06.03.1946
Neðri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

184. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvær brtt., önnur frá hv. 10. landsk. þm., um breyt. við frv. eða frvgr., og hin frá landbn. Þegar þessi till. kom frá hv. 10. landsk. þm., fór n. eða form. n. til hagstofustjóra og óskaði álits hans um það, hvað hann segði um þá till., og taldi hann sig vel geta fallizt á þá skipun, sem þar væri gerð. Þó taldi hagstofustjóri nokkuð vanta í till., svo að hún næði tilgangi sínum, og gerði á henni nokkra breyt., og er þá till. hér tekin upp, felld inn í meginefni till. hv. 10. landsk. og svo bætt inn því, sem hagstofustjóri taldi nauðsynlegt til þess að öruggt væri, að till. næði tilgangi sínum, en þessi breyt. er þannig, að formenn skattanefnda og skattstjórar skuli gefa hagstofunni skýrslur í því formi, sem hún ákveður, um búnaðarástandið á hverju ári, samkvæmt framtali búenda, sem nákvæmlega sé greint, einnig að því er þetta varðar, í landbúnaðarskýrslu þeirra til skattálagningar, enda verði þá ekki þörf fyrir skýrslur um þetta efni. Þetta er aðeins fyrirkomulagsatriði, og raunar má einu gilda um það. Ég get raunar gengið inn á, að þetta sé það bezta, að úr því að skattanefndunum á annað borð er falið að safna nokkru af skýrslum og ganga frá þeim, þá sé eðlilegast að ganga hreint til verks og fela sömu aðilum að vinna þetta verk í heild. Ég get líka gengið inn á, að nokkru meiri trygging sé fyrir því, að skýrslurnar séu þá réttari og öruggari, í samræmi við skattframtöl manna. N. mælir því með, að þessi brtt. verði samþykkt.