11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði til leiðréttingar viðvíkjandi dieseltogurunum, skal ég geta þess, að ég hafði það, sem stendur í nál., eftir hæstv. forsrh., er hann sagði í ræðu, sem hann flutti í hv. Nd., sem var komin inn skrifuð. Það leiðréttist að sjálfsögðu, enda skiptir það ekki máli, nema allt er réttara, sem réttara er.

Af því að hæstv. forsrh. er hér ekki viðstaddur og ekki neinn úr hæstv. ríkisstjórn, sem mundu vafalaust svara aths. hv. 1. þm. Eyf., minni hl. n., er hann ræddi um bráðabirgðal. og setningu þeirra, þá finnst mér rétt að minnast á það nokkrum orðum, enda þótt hv. þm. Barð. gengi alveg frá því máli. — Það má vissulega segja, að bráðabirgðalagasetningarleiðina eigi ekki að fara um skör fram. Það hefur þó aukizt allmikið í seinni tíð, að sú leið hafi verið farin. Og eins og hv. þm. Barð. tók fram, leyfði næsta ríkisstj. á undan þeirri, sem nú situr, sér að gefa út mjög djarfleg bráðabirgðalög, hafandi ekki fylgi eins einasta þm. á Alþ., svo að það er undarlegt, að sú ríkisstj. skyldi yfirleitt leyfa sér bráðabirgðalagasetningarleiðina. Hitt er vitanlega allt annað mál, að ríkisstjórn með sterkum stuðningsmönnum, sem hún getur náð til, gefi út bráðabirgðalög og spari með því fyrirhöfn og stórkostlegan kostnað við að kalla alltaf þing saman, þegar svo ber undir, að löggjöf vantar til einhverra nauðsynlegra framkvæmda. Það væru ekki nein forsvaranleg vinnubrögð í slíkum kringumstæðum að kalla í hvert skipti þing saman, þegar svo stæði á. Það er að vísu rétt, að það er ekki Alþingi um að ræða, nema það komi formlega saman, en þó eru mennirnir hinir sömu og á Alþ., sem að því standa á bak við ríkisstj. að setja bráðabirgðalög, er ríkisstjórn leitar álits stuðningsþm. sinna milli tveggja þinga um setninga bráðabirgðalaga. Og ef þeir þm. telja sig sammála setningu vissra bráðabirgðal., þá er það ekki nema hreinn eintrjáningsháttur að halda, að það sé ekki alveg eins hægt þannig að setja lög upp á væntanlegt samþykki þm. Ríkisstj. gerir þetta á eigin ábyrgð, eftir að hafa kannað vilja stuðningsmanna sinna, og verður þá að víkja úr sessi, ef hún setur bráðabirgðalög þannig, að þau verða síðan ekki samþ. Og ég get upplýst, að það er fjarri því, að hér sé um slíkt að ræða, að ég hafi ekki orðið var við nokkra gagnrýni á þessu máli af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar.

Þá kom hv. 1. þm. Eyf. með það, að vanrækt hefði verið að bera málið undir Framsfl. Og það getur verið, að ræða megi um það, en þetta er hreint álitamál. Hitt er svo annað mál, að vitanlega hefði ekki nokkurt svar fengizt frá þeim flokki. Það er sama, um hvað núv. hæstv. ríkisstjórn spyr Framsfl., hann svarar ekki og telur sig ekki skyldugan til að svara. Hann hefði sennilega svarað á sama hátt og oft í öðrum málum, að hann væri með þessu máli, ef það væri tryggt, að framleiðslukostnaður lækkaði og dýrtíðin lækkaði í landinu, — þannig að þessi skip hefðu verið komin á aðrar hendur áður en framkvæmd slíkrar lækkunar hefði verið búin. Og í báðum hv. þd. kljúfa framsóknarmenn fjhn. í þessu máli, án þess þó að vera á annarri skoðun um sjálfan kjarna málsins. En þeir leita uppi smáatriði, til þess að geta klofið n. Geta má því nærri, hvernig þeir hefðu svarað í þessu efni. Hitt er annað mál, að það hefði verið formlegra að spyrja þá um álit í þessu máli. En svör þeirra geri ég mér ákaflega litlar vonir um, satt að segja.

Hv. 1. þm. Eyf. var að segja, að ágreiningur væri ekki um það milli Framsfl. annars vegar og hins vegar hinna flokkanna, hvort hægt væri að fá togara, heldur um það, hvernig líkurnar væru fyrir að reka þá með góðri afkomu, þannig að búið væri að lækka dýrtíðina og koma ýmsu í lag áður en skipin væru keypt. En það hefði verið sama sem að afsala sér þessum skipum. Og hv. þm. Barð. hefur nú dregið það fram, hve mikils virði það var að koma samningum á einmitt nú.

Þá er það með lánsheimildina. Það er satt, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál, en það lá ekki fyrir n. En mér datt í hug, að ríkisstj. yrði á einhvern hátt að hafa ráð á andvirði skipanna, a. m. k. bankaábyrgð eða slíkt. Og hvaða meining var það að ákveða lánsheimildina lægri en komið gat til mála, að ríkisstj. þyrfti hana mesta að nota? Mér skilst hv. 1. þm. Eyf. hafa gengið algerlega fram hjá því, sem stendur í 2. gr. frv.: „Til framkvæmda á 1. gr.“ En framkvæmd fyrstu gr. frv. er að láta smíða eða kaupa allt að 30 togara erlendis. með það fyrir augum, að þeir verði seldir einstaklingum, félögum eða bæjar- og sveitarfélögum. Það er því ekki hin minnsta hætta í því fólgin, þó að lánsheimildin sé ákveðin rífleg, því að lánsheimildin er bundin við þetta eina verkefni, sem í 1. gr. frv. getur, og hlýtur að falla svo fljótt úr gildi sem ríkisstj. er búin að framkvæma þetta, þ. e. a. s. ríkisstj. hefur ekki heimild til lántöku vegna þessa ákvæðis l., nema til þess og að svo miklu leyti sem hún þarf aðeins til þess að framkvæma þetta. Það mætti alltaf setja upp dæmi og þykjast reikna út, hve lágt ríkisstj. hefði getað farið. En það er ekki hygginna manna háttur að leggja upp í ferðalag með fé, sem þeir geta hugsað sér að geta komizt allra minnst af með. Hitt er betra, að vera birgur, og í þessu tilfelli einnig fyrir hæstv. ríkisstjórn. Og maður getur ekki ímyndað sér, að hæstv. ríkisstj. hafi tilhneigingu til þess að taka meira lán til þessa en þörf er á. Og það hefur ekki komið fram gagnrýni um það, hvernig ríkisstj. hafi tekizt í þessu atriði.

Hins vegar hefur komið fram skörp gagnrýni frá hv. 1. þm. Eyf. um þetta mál að öðru leyti. Það var engu líkara eftir hans ræðu en að menn hefðu farið út í þeim erindum að undirbúa kaup þessara skipa, sem aldrei hefðu skip séð. En það voru tveir útgerðarmenn, sem áttu að hafa gott vit á þessu, og einn bankastjóri, sem er, gegnum sitt langa starf, þaulkunnugur þessum málum. Og það er svo fjarri því, að illa tækist til um þeirra ferð, að ég hygg, að flestum hafi komið það alveg á óvart, hve vel ferð þeirra tókst. Ég heyrði talað um, að daufar vonir væru til þess, að hægt væri að fá mikið af skipum byggt til þess að kaupa hingað og leyfi fyrir þeim. Það var búið að knýja í gegn leyfi fyrir 6 togurum. Og ég hitti þá menn, sem stóðu mjög nálægt framkvæmd þessa máls, sem voru mjög vondaufir um það, að meira fengist flutt hingað af skipunum frá Bretlandi en það. Það varð mönnum því hið mesta fagnaðarefni, að þessir menn, sem út voru sendir, höfðu fengið leyfi fyrir og samninga við beztu skipasmíðastöðvar á Englandi um smíði á 30 togurum. Ég held, að mönnum hafi komið þetta ákaflega á óvart. — Og viðvíkjandi því, að sendar voru út tvær nefndir til samninga um þessi mál, þá var síðari nefndin send út þannig, að beinlínis var gert ráð fyrir henni af fyrri nefndinni, þannig að síðari n. skyldi, þegar til kæmi, ganga frá endanlegum samningum. Þeir menn, sem sendir voru út fyrr, fyrri nefndin, gengu frá samningum, eftir því sem hægt var þá, til að tryggja stjórnarleyfi og að tryggja skipasmíðastöðvar. Og svo eru sendir til þess færir menn að gera endanlega samninga um skipasmíðarnar. Þó að þeir, sem fóru í fyrri n., hefðu góða þekkingu, sem þurfti til skipakaupa, voru þeir ekki fagmenn í samningagerð.

Það hefur verið sagt hér, að þessar breyt., sem gerðar voru á málinu síðar, beri vott um, hve mál þetta hafi verið illa undirbúið. Það má náttúrlega alltaf segja þetta, og að bezt væri, að áður en byrjað var á málinu, ættum við að hafa getað vitað út í yztu æsar, hvernig við vildum haga smíði skipanna. Það þarf reyndar bara ekki annað en að byggja hús, til þess að menn sjái ekki allt fyrirfram, hvernig menn vilja svo síðar hafa það, þannig að menn vilja breyta ýmsu, jafnvel meðan verið er að byggja húsið. Þar að auki er þess að gæta, að jafnvel þegar fyrri nefndin fór utan, höfðum við tiltölulega óákveðnar vonir um, hvernig þetta málefni tækist í bráðina, og var því eðlilegt, að ekki væri búið að rannsaka til hlítar, hvernig menn vildu hafa þessi skip. Þá lá heldur enginn verðgrundvöllur fyrir. Og hvort menn vilja kaupa vandaðan hlut, getur farið nokkuð eftir því, hvert verð hans er. Þegar fengið var leyfi fyrir þessa 6 togara og látið var uppi, hvert verð þeirra mundi verða, þá var tími til þess kominn að leita álits um það, hvort menn vildu ekki kaupa fleiri sams konar skip með sömu kjörum. Og það var einróma álit hæstv. ríkisstj. og annarra manna, sem við málið komu, að menn vildu fá enn þá betri skip og betur út búin, búin meiri þægindum og betri tryggingum fyrir þá, sem áttu að vinna um borð í skipunum.

Það er leiðinlegt, að menn skuli ekki sameinast um það að vera ánægðir yfir því, sem vel tekst. Það er leiðinlegt, eftir að búið er að gera fasta samninga um byggingu á þessum skipum og borga fyrstu útborganir og allt þess konar, að þá skuli enn vera sagt, að nú sé sá gallinn á, að þetta fari aldrei í ganginn. Það hefði fremur mátt segja þetta fyrir dálitlu síðan, en ekki eftir að þetta mál er komið svona vel af stað.

Hv. 1. þm. Eyf, talaði um, að einhver skipstjóri hefði verið, sem hefði sagt, að það væri of lítið lestarrúm í þessum skipum. Hvenær veit hv. 1. þm, Eyf, um það, að allir hafi orðið sammála um, hvernig svona hlutir eiga að vera, eins og t. d., hvernig skip eiga að byggjast. Í öllum þessum hlutum verða menn að velja milli eins og annars. Ég hef ekki vit á því, hvernig byggja á togara. En það er varla til nokkur sá hlutur, að menn verði ekki að velja um hann á milli tvenns eða fleira. Þó að ekki sé um að ræða nema að byggja eitt lítið hús, þá verður maður að fórna einum kosti fyrir annan og svo endanlega að koma sér niður á, að svona sé þetta eða hitt viðkomandi húsbyggingunni eftir öllum atvikum heppilegast. Svo geta náttúrlega menn komið og sagt: Ég hefði viljað hafa þetta öðruvísi. — Og það er alltaf vitað, að sumir menn finna alltaf eitthvað að öllu, meinhorn, sem alltaf eru á móti því, sem ákveðið er.