04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Vegna þeirra fyrirspurna, sem hv. 10. landsk. þm. beindi til mín, sé ég ástæðu að taka aftur til máls.

Hv. þm. álítur, og er ég þar honum fyllilega sammála, að áramótaframtalið til skatts sé áreiðanlegasta skýrsla, sem fram kemur í þessum efnum. Það er þess vegna tvímælalaus vinningur að nota það tækifæri til þess að taka upp búfjáreign manna, og skal það tekið fram, að það er ekki tilgangurinn að taka þau störf af hreppstjórum, og hreppstjórar hafa sem formenn þessara nefnda heimild til þess að nota þetta tækifæri og taka búfjáreign niður á þær skýrslur, sem þeir eiga að skila. Þetta er í rauninni ekkert annað en það, sem margir hreppstjórar eru farnir að gera, vegna þess að reyndin hefur orðið sú, a. m. k. veit ég til þess norðanlands, að hreppstjórar ná oft ekki nema fáum mönnum til að telja fram á hreppaskýrslum og verða að setja mönnum framtöl, sumar eða vetur, og þá ekki annað handhægara að grípa til en áramótaframtalið, sem er mjög svo hæpið. Það er því mikilsvert að koma þessu framtali þannig fyrir, að það sé sem réttast og miðað við þann tíma, sem á að miða, og auk þess stórmikil þægindi fyrir hreppstjórana.

Þetta segir um þessa skýrslu. Næsta skýrsla er b-skýrslan, sem nær yfir stærð ræktaðs lands, kálgarða, heyskaparmagn o. fl. Það er skýrsla yfir afurðir, sem jörðin gefur af sér. Þetta verður líka óbreytt eins verið hefur, og hreppstjórarnir hafa annazt um þessa skýrslusöfnun.

En þá er eftir þriðja atriðið, sem hingað til engri skýrslu hefur verið safnað um og allt virðist vera í lausu lofti með, og það er þetta: Hvað gefur bústofninn af sér? Um það hefur ekki verið safnað neinum skýrslum. Hvað er mikið framleitt af mjólk um allt land, og hve mikið af kjöti? Hve miklu er slátrað af fé til heimilanna, og hve mikið er lagt í verzlanir? Hvað eru seld mörg hross úr landi, hve mikil ull lögð fyrst og fremst inn í verzlanir, hve mikið tekið frá til heimilanna og þess háttar? Allt eru þetta ómissandi liðir, ef það á að vera hægt að reikna út, hvað landbúnaðurinn gefur mikið af sér, og það er í sambandi við þessa skýrslu, sem brtt. sú, er hér ræðir um, er fram borin, að heimila skattanefndum eða skipa þeim að taka upp innheimtur úr skattaframtölum manna. Þessar tölur eru settar á skrá, svo að fá megi heildaryfirlit yfir allt landið, en eins og stendur, er engin heimild til þess í lögum.

Ég vænti þá, að ég hafi gert grein fyrir þessu, að hreppstjórarnir eiga eftir sem áður að fylla út sínar tvær skýrslur, a- og b-skýrslu, búfjáreignir, áhafnir og þess háttar, en þriðju skýrsluna, sem nefna mætti c-skýrslu, eiga skattanefndirnar að útfylla.