samþykkt þessa frv.

Að frv. er komið fram um þennan aðalveg er réttmætt og samkv. áliti mþn., sem leggur einmitt áherzlu á framkvæmd þessa vegar og gerir tímaáætlun um hann. Þetta er skýlaust samkv. áliti mþn. Ég tel tvímælalaust rétt að lögfesta þetta, sem er og líka í anda mþn. og eftir niðurstöðum hennar.

Það má geta þess, að við umr. fjárl. síðast var farið fram á það af tómri vinsemd, að veittur yrði 1/6 hluti kostnaðarins, og greiddi ég því atkv., þótt ég væri með lögfestingunni, en það náði ekki samþykki. Ég tel svo miklu máli sem þessu teflt í of mikla hættu með því að fresta því og deila um það við hverjar fjárlagaumr. Hugsunin á bak við þetta er sú, að allur sé varinn góður, ef fjármagn sé nóg fyrir hendi þessi 6 ár, þá sé allt í lagi, en ef út af ber, þá á ekki að láta takmarkaðan greiðslumöguleika úr ríkissjóði verða málinu að fótakefli, og því er lántökuheimildin sett, sem heimild, en ekki skylda.

Það þótti rétt að fella inn í frv. ákvæði eins og gert er í 5. gr. En þó þykir mér rétt að benda á, að gera má meira eitt árið en annað eftir því, hvernig á stendur. Það gæti t. d. staðið svo á, að annað árið væri rétt að framkvæma helmingi meira en hitt sökum þess, hve mikil vinnuorka væri fáanleg.

Ég vil nú geta um þetta, svona undan og ofan af, til skýringar á viðhorfinu, og með skírskotun til athugana mþn.

Það er eitt atriði, sem samgmn. hefur viljað breyta og er á þskj. 481, og tel ég það eðlilega afleiðingu af frv. Það er ekki tekið fram í frv., að gamli vegurinn skuli tekinn úr þjóðvegatölu. Þótti því eðlilegt að taka þetta fram, og var það alveg ágreiningslaust og þótti réttmætt, og því er brtt. á þskj. 481 komin fram, sem þarf engrar frekari skýringar við.

Ég lofaði að vera ekki langorður, en það hefur nú teygzt úr þessu, enda oft meira rætt, þótt um minni mál sé að ræða. Þetta er í eina skiptið, sem þetta mál hefur fengið friðsama athugun, þar sem mþn., skipuð mönnum úr öllum flokkum, hefur orðið sammála um það.

Ég vona svo, að þm. játi við atkvgr., og frv. fái náðar að njóta.