11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Enda þótt þetta sé mjög stórt mál og eitt af stærstu málum fjárhagslega, sem liggur fyrir þessu þingi, get ég verið mjög fáorður í framsögu minni fyrir málinu. Það stafar af því, að meiri hl. n. hefur gefið út nokkuð ýtarlegt nál. um málið á þskj. 288 og einnig vegna þess, að þetta frv. hefur verið ákaflega mikið rætt í Nd. Að vísu er ekki hægt að segja, að það dugi fyrir þessa hv. d., en einnig í þeim útvarpsumr., eldhúsdagsumr., sem nú standa yfir, var þetta mál t. d. mikið rætt í gærkvöld, og má búast við, að það verði enn meira rætt í kvöld. Ég held því, að ég geri ekki annað en spara dýrmætan tíma þingsins með því að sleppa því að ræða málið, þó að ég sé að sjálfsögðu reiðubúinn til umr. um það, ef tilefni gefst til. Ég vil þó segja það aðeins, að þetta mál er í rauninni ekki annað en staðfesting á bráðabirgðal., sem stj. gaf út 2. ágúst í sumar og eru þegar komin í framkvæmd, þannig að í rauninni er ekki um það að ræða, hvort í þessi togarakaup skuli ráðast, heldur er meira um að ræða gagnrýni á stj. fyrir að hafa gert þessa ráðstöfun. Svo er aftur af hinni hálfunni nauðsyn málsins og hve sjálfsagðar þessar ráðstafanir hafa verið. En um sjálft málið er ekki að ræða í rauninni, því að það er þegar samkv. bráðabirgðal. komið svo langt í framkvæmdinni, að aftur verður ekki snúið.

Ég vil svo fyrir hönd meiri hl. n. mæla með því, að þetta frv. verði látið ganga áfram og vona, að á því verði ekki fyrirstaða, því að hvorki í Nd. né hér hefur verið ágreiningur um að afgr. málið sjálft, heldur frekar um einstök atriði þess.