04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkv. ósk hæstv. landbrh. og fjmrh. og þannig til komið, að fyrir síðasta búnaðarþingi lá erindi frá mþn., sem starfað hafði að ýmsum landbúnaðarmálum, þar sem færð voru fram allskýr rök fyrir því, að mjög brysti á það, að þær búnaðarskýrslur, sem safnað væri hér, væru eins og æskilegt væri. Í fyrsta lagi væri það, að framtöl manna um búfjáreign færu fram að vorinu og að hreppstjórum veittist víðast hvar erfitt að fá það framtal svo nákvæmt sem æskilegt væri. Það er því lagt til, og kom fram ósk um það frá ýmsum, að þessu væri breytt á þann veg, að í staðinn fyrir að miða við fardaga framtöl þessi til búnaðarskýrslu, yrði miðað við áramót og að framtalið yrði samhljóða eignaframtali manna, sem hver og einn yrði að inna af hendi um áramót. Þessi breyt. yrði til allmikilla þæginda fyrir hreppstjóra, sem eiga að safna þessum skýrslum, vegna þess að þeir þurfa þá ekki annað en að taka á sínar skrár þessi framtöl manna. Og það er almennt álitið, að meiri trygging sé fyrir því, að framtalið verði rétt með því móti en með hinu mótinu, því að erfitt hefur reynzt að fá vorframtalið og margir hreppstjórar eru jafnvel farnir að taka upp framtal þetta eftir skattskýrslum, a. m. k. til vara, ef það kynni að bregðast, að vorframtal fengist hjá hlutaðeigendum.

Önnur hlið þessa máls er sú, að mjög hefur þótt skorta á það hér á landi, að hægt hafi verið af afla nokkurra ábyggilegra skýrslna um það, hve mikið landbúnaðurinn leggur til þjóðarbúskaparins. Það hafa verið gerðar tilraunir í þessa átt. Nefndir hafa starfað og reiknað og reiknað, en allt er það meira og minna ágizkanir, því að ekki hafa legið fyrir skýrslur um þetta, sem nokkuð sé byggjandi á. Í þessum till., sem ég minntist á, var gert uppkast að skýrsluformi, þar sem stuðzt er við framtöl manna um áramót, þar sem greinilega kæmi fram, hve mikið hvert þú legði af mörkum til þjóðarbúsins af t. d. mjólk, kjöti, ull o. s. frv. Þetta kemur allt fram í skattframtölum manna, og er auðvelt að taka þetta upp í skrár, sem hagstofan gerir. Á þennan hátt fengist mikilsvert yfirlit yfir framleiðslu landbúnaðarins og hve mikið landbúnaðurinn leggur til þjóðarbúsins. Og á þennan hátt væri auðveldara að fylgjast með, hve mikill eða lítill sá þáttur er frá ári til árs eða frá áratug til áratugs, sem landbúnaðurinn leggur þar til.

Ég hef rætt um þetta við hagstofustjórann, og hann taldi þessa breyt. mjög æskilega og vildi fyrir sitt leyti vinna að henni. Hann skrifaði svo ráðh. um þetta, og en frv. þetta flutt í framhaldi af því. En af því að í þessum till. var gert ráð fyrir, að skattanefndir ynnu úr skýrslum og skiluðu nokkrum hluta þessara skýrslna, leit ráðuneytið svo á, að ekki væri hægt að gera þessa breyt. öðruvísi en með því að fá heimild til þessa í l., sem kvæðu svo á, að skattan. væru skyldar til að taka þessa útdrætti úr skattaskýrslum manna og senda hagstofunni. Það er um þetta atriði, sem frvgr. fjallar, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Þetta ætti að liggja ljóst fyrir hv. þdm., a. m. k. öllum, sem kunnugir eru skattframtölum í sveitum. Og hvað skattanefndir snertir, er þetta hverfandi lítið aukaverk, þó að slíkur útdráttur sé tekinn upp.

Mál þetta er flutt af n., svo að ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að vísa því til n.