11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

144. mál, Austurvegur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það var í síðustu viku, að mér bárust tilmæli um það frá. hv. þdm. hér, að ríkisstj. léti í ljós álit sitt á þessu frv. Af þessu tilefni vildi ég nú hafa rætt þetta í ríkisstj. á ráðherrafundi og hef enda gert það einu sinni eða jafnvel tvisvar síðan, án þess að nokkur endanleg afstaða hafi verið tekin. Svo að það, sem ég kann að segja hér við þessa umr., er frá mér persónulega og ekki flutt í nafni ríkisstj. allrar, því að það hefur ekki verið gengið frá málinu þar endanlega. En úr því að það er nú hér komið á dagskrá á ný, þá er sjálfsagt, að ég fyrir mitt leyti láti uppi mína skoðun á því.

Fyrst segi ég þá um það, að það, sem einkennir það fyrst og fremst, er, að það er ákaflega stórt og djarfhuga, og sízt er það að lasta. Ég hygg, að þetta sé einhver stærst hugsaða samgöngubótin, sem till. hafa verið gerðar um hér á landi, jafnvel miðað við till. síðustu ára. Það er hér gert ráð fyrir því, að varið verði 4 millj. kr. á ári á næstu sex árum til þess að byggja fullkominn bifreiðaveg með steinsteyptu slitlagi alla leið frá Reykjavík og austur til samgöngumiðstöðvar Suðurlandsundirlendisins, sem er Selfoss.

Ég fyrir mitt leyti skal strax taka það fram, að ég er því mjög hlynntur, að gerður verði góður vegur og fullkominn á þessari leið, vegna þess að umferðin er orðin þar svo mikil, að hún réttlætir jafnvel mjög kostnaðarsamar aðgerðir um vegagerð þarna, því að þær munu geta borgazt á næstunni mjög verulega með sparnaði á tækjum, sem notuð eru til flutninga á þessari leið, fljótari ferðum og minni fargjöldum og slíku. Þetta allt saman virðist vera fyrir hendi, og þess vegna sé þarna í raun og veru grundvöllur fyrir því, að farið sé út í þarfar og stórar aðgerðir á þessu sviði. Ég hygg, að engin leið á landinu sé til önnur, sem jafna megi neitt saman við þessa leið hvað umferð snertir, þ. e. veginn austur yfir fjall. Og hin mikla umferð um veginn er það, sem fyrst og fremst réttlætir þær aðgerðir, sem hér er gert rað fyrir. Vegurinn er gerður fyrir umferðina, og því meiri sem hún er, þeim mun réttlætanlegra er, að kostnaðarsamar ráðstafanir séu gerðar um vegagerð, þar sem umferðin er mest.

En þetta frv. fer að sumu leyti inn á nýjar brautir. T. d. er það algert nýmæli, hygg ég, í lagasetningu um vegagerð, að gert sé ráð fyrir, að langsamlega mestur hluti upphæðarinnar, sem til hennar þarf, sé tekinn að láni. Það virðist, samkv. kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið, að gert sé ráð fyrir, að heildarkostnaður við þessa vegagerð muni verða um 22–24 millj. kr. En þar af er heimild í frv. til þess að taka 20 millj, kr. að láni. — Fleira er líka nýtt í þessu. T. d. er sett ákveðið tímatakmark fyrir því, hvenær veginum skuli ljúka. Það er ákveðið hér, að framkvæmdin miðist við það, að verkinu verði lokið á sex árum. Og það er nú kannske það atriðið, sem ég hygg, að verði erfiðast að uppfylla. Ég geri ráð fyrir, að það mætti, ef allir aðilar kæmu sér saman um að fá þetta fé, sem til þessa þarf. En ég efast um, að það geti orðið, án þess að það gangi út yfir annað, að ljúka þessu á sex árum. Ég hef það fyrir mér í því, að nú eru á fjárl. vegagerðir og brúargerðir og ýmsar opinberar framkvæmdir svo miklar, að ég álít, að engar líkur séu til þess, að hægt verði að fullgera þær framkvæmdir, sem nú eru á fjárl., með þeim mannafla, tækjum og fagmönnum, sem fyrir hendi eru. Þannig að það er þegar séð fyrir, ef ekki verða fengnir menn að, að þá er ekki hægt að ljúka öllum verkefnum, sem fyrir liggja, með þeim mannafla og tækjum, sem fyrir hendi eru. Ef nú að þessu ráði yrði horfið að efna til vegagerðar fyrir 4 millj. kr. á ári aukalega, — það eru ætlaðar 7—8 millj. kr. í fjárl. til nýbygginga vega, — þá mun þetta vera sama og að hækka vegafjárframlagið um rúmlega 50%, enda má gera ráð fyrir, þar sem verkið verður að vinna yfir sumarið, að til þess muni þurfa 200–400 manns. Og ég veit ekki, eins og stendur a. m. k., hvar á að taka þann mannskap. Ég hefði hins vegar talið um þessa vegagerð og samgöngubætur, sem henni yrðu samfara, að í lagasetningu um hana ætti ekki að setja tímatakmark. Eitt okkar mesta vandamál nú er skipting vinnuaflsins og að reyna að haga verkum sem mest þannig, að fólkið yfirleitt geti haft jafna og stöðuga atvinnu. Það er æskilegt að hafa stórverk eins og þetta til þess að jafna atvinnuleysistímabil, ef þau kæmu. Það er ekki víst, að eftirspurnin eftir vinnuafli á næstu tveim til þremur árum verði eins mikil og nú. Og þá væri mjög æskilegt að hafa verk eins og þetta til þess að jafna út eftirspurnina og láta í þetta verk menn, sem annars væru atvinnulausir. Þetta verk er til þess fallið öðrum verkum fremur, þar sem víða má í einu hafa menn við það, og er því mjög teygjanlegt, hvað fæstir eða flestir mættu vinna við það, sem mætti þá vera breytilegt eftir atvinnuástandinu í landinu.

Ég vil minnast á það, að í kostnaðaráætluninni um þennan veg eru gerðar mismunandi áætlanir, með mismunandi sementsverði. Eins og menn sjá á nál. mþn., þá er mjög verulegur hluti í þeirri kostnaðaráætlun fyrir útlent efni, eða með óbreyttu núverandi verðlagi 42,1%. Er þar gert ráð fyrir verði á sementi 250 kr., og á erlendu efni til samans, sementi og járni, alls kr.105.000 á km., sem sagt 42,1% alls kostnaðar. Í þessu nál. eru settar upp mismunandi kostnaðaráætlanir með mismunandi sementsverði, frá 250 kr. verði á tonninu á sementinu og niður í 150 kr. Og það sýnir sig, að ef sementskostnaðurinn lækkaði niður í það síðar talda verð, þá getur kostnaðurinn í heild af verkinu lækkað um upp undir 20% eða um 40–50 þús. kr. af þessum 250.000 kr. Nú veit maður ekki, að þessi lækkun muni verða á sementinu. Frekar ætti þó að vera útlit til þess, að það gæti eitthvað lækkað á komandi árum, því að þó að það færi niður í það verð, sem í. þessum áætlunum er gert ráð fyrir lægstu á því, 150 kr. tonnið, þá er það þó þrefalt verð á við það, sem var fyrir stríð, þar sem það kostaði þá 40–50 kr. tonnið hingað komið. — Einnig af þessum ástæðum tel ég ekki rétt að tímabinda þessar framkvæmdir eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Hv. þm. Barð. spurðist fyrir um það, hvað mundi verða sagt um svipaða vegi annars staðar á landinu og hvort flutningur þessa máls mundi þýða það, að í framtíðinni yrði farið út á þá braut að setja sérstök l. um ákveðna tiltekna vegi, sem stórt átak þyrfti til byggingar á. Ég get ekkert sagt, hvað hæstv. Alþ. gerir í því efni. En ekki þætti mér það ólíklegt. Og ég get vel trúað, að setning laga sem þessara, ef frv. þetta verður samþ., geti dregið alvarlegan dilk á eftir sér, sérstaklega ef tímaákvörðun verður sett inn í l., eins og hér er gert ráð fyrir. Hins vegar tel ég, að hér sé um svo stórt mál að ræða og alveg sérstaks eðlis, að vel gæti komið til mála að fara út í alveg sérstaka fjáröflun í þessu skyni. Þar gæti ýmislegt komið til mála, eins og t. d. einhver hækkun á benzínskattinum eða svipuð tekjuöflun. Benzínskatturinn hjá okkur er mjög lágur, og gæti vel komið til álita, hvort hann gæti ekki eitthvað farið hækkandi. Má hugsa sér, að honum eða einhverjum svipuðum tekjustofni yrði varið til fjáraflana til vegagerða eins og þessarar.

Mín afstaða til málsins er í stuttu máli sú, að ég er mjög hlynntur því, að gerð verði góð bifreiðabraut með varanlegu slitlagi úr steinsteypu eða öðru varanlegu efni milli Reykjavíkur og Suðurlands. Ég tel hins vegar varhugavert að fara út á lánabrautina og byggja þetta upp aðallega með lánsfé. Og ég tel einnig varhugavert að binda þetta vissu tímatakmarki, eins og gert er í frv. — Einnig vil ég leyfa mér að geta þess, að enn, eftir 10 ár, er ólokið vegarsambandi, sem átti að geta orðið vetrarvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands, um Krýsuvík og Selvog, og mundi kosta að ljúka þeim vegi um 2½ millj. kr., eða um 2/3 hluta af því, sem gert er ráð fyrir, að unnið verði fyrir á einu ári að lagningu þessa vegar, sem frv. er um. Heppilegra hefði mér þótt, að gott átak hefði verið gert til þess að ljúka þessari vegargerð um Krýsuvík, til þess að hægt væri að prófa, hvernig sá vegur reyndist, áður en ákvörðun er tekin um að leggja þennan veg fyrir 20–24 millj. kr. Hins vegar viðurkenni ég, að sá vegur, um Krýsuvík, og þessi vegur, sem hér er um að ræða, eru ekkert sambærilegir að neinu leyti, og hafa málin heldur aldrei verið hugsuð þannig. Vegurinn um Krýsuvík er malarvegur og hugsaður sem vetrarvegur og því minna horft í lengdina, og hann er heldur ekki gerður með þeim beygjum og halla, sem nútíma bifreiðavegir eru gerðir með. Þess vegna eru þessir tveir vegir ekki sambærilegir. En ef Krýsuvíkurvegurinn yrði fullgerður á næstunni, mætti hugsa sér, að það mætti bjargast mun betur að vetrarlagi en nú, þó að einhver frestur yrði á lagningu fullkominnar bifreiðabrautar austur. En þessi nýja bifreiðabraut á fullkominn tilverurétt vegna þeirrar miklu umferðar, sem er á leiðinni milli Reykjavíkur og Suðurlands, og vegna þeirrar auknu umferðar, sem mundi af því leiða, að fullkominn vegur yrði lagður á þessari leið. Eins og sést á nál. mþn., sem hér fylgir, er sýnt fram á það með nokkrum og að mér finnst góðum rökum, að vextir af þessu fé, sem í þessa braut væri lagt, séu kannske nálægt því, sem hægt væri að spara í aksturskostnaði milli Reykjavíkur og Suðurlands, miðað við svipaða umferð eins og nú er. Og þar að auki má taka fram, að umferðin mundi aukast eftir að svona braut væri komin á þessari leið.

Ég, sem sagt, teldi rétt, að ekki yrði hrapað að neinu í þessu máli, sem er mjög stórt og þýðingarmikið, heldur yrðu farnar troðnari slóðir, þó að eitthvað yrði farið hægar með því móti en í frv. er gert ráð fyrir, og að leitazt væri við að vanda betur til framkvæmdar málsins og kunna fótum sínum fullkomlega forráð.

Fleira hef ég ekki að segja um málið nú, nema sérstakt tilefni gefist.