11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég er hv. frsm. meiri hl. sammála um það, að ekki þýði að ræða þetta mál hér, sökum þess að það er þegar búið að taka allar ákvarðanir í því og Alþ. gæti ekki breytt því nema í smáatriðum. Hins vegar veit ég ekki, hvort umr. eins og í gær hafi svo mikið gildi, að þess vegna sé ekki ástæða til að ræða þetta hér. Ég tek það fram í nál. og staðfesti það hér, að það er enginn ágreiningur um nauðsyn þess fyrir þjóðina að fá ný framleiðslutæki og þá einnig togara, og gildir sama um það, hvaða stjórn hefði verið við völd. En það verður að fylgja sömu reglu um þessa framkvæmd sem um aðrar, að hún sé framkvæmd á skynsamlegan hátt. Ýmsir telja samningana um togarana ekki sem hagkvæmasta, og allir sjá, hvað þeir eru dýrir. Það eru til skynsamir menn, þar á meðal gamlir togaraskipstjórar, sem telja skipin ekki að öllu leyti hentug til veiða hér við land. T. d. sé lestarrúm þeirra of lítið til þess að henta hér. Ég játa fáfræði mína á því, hvernig togarar eiga að vera, en ég veit, að allir hlutaðeigendur eru ekki ánægðir.

Þá er hér og annað atriði, og þar er aðalágreiningur milli Framsfl. og stj. Við teljum, að gera þyrfti ráðstafanir til þess, að tilkostnaður við rekstur þessara tækja yrði ekki svo mikill, að þau geti ekki borið sig. Þessi l. eru alveg einstök í sinni röð, bráðabirgðal. eða m. ö. o. lög, sem stjórnin setur sjálf, og þar er veitt hærri lánsheimild en áður hefur þekkzt. Ég er búinn að vera lengi á Alþ., en ég man ekki til þess, að það væri venja ríkisstjórnanna að veita sér sjálfar lánsheimild með brbl., og ef slíkt er gert, þá er aðhald Alþingis orðið harla lítið. Og tel ég þetta varasama braut. En ég þykist vita, að þetta verði afsakað með því, að samningar hafi borið svo bráðan að, að ekki hafi verið tími til að kalla saman Alþ., og kann svo að vera. En hitt er vitað, að ríkisstj. var margaðvöruð í sambandi við þingfrestunarmálið í fyrra vegna aðkallandi vandamála, en hún skellti skollaeyrum við því, og hún var fyrirfram ákveðin í því að gefa út bráðabirgðalög. Ríkisstj. kann að hafa borið þetta áður undir stuðningsflokka sína, en ekki undir Framsfl. En ég álít, að í öllum þingræðislöndum beri að ræða við alla flokka þingsins um slíkt mál sem þetta, áður en brbl. eru gefin út.

Þetta er utanríkismál, þótt það sé nokkuð sérstaks eðlis, og það er sérstök n. starfandi milli þinga, sem hægt hefði verið að bera þetta undir. En ríkisstj. segir máske sem svo, að niðurstaðan hefði orðið sú sama og því sé allt í lagi. En þetta er hættulegt fordæmi, og það getur verið, að niðurstaðan yrði ekki alltaf sú sama.

Ég ætla svo ekki að gera þetta frekar að umtalsefni, en þessu máli er ráðið til lykta án þess að vera borið undir Framsfl., og að málið er lagt fyrir Alþingi, er aðeins til þess að fullnægja formi, og sé ég því ekki ástæðu til að taka þátt í því. Hæstv. ríkisstj. ætlar sér allan heiðurinn, af þessu sem öðru, og ég hef enga löngun til að taka hann af henni eða ábyrgðina. En ég tek það fram, að ég tek ekki þátt í atkvgr., því að það er bara fyrir siðasakir, að ég og mínir flokksbræður fáum að greiða atkv. um þetta. Þó er hér eitt atriði, sem ég álít, að beri að breyta, en það er lántökuheimild í 2. gr. frv., sem stj. er veitt. Hæstv. forsrh. sagði í gærkvöldi, að það væri fullvíst, að þessir togarar væru seldir, þegar þeir væru tilbúnir, og ríkin væri því aðeins eigandi þeirra í bili. Samningarnir eru þannig, að ríkið á ekki að greiða nema 10% af verðinu í bili, en lánsheimildin er miðuð við allt verð skipanna. Og sé ég ekki, að það breyti samningunum nokkuð, þótt lánsheimildin væri lækkuð. Mér virtist, að miklu lægri lánsheimild mundi nægja, eða 10 millj. kr., en ég hef ekki viljað ganga svo langt, en legg til, að hún verði lækkuð um helming, eða niður í 30 millj. kr., og tel ég, að þetta hindri alls ekki framgang málsins. Á bls. 2 í nál. meiri hl. segir líka, að ekki sé líklegt, að nokkru sinni kæmi til þess, að ríkissjóður þyrfti að svara út öllu þessu fé, og hefði lánsheimildin því mátt vera lægri. Hv. meiri hl. segir því, að lánsheimildin hefði mátt vera lægri, og þegar það er upplýst, að svo er, því þá ekki að lækka hana? Og hvers konar stjórnardekur er það, ef þingmenn greiða atkv. að þarflausu gegn eigin sannfæringu?